Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:52:15 (5255)

1998-03-30 16:52:15# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hv. 9. þm. Reykn. var afskaplega góður vottur um að dylgjur hans eru með öllu órökstuddar. Það var afskaplega gott vitni um órökstuddar dylgjur. Engir tilburðir voru hafðir í frammi um rökstuðning fyrir fullyrðingunum og yfirlýsing mín stendur því eftir sem áður að þessar dylgjur voru settar þannig fram og eru ekki svara verðar. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að eiga orðastað við hv. þm. um allar þær embættisveitingar sem ég hef tekið ákvörðun um á undanförnum árum og get fullyrt að eru í einu og öllu í samræmi við hagsmuni viðkomandi embætta og byggðar á mati á því hverjir hafa í hverju tilviki verið hæfastir til þess að gegna viðkomandi embætti.

Athugasemd mín stendur alveg óhögguð um matið á því að það er eðlilegt að fyrri mgr. 4. gr. frv. sé eins og hún er. Það er í bestu samræmi við þau meginsjónarmið sem hafa legið að baki þeim ákvörðunum hverjir standa að skipun æðstu embættismanna ríkisins.