Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:24:25 (5266)

1998-03-30 17:24:25# 122. lþ. 98.8 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:24]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. sjútvn. um frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er 209. mál þingsins og er á þskj. 222.

Nefndin fjallaði um þetta mál og fékk til fundar við sig ýmsa aðila úr sjútvrn. og úr því nefndarstarfi sem liggur til grundvallar frumvarpsflutningnum.

Frv. gengur út á það að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem koma eiga í veg fyrir að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu sömu aðila eða í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila geti farið umfram tiltekin mörk. Frv. var samið af nefnd sem skipuð var af hæstv. sjútvrh. til að skoða þetta mál sérstaklega. Formaður nefndarinnar var Baldur Guðlaugsson hrl. og kom hann ásamt fleirum fyrir nefndina.

Umsagnir bárust frá ýmsum aðilum, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum um þjóðareign, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Sjómannasambandinu, Verðbréfaþingi Íslands og Þjóðhagsstofnun.

Eins og áður sagði, herra forseti, felur frv. í sér takmarkanir eða hámark á því hlutfalli aflahlutdeildar úr fiskstofnum sem fiskiskip í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila geta átt og sömuleiðis heildarhlutdeild í aflamarki allra tegunda sem sæta takmörkunum. Fyrir frumvarpsflutningnum hafa verið færð ýmis rök og eru þau tíunduð í grg. með frv. Sjútvn. vill sérstaklega benda á þar til viðbótar þau rök sem tengjast einfaldlega stærð og mikilvægi sjávarútvegsins í íslenskum þjóðarbúskap og því að ekki er hyggilegt að öll eggin, ef svo má að orði komast, fari í eina körfu eða mjög fáar, og því geta áhættudreifingarrök einnig verið fullgild og legið til grundvallar því að tryggja með tilteknum hætti fjölbreytni og fjölda rekstrareininga í greininni.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með tilteknum breytingum sem lagðar eru til og fluttar á þskj. 1032. Þær breytingar eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að fella niður nokkrar tilvísanir í ákveðin ákvæði eða tilteknar málsgreinar laga, sérstaklega á það við um 1. gr. frv. Þar eru allmargar lagatilvísanir sem eru ýmist óþarfar og jafnvel ekki rétt að þrengja efni ákvæðanna eins og gert er með þeim tilvísunum heldur talið eðlilegra að vísa í viðkomandi lög sem slík.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 3. efnismgr. 1. gr. frv. sem snúa að því að ganga frá því með skýrum og ákveðnum hætti vegna aðila sem hafa á kaupleigu eða leigu fiskiskip, að einungis skuli telja aflahlutdeild slíkra fiskiskipa með þegar leigusamningur eða kaupleigusamningur sé gerður til sex mánaða eða lengri tíma. Tilgangur þessarar breytingar er að koma þarna fyrir skýrri efnisreglu og freista þess að sporna við málamyndagerningum eigenda fiskiskipa sem gætu miðað að því að víkjast undan ákvæðum laganna, komast undan þeim takmörkunum sem lögin fela í sér hvað varðar hámark aflahlutdeildar einstakra aðila.

Í þriðja lagi leggur nefndin til þá breytingu að hámarksaflahlutdeild einstakra lögaðila skv. 5. mgr. 1. gr. verði hækkuð úr 10% í 12%. Hér er um að ræða sérstakt ákvæði sem tekur til þeirra félaga sem eru í eigu margra aðila þar sem gilda ákvæði sömu málsgreinar um dreifða eignaraðild og yfirleitt þá almenningshlutafélög þar sem sett eru mjög ákveðin ákvæði um hámarkseign einstakra aðila. Nefndinni þótti of lítill greinarmunur gerður á þessum aðilum annars vegar og þeim sem 2. mgr. sömu greinar tekur til en þar er talað um 8% hámark af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla. Úr því lögin gera þennan greinarmun á annað borð þótti mönnum eðlilegra að þarna væri dálítið lengra bil á milli og niðurstaðan varð sú að leggja til að færa þetta 10% hlutfall upp í 12% þannig að mörkin verða þá 8% annars vegar fyrir þá aðila sem ekki uppfylla skilyrðin um dreifða eignaraðild og 12% fyrir hina.

[17:30]

Í fjórða lagi er lögð til sú breyting á uppsetningu eða framsetningu frv. að 6. og 7. mgr. 1. gr. falli brott en í staðinn komi ný grein, verði þá 11. gr. b, með sömu ákvæðum efnislega að mestu leyti. Þetta er gert aðallega vegna þess, herra forseti, að eins og frv. var fram borið var 1. gr. frv. og önnur efnisgrein frv. var sem sagt rúmar tvær blaðsíður í frumvarpsskjalinu. Það þótti okkur fullmikið af því góða, herra forseti, þannig að við ákváðum að skipta þessu þá a.m.k. upp í tvær lagagreinar og flytjum um það brtt. Jafnframt kemur þar til sú efnisbreyting að sá aðlögunartími sem aðilar hafa sem lenda af einhverjum ástæðum upp fyrir þau viðmiðunarmörk sem lögin kveða á um er lengdur samkvæmt brtt. okkar í d-lið á þskj. 1032 úr þremur mánuðum í sex mánuði. Það felur einfaldlega í sér að menn fá helmingi lengri frest til þess að bregðast við og koma aflahlutdeildareign sinni niður fyrir þau mörk sem lögin kveða á um en áður var. Mönnum fundust þrír mánuðir fullskammur tími í þessu sambandi.

Í fimmta lagi þarf að gera breytingu á tilvísunum í samræmi við þá breytingu að skipta 1. gr. frv. upp í tvennt og 3. töluliður brtt. á þskj. 1032 gengur út á að breyta tilvísunum í samræmi við það.

Þá er í sjötta lagi lagt til, eins og mjög er í tísku um þessar mundir, að við frv. bætist nýtt ákvæði til brb. sem leggi þær skyldur á sjútvrh. að hann leggi fyrir Alþingi skýrslu að liðnum fimm árum frá gildistöku laganna um áhrif þeirra á íslenskan sjávarútveg. Ég leyfi mér að vekja athygli manna á því að um þetta orðalag var komið samkomulag í hv. sjútvn. áður en svonefnd þríhöfðafrumvörp komu þar til umfjöllunar þannig að frumkvæðið eða fordæmið er þá frekar sótt hingað en öfugt. Mönnum þótti ástæða til þess að þar sem um algert nýmæli er að ræða í löggjöfinni á þessu sviði að setja inn takamarkanir af þessu tagi á stærð fyrirtækja í sjávarútveginum og reyndar nýmæli í íslenskri löggjöf, hygg ég vera, nema ef vera skyldi að hægt sé að segja að ákvæði samkeppnislaga séu að einhverju leyti sambærileg þegar að því kemur að tryggja samkeppni og hugsanlega að sporna við samruna fyrirtækja til að afstýra fákeppni eða einokun. Hins vegar er um að ræða mjög sérstök ákvæði sem setja tiltekin og ákveðin stærðarmörk á fyrirtæki í einni atvinnugrein og m.a. með vísan til þess þótti mönnum í sjútvn. ástæða til að tryggja með lagaákvæði af þessu tagi að staðan yrði metin að nokkrum árum liðnum og þá farið yfir það til hvaða breytinga þetta hefði leitt eða hvaða áhrif þetta hefði haft á þróunina í atvinnugreininni.

Undir nál., herra forseti, skrifa allir nefndarmenn í sjútvn. og sömuleiðis sat fundi nefndarinnar áheyrnarfulltrúi Kvennalistans, Guðný Guðbjörnsdóttir, og er hún samþykk áliti þessu. Við leggjum sem sagt til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.