Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:46:17 (5270)

1998-03-30 17:46:17# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:46]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta samgn. ásamt brtt. um frv. til laga um loftferðir.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði hér á landi ný loftferðalög sem leysi af hólmi gildandi lög um loftferðir og lög um stjórn flugmála. Íslensku loftferðalögin hafa þjónað hlutverki sínu með ágætum á gildistíma sínum. Þau hafa hins vegar ekki fylgt þeim miklu breytingum sem hafa orðið í flugmálum undanfarna þrjá áratugi. Tækniþróun flugsins er hröð og alþjóðlegt lagaumhverfi tekur miklum breytingum. Starfsemi af því tagi sem lög um loftferðir ná til er að umtalsverðu leyti alþjóðleg. Því er brýnt að laga íslenska löggjöf að þessu leyti að nýjum veruleika.

Sem dæmi um það hvernig umhverfi þessara laga hefur breyst get ég tekið dæmi af gildandi lögum um loftferðir frá 21. maí 1964, í 52. gr., þar sem segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Nú neytir flugstjóri eða annar flugverji áfengis á opinberum veitingastað og veitingamaður eða þjónar hans vita eða hafa ástæðu til að ætla, að hann muni verða brotlegur við 1. og 3. mgr., og ber þeim að gera allt, sem unnt er, til að afstýra broti, þar á meðal að gera lögreglu viðvart. Lögreglustjórar skulu, hver í sínu umdæmi, brýna ákvæði þessarar greinar fyrir veitingamönnum.``

Við vitum það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir góðan vilja lögreglustjóra og lögreglumanna, ég tala nú ekki um veitingaþjóna, þá er hér um að ræða ákvæði sem hefur ekki haft neinn praktískan tilgang og eitt af því sem lagt er til við endurskoðun þessara laga er einmitt að þetta ákvæði verði ekki lengur í lögum um loftferðir.

Þær breytingar sem felast í frv. eru margs konar eins og kom fram við 1. umr. málsins. Það má geta í stuttu máli nokkurra en vísa má að öðru leyti til grg. frv. og framsöguræðu hæstv. samgrh. Nefna má breytingu sem lögð er til á skaðabóta- og tryggingarákvæðum í tengslum við loftferðir, bótamark hefur verið stórhækkað auk þess sem ábyrgð flytjanda hefur verið aukin allt til samræmis við þróun undanfarinna ára, m.a. í erlendri löggjöf. Fullyrða má að þessar breytingar feli í sér mikla réttarbót fyrir farþega. Í breytingunum felst að ákvæði íslenskra laga verða aðlöguð þeim réttarreglum sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við skyldur okkar á þeim vettvangi. Þá hafa skilgreiningar í frv. verið gerðar skýrari og markvissari en í gildandi lögum, meðal annars um lofthæfi, flugverja og flugliða, auk þess sem orðanotkun hefur verið samræmd nútímaorðafari. Breytingar eru lagðar til á refsiákvæðum loftferðalaga. Að lokum má geta þess að gert er ráð fyrir að eytt verði þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur um stöðu flugráðs, sérstaklega eftir síðustu lagabreytingar sem gerðar hafa verið.

Samgöngunefnd hefur fjallað ítarlega um málið, farið yfir umsagnir og hlýtt á athugasemdir gesta. Meiri hluti nefndarinnar telur að sú umfjöllun hafi verið greinargóð og leitt í ljós að ekki sé þörf á viðamiklum breytingum á frv. Þó eru nokkur atriði sem meiri hlutinn telur nauðsynlegt að færð verði til betri vegar eins og rakið verður hér á eftir.

Það er í fyrsta lagi varðandi 6. gr. frv., hugtakið ,,sjálfstæð stofnun``. Við fengum athugasemd frá Páli Hreinssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann vekur athygli á því að hér sé augljóslega um að ræða nokkurn hugtakarugling í frv. þar sem talað er um ,,sjálfstæða stofnun`` en bersýnilega er átt við ,,sérstaka stofnun``. Páll Hreinsson rekur þennan mun á sjálfstæðum og sérstökum stofnunum og kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnvaldsákvörðunum sjálfstæðra stofnana verði ekki skotið til ráðherra til endurskoðunar en það er aftur á móti hægt að gera varðandi sérstakar stofnanir. Ef við lesum athugasemdir við 2. kafla frv. til loftferða er bersýnilegt að út frá því er gengið að hægt sé að kæra ákvarðanir Flugmálastjórnar til ráðherra og þannig virðast þessi lögskýringargögn gera ráð fyrir að fremur sé um sérstaka stofnun að ræða, en ekki sjálfstæða, enda verða ákvarðanir sjálfstæðra stofnana ekki kærðar til ráðherra án skýrrar lagaheimildar eins og menn vita. Þess vegna er mjög mikilvægt að hugtakanotkunin sé alveg skýr og því leggur samgn. til að í stað hugtaksins ,,sjálfstæð stofnun`` standi ,,sérstök stofnun`` og það sé þá hin lögformlega staða Flugmálastjórnar.

Í öðru lagi tel ég rétt að rekja aðeins þær breytingar sem hafa verið gerðar í frv. varðandi stöðu flugráðs sem er í samræmi við stefnu síðari ára um fækkun stjórna. Beint stjórnsýslusamband verður milli Flugmálastjórnar Íslands og samgrh. eins og ég hef þegar rakið. Frv. gerir ráð fyrir að flugráð sé einungis ráðgefandi. Meiri hlutinn leggur til í meðferð þingsins að hlutverk flugráðs sé nokkuð breytt og hlutverk þess útvíkkað. Lagt er til að auk ráðgefandi stöðu verði flugráði fengin lögbundin umsagnaraðild um nánar tilgreind málefni, sem eru síðan tíunduð sérstaklega í brtt. Þetta er gert til að treysta stöðu flugráðsins. Það skal tekið fram varðandi orðin ,,við stjórn flugmála`` í brtt. meiri hlutans, að þau hnykkja enn frekar á þessu lögbundna umsagnarhlutverki flugráðsins. Ekki er gert ráð fyrir að flugráð fari með stjórnsýsluvald þannig að ráðið úrskurði í kærumálum eða ákvarði um rétt og skyldur manna. Þess vegna felur sú breyting ekki í sér breytingu á hlutverki Flugmálastjórnar eins og það er skilgreint í 6. gr. Enn fremur leggur meiri hlutinn til að gerð verði breyting á því hvernig skipað verði í flugráð. Það er lagt til að Alþingi kjósi þrjá af fimm flugráðsmönnum en ráðherra skipi tvo sem fylgi embættistíma hvers ráðherra í stað þess að ráðherrann skipi alla, eins og frv. gerir ráð fyrir. Auk þess töldum við ástæðu til að lögfesta þá meginreglu að varamenn mæti einungis til funda þegar aðalmenn eru forfallaðir en gera má ráð fyrir að eftir sem áður fái varamenn fundargerðir og gögn funda.

Þá vil ég nefna aðeins í þessari yfirferð eina breytingu til sem er varðandi skyldu til vátryggingar loftfars skv. 1. mgr. 131. gr. sem við leggjum til að verði lögð á umráðanda loftfars hverju sinni. Meiri hlutinn telur eðlilegast að flugrekandinn, umráðandinn, skuli sjá um að taka og halda við vátryggingu. Í þessu sambandi má nefna að einungis fá skráðra loftfara í flutningaflugi á Íslandi eru í eigu íslenskra aðila og framkvæmdin gæti orðið erfið ef skyldan hvíldi á eigandanum. Í raun er það flugrekandinn sem sér um tryggingamál loftfara. Þá er lagt til að við 131. gr. bætist ný málsgrein, sem verði 5. mgr., sem skyldi eigendur kennslu- og einkaflugvéla til að taka og viðhalda slysatryggingu fyrir þá sem ferðast með slíkum vélum. Hér á landi hafa orðið hörmuleg flugslys í einkaflugi þar sem einungis flugmaðurinn hefur verið tryggður og fjölskyldur þeirra sem hafa slasast eða farist hafa litlar sem engar bætur fengið. Meiri hlutinn telur rétt að brugðist sé við því með því að koma á skyldubundinni slysatryggingu á þessu sviði samhliða því að bótaréttur farþega í flutningaflugi er stóraukinn í samræmi raunar við alþjóðlegar reglur.

Þá tel ég rétt að vekja athygli á að meiri hlutinn hefur enn fremur lagt til breytingar á þeim ákvæðum sem lúta að stjórn leitarstarfs samkvæmt 2. mgr. 132. gr. þegar flugslys hefur orðið. Talið er eðlilegast að Flugmálastjórn stjórni leitarstarfi fram til þess að slysstaður finnst því að enginn aðili er betur til þess búinn að staðsetja flugvélina og stjórna leit á því stigi. Þegar leitarstaður er fundinn taki lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi við ábyrgð á vettvangsstjórn í samræmi við gildandi lögreglulög. Rannsóknarnefnd flugslysa er ekki ætlað það hlutverk samkvæmt lögum að stjórna björgun á slysstað heldur einungis að fara með vettvangsrannsókn til þess að freista þess að leiða í ljós orsakir slyssins. Vettvangsstjórn lögreglustjóra felur í sér að hann fari með yfirstjórn björgunaraðgerða og leitar ef þess þarf með. Vettvangsrannsókn tekur einungis til rannsóknar á orsökum slyssins en ekki til lögreglurannsóknar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Gengið er út frá þeirri meginreglu að slík rannsókn sé í höndum lögreglu í samræmi við 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

Að lokum vil ég nefna að í brtt. meiri hlutans eru settar skýrari reglur um heimildir Flugmálastjórnar til að innheimta gjöld sbr. 139. gr. og 71. gr. í samræmi við það sem hefur verið að gerast á þessu sviði í löggjöf okkar, að treysta frekar gjaldtökuheimildir vegna ákvæða stjórnarskrár þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Undir þetta nál. skrifa auk formanns og frsm. hv. þm. Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson og Árni Johnsen.