Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:39:35 (5268)

1998-03-30 17:39:35# 122. lþ. 98.8 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins að taka það fram að í raun og veru er enginn ágreiningur um það atriði sem hv. þm. vék að og fjallað er um í nál. Það mætti kannski segja að nákvæmara orðalag hefði verið að sjútvn. vilji sérstaklega vekja athygli á þessum rökum en endilega að vera að gefa í skyn, eins og orðalagið gerir kannski, að þau hafi vantað í sjálfu sér af hálfu málsflytjenda. Segja má að þau komi að nokkru leyti fyrir neðst á bls. 5 og bls. 6 í fskj. með frv. Þó eru það ekki beinlínis þessi áhættudreifingarrök sem þar eru tíunduð heldur er varað við því að einstakir aðilar geti fengið of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum o.s.frv. En það sem sjútvn. vildi draga fram með þessu orðalagi í nál. var ósköp einfaldlega efnahagsleg áhætta sem í því gæti verið fólgin fyrir þjóðarbúið að of fáar einingar yrðu í þessum rekstri sem er jafnstór og raun ber vitni í þjóðarbúskap okkar.