Veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:41:22 (5269)

1998-03-30 17:41:22# 122. lþ. 98.9 fundur 340. mál: #A veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:41]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. sjútvn. um frv. til laga um rétt til veiða og vinnslu afla í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nefndin hefur fjallað um málið og fékk til fundar við sig fulltrúa frá sjútvrn. og umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Landhelgisgæslunni, Fiskistofu, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum iðnaðarins.

Frumvarpið gengur út á að sett verði heildarlög um heimildir erlendra veiði- og vinnsluskipa til athafna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og í höfnum landsins og að þetta frv. leysi af hólmi eldri lög á þessu sviði. Það er sett m.a. með hliðsjón af reynslu af lögum nr. 13 frá 1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Ísland. Komið hefur í ljós að nauðsynlegt er að gera ýmsar breytingar m.a. með hliðsjón af breytingum sem orðið hafa í hinu alþjóðlega umhverfi og vegna alþjóðasamninga um stjórn fiskveiða. Þá er og nauðsynlegt að kveða skýrar á um heimildir íslenskra stjórnvalda til setningar reglna um veiðar þeirra erlendu skipa sem fá veiðiheimildir innan fiskveiðilandhelginnar. Auk þess þykir rétt að setja fyllri reglur um framkvæmd milliríkjasamninga og leyfisveitinga samkvæmt þeim og ákveðin mál sem hafa komið upp eins og í samskiptum okkar við norskan síldarflota kalla á breytingar af þessu tagi.

Þá eru felld inn í frv. nokkur ákvæði laga nr. 151 frá 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, svonefndra úthafsveiðilaga, sem betur þykja eiga heima hér. Þetta lýtur að réttindum erlendra skipa til þjónustu hér við land.

Meginreglur að þessu leyti verða óbreyttar, sem sagt þær að óheimilt er að veita erlendum skipum veiðiheimildir í íslenskri lögsögu nema að undangengnum milliríkjasamningum. Það er hin almenna regla, að vísu með undanþáguheimildum ef um rannsóknarveiðar er að ræða. Sömuleiðis er almenna reglan að erlendum veiðiskipum er veittur frjáls aðgangur að íslenskum höfnum til að landa afla og leita þjónustu, nema í þeim tilvikum þegar stundaðar eru veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan lögsögu og utan, þ.e. íslenskum deilistofnum, ef ekki hefur náðst samkomulag um nýtingu þeirra. Þá snýst reglan við og löndun er bönnuð nema með sérstakri undanþáguheimild frá ráðherra.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þskj. og þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að nokkuð hert ákvæði verði sett inn í frv. um tilkynningarskyldu erlendra skipa í íslenskri lögsögu, sbr. 4. gr. frv. Þetta er samkvæmt ábendingum frá Landhelgisgæslunni en Gæslan telur að það muni auðvelda að hafa eftirlit með dvöl þessara skipa í íslenskri landhelgi.

Í öðru lagi lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 7. gr., sem heimili Landhelgisgæslu eða Fiskistofu að kalla skip til hafnar ef eftirlit samkvæmt 1. mgr. 7. gr. getur einhverra hluta vegna ekki farið fram á sjó. Tekið skal fram í sambandi við það ákvæði sem áður ræddi um, þ.e. 2. tölulið brtt., að gætt sé þá meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við beitingu þess ákvæðis.

Í þriðja lagi leggur sjútvn. til að fyrirsögn frv. verði breytt þannig að skýrt komi fram í heiti laganna hvert sé megingildissvið þeirra, þ.e. að það taki fyrst og fremst til veiða og vinnslu erlendra skipa og því er lagt til að fyrirsögn orðist svo: Frumvarp til laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn í sjútvn. Guðný Guðbjörnsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk álitinu. Við leggjum sem sagt til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.