Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:55:45 (5271)

1998-03-30 17:55:45# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:55]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta samgn. sem skipa auk undirritaðs hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Áður en ég fer yfir þær helstu athugasemdir sem við hv. áðurgreindir þm. gerum við frv. sem hér er til 2. umr. vil ég vekja á því sérstaka athygli að í framsögu hv. formanns samgn., hv. 1. þm. Vestf., drap hann ekki einu orði á það sem er að sönnu langstærsta breytingin í því frv. sem við erum hér að fjalla um, og er í raun eðlisbreyting á skipan þeirra mála sem við höfum átt að venjast á vettvangi flugrekstrar. Það er sú heimild til einkavæðingar sem er að finna í 7. gr. frv. Ef ég man rétt var lítið komið inn á það við 1. umr. málsins. Maður hefur á tilfinningunni að það hafi verið með vilja gert að keyra niður þennan þátt málsins, hafa hann í bakhönd og ekki allt of sýnilegan. En það er alveg ljóst og ég ætla að segja það hér og nú, virðulegi forseti, að þær heimildir sem þar er að finna til handa Flugmálastjórn og hæstv. samgrh. eru mjög víðtækar. Þessir aðilar geta í raun og sanni haft þann hátt á sem þeir kjósa og vilja og án þess að spyrja kóng eða prest um það, hvað þá hið háa Alþingi. Með öðrum orðum, hér er enn og aftur lagt til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þessarar hægri stjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., að þingið afsali sér í einu og öllu forræði og eftirliti með mikilvægum opinberum rekstri, mikilvægri opinberri þjónustu og framkvæmdarvaldinu gert kleift eftir því sem það vill frá einum tíma til annars að fara með þau mál eins og það kýs. Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt annað en að rifja upp tiltölulega nýlega lagasetningu. Þar á ég við hlutafélagavæðingu Pósts og síma sem hefur þróast nákvæmlega á þann veg sem spáð var og sagt fyrir um í ítarlegri umræðu um þau mál, nefnilega að hlutafélagavæðingin eða formbreytingin á því fyrirtæki var auðvitað eingöngu fyrsta skrefið. Þar var eingöngu um það að ræða að hið háa Alþingi sleppti með öllu forræði á málinu, forræði á því mikilvæga þjónustufyrirtæki og færði það nánast að öllu leyti í hendur hæstv. samgrh. Við eins og aðrir Íslendingar höfum fylgst með því hvernig hann hefur farið með það. Það er efni í alllanga umræðu sem ég ætla ekki að hefja hér og nú en óhjákvæmilegt er að minnast á. Hæstv. ráðherra hefur skipt þar fyrirtækinu upp til helminga. Um það var þráspurt í þeirri umræðu og því var jafnoft neitað af hálfu hæstv. ráðherra. Um það var líka þráspurt í þeirri umræðu hvort uppi væru áform um að selja eignarhluta ríkisins, eignarhluta almennings í Pósti og síma. Jafnoft var því svarað afdráttarlaust neitandi.

[18:00]

Nú er hins vegar komið á daginn og hæstv. samgrh. lýsti því yfir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hans draumur og hans vilji og hans ætlan sé að koma þessum hlutum á markað þannig að ástæða er til þess við þessa umræðu, virðulegi forseti, að skoða aðeins reynsluna af samskiptum þings við framkvæmdarvald, reynsluna af svörum hæstv. samgrh. til hv. þingmanna þegar kemur að ákvörðunum á borð við þær sem við ætlum hér að taka viðvíkjandi loftferðum.

Nefndarálit minni hlutans tekur til þessa þáttar m.a. sem ég gerði að mínum upphafsorðum. Ég vil segja það strax að minni hlutinn getur ekki stutt það frv. eins og það er hér úr garði gert af nokkrum ástæðum sem ég mun rekja og reifa.

Það er að sönnu hárrétt sem fram kom í máli hv. 1. þm. Vestf., formanns samgn., að hér er um að ræða lagasetningu sem að magni til, þegar horft er á þetta viðamikla frv. í því ljósi, er fyrst og fremst lagahreinsun, endurbætur sem þörf er á að gera út frá tæknilegum forsendum, út frá breyttri þjóðfélagsskipan og út frá nauðsyn þess að koma þessum málum öllum undir einn hatt og í aðgengilegt form og minni hlutinn út af fyrir sig gerir engar athugasemdir við það verklag og vinnulag og tók enda mjög virkan þátt í störfum nefndarinnar sem voru eins og fram kom býsna viðamikil enda margir aðilar sem komu þar að verki eins og segir í lista umsagnaraðila í nefndaráliti meiri hluta samgn.

Það hefur verð dálítið fróðlegt að fylgjast með því hvernig kaup hafa gerst á eyrinni hvað varðar skipan flugráðs sem talsmaður meiri hluta nefndarinnar gerði að umtalsefni. Það kom mjög fljótt í ljós að lítil sátt var um þá skipan mála sem hæstv. samgrh. lagði upp með í frv. þar sem ráð var fyrir því gert að hann réði þessu öllu einn og skipaði flugráð að fullu og öllu. Og það sem meira var að völd flugráðs voru út af fyrir sig að engu gerð. Það hafði mjög lauslegan umsagnarrétt, ráðgefandi rétt, en það var algjörlega á valdi hæstv. ráðherra hversu mikið hann kallaði eftir slíkri ráðgjöf eða þá sem mikilvægara er, hvort hann tæki nokkurt mark á henni. Það kom fljótlega fram af hálfu nefndarmanna, bæði í minni hluta og meiri hluta, að þetta væri skipan sem ekki væri hægt að búa við. Það varð úr að meiri hluti nefndarinnar kom fram með brtt. á síðustu stigum umfjöllunar málsins sem er að finna á lista yfir þær brtt. sem meiri hlutinn flytur. Þar er lendingin býsna kúnstug, svo ekki sé nú meira sagt.

Í fyrsta lagi: Hver skipar? Nú er lagt til að hæstv. ráðherra skipi formann og varaformann ráðsins. Alþingi hins vegar kjósi þrjá ráðsmenn, þrjá fulltrúa þingsins. Ég efast satt að segja um það og kalla eftir því hvort mörg fordæmi séu um þessa skipan mála. Víst er það þekkt að ráðherra skipi formenn stjórna, nefnda og ráða, en ég man ekki eftir mörgum dæmum þess að hann hafi á hendi skipunarvald formanns og varaformanns tveggja af fimm nefndarmönnum. En menn munu þá væntanlega tína þau hér til. Meðan ég heyri ekki um þau þá vil ég halda því fram að hér sé um hálfgerða nauðlendingu að ræða, einhvers konar ráðabrugg meiri hluta nefndarinnar í samskiptum við samgrh., einhvers konar sáttargjörð þeirra í millum þar sem ráðherra fær að halda ákveðnu forræði málsins á eigin hendi en þingið þó að vera með.

Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar eða lagfæringar skulum við segja á hlutverki ráðsins í þessum brtt. sem meiri hlutinn flytur og rétt að skjóta því inn, virðulegi forseti, að þær eru ófáar. Þær eru einar þrjátíu talsins og segir það dálítið um verklag og vinnubrögð í hinu háa ráðuneyti. En látum það vera. Í þessum brtt. eru nú tekin ákveðnari skref í þá veru að flugráð eftir allt saman hafi einhverju hlutverki að gegna öðru en því sem áður var gert ráð fyrir, þ.e. að veita ráðherra ráðgjöf ef hann óskaði og vildi.

Nú eru tilgreind ein sex eða sjö atriði sem flugráði er heimilt að fjalla um og flest af því er til bóta og skynsamlegt að flugráð taki á. En ég vek þó sérstaka athygli á því að enn þá er það nú þannig að flugráð út af fyrir sig tekur ekki við þeim erindum sem berast frá hagsmunaaðilum eða öðrum sem þurfa að sækja sín erindi til flugmálayfirvalda, Flugmálastjórnar Íslands. Þau munu stöðvast mestan part hjá flugmálastjóra og ef vill fara beinustu leið þaðan til hins háa ráðuneytis. Flugráð kemur þar hvergi nærri. Flugráð hefur þó samkvæmt þessum brtt. heimild til þess að taka upp einstök mál ef það kýs svo. En hvað síðan gerist í kjölfarið er algjörlega óráðin gáta. Eftir sem áður er flugráð dálítið í lausu lofti lofti og vantar nauðsynlega viðspyrnu til þess að það geti sinnt því hlutverki sem því er hér ætlað lögum samkvæmt.

Nú veit ég og skal viðurkenna að hlutverk og skipan flugráðs fram til þess tíma hefur kannski ekki verið þannig að til fyrirmyndar væri. Það hefur verið ákveðin réttaróvissa hvað varðar stöðu þess innan stjórnkerfisins en því miður er það svo að henni er alls ekki eytt með þessum brtt., með þessu frv. sem hér er að finna. Það er því ekki rétt fullyrðing í nál. meiri hluta samgn. að hér sé réttaróvissu eytt hvað varðar hlutverk flugráðs.

Vissulega er það þannig að þeirri réttaróvissu að eytt að nú hefur flugráð engu hlutverki að gegna beint gagnvart flugmálastjóra, með öðrum orðum hefur flugráð eða stjórn flugmála ekkert húsbóndavald yfir flugmálastjóra. Hann þarf ekkert að hlusta á það eða taka mið af ábendingum þess, kjósi hann það. Hans einasti húsbóndi er samgrh. Þrátt fyrir kúnstuga skipan ráðsins, virðulegi forseti, leikur enn þá mikill vafi á því í raun og sanni hvaða hlutverki flugráðið gegnir í stjórn okkar flugmála. Þetta er skilið eftir galopið og er ekki viðunandi þegar menn ganga til þeirra verka að reyna að hnykkja á og fara í ákveðna lagahreinsun á gildandi lögum og reglum um þennan mikilvæga þátt samgöngumálanna sem flugmálin eru.

Víkur þá sögunni að því sem ég gerði að mínum upphafsorðum, hinum stóru breytingum á skipan okkar flugmála, þ.e. þær heimildir sem eru veittar í 7. gr. frv. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt, virðulegi forseti, til þess að halda því til haga hvað þar er á ferð að lesa þá grein eins og hún hljómar og geri ég það. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Flugmálastjórn skal heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna og eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir með það að markmiði að vinna að rannsókn og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.

Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.

Þá skal Flugmálastjórn heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar, enda sé slíku félagi eða fyrirtæki gagngert komið á fót í þessu skyni.``

Hér er reitt hátt til höggs og hér eru ekkert sérstaklega litlar heimildir á ferð. Nei, þær eru þvert á móti algjörlega galopnar. Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að textinn segir að Flugmálastjórn geti að samþykki samgrh. farið í fyrirtækjarekstur með hagsmunaaðilum, flugrekstraraðilum eða öðrum þeim sem áhuga sýna sem hafi það að markmiði að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar. Þetta þýðir með öðrum orðum, virðulegi forseti, að hér er verið að opna á, kjósi menn það, fari hæstv. samgrh. í það farið, detti honum það í hug, að einkavæða skulum við segja Reykjavíkurflugvöll. Hann getur hann gert það og þarf ekki að spyrja neinn að því. Hann hefur fullar heimildir til þess. Þannig gæti hann líka einkavætt alla flugvelli á Vestfjörðum ef honum dytti það í hug hugsanlega í samstarfi við Flugleiðir. Hann gæti líka tekið upp á því að einkavæða í samstarfi við Íslandsflug alla flugvelli á Norðurlandi vestra og eystra. Það er sem ég sæi nú upplitið á samkeppnisaðilum í innanlandsflugi, við skulum segja ef við skoðum þennan Vestfjarðaþátt sérstaklega, ef stofnað yrði nýtt félag Flugfélags Íslands og Flugmálastjórnar Íslands um rekstur flugvalla og þjónustu við farþega á öllum flugvöllum á Vestfjörðum. Hvernig litist samkeppnisaðilanum, Íslandsflugi, á það ráðabrugg? Hver væri staða þess fyrirtækis við slíkar aðstæður? Eða, ef við snúum málum á hvolf og skoðum fyrirtækið Íslandsflug og Flugmálastjórn Íslands í Norðurlandskjördæmunum tveimur, hvernig litist Flugfélagi Íslands á það ráðabrugg þegar þetta einkafyrirtæki með aðild opinberra aðila væri með ríkiseinokun de facto á öllum rekstri flugvalla á þessum stöðum? Þetta er einn þáttur málsins.

Hinn þáttur málsins er að sönnu enn þá alvarlegri og hann er þessi: Hér hafa menn hlaupið algjörlega yfir þann þátt málsins sem lýtur að eftirlitshlutverki Flugmálastjórnar Íslands. Ég rifjaði upp til samanburðar ferlið varðandi hlutafélagavæðingu Pósts og síma og þeirra fylgifrumvarpa sem þá voru með í för. Þá var gripið til þess ráðs að setja á nýja stofnun, Fjarskiptastofnun Íslands. Menn báru þau rök uppi sem voru og eru gild og góð að það gengi auðvitað ekki þegar um væri að ræða hlutafélag í eigu ríkissjóðs, hlutafélag sem hugsanlega gæti tengst öðrum samkeppnisaðilum á samkeppnismarkaði fjarskiptamála, að þetta félag héldi áfram eftir sem áður að vera eftirlitsaðili og leyfisveitandi á þessum sama vettvangi í fjarskiptamálum. Það var nokkuð almenn sátt um það þrátt fyrir allt í þessu mikla pólitíska deilumáli að þessi skipan væri sú eina sem hægt væri að búa við þegar hlutafélagavæðingin og einkavæðingin hefði gengið í garð.

Í nefndinni var margbent á það í þessu máli hér að þegar og ef menn ætluðu að feta þessa slóð og fara í einkavæðingu, fara í hlutafélagavæðingu eða fara í kompaní með samkeppnisaðilum á flugrekstrarsviði þá væri auðvitað alls ekki hægt að Flugmálastjórn héldi áfram að vera, ekki eingöngu framkvæmdaraðili, ekki eingöngu hlutdeildaraðili með keppinautum á flugrekstrarsviði heldur líka eftirlitsaðili með þessum sömu hlutum. Þetta gengur ekki upp. Við látum þess hér getið með kurteislegu orðalagi þó að það gefi auga leið að þess verður ekki langt að bíða að Samkeppnisstofnun, að umboðsmaður Alþingis, að hugsanlega alþjóðlegir samningar sem við höfum undirgengist knýi á um það að við þurfum að taka þessi mál upp aftur, hugsanlega strax á haustþingi og skilja þarna klárlega á milli.

[18:15]

Ég held að ekki sé verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli þó að ég segi að í nefndinni fóru fram allítarlegar og ágætar umræður um þessi mál. Þeir aðilar sem gerst þekktu og heimsóttu nefndina tóku undir að þess yrði ekki langt að bíða að menn þyrftu að taka sérstaklega á þessum þætti.

Á hinn bóginn kom fram af hálfu flugmálastjóra, og nefndarmenn gerðu hans rök að sínum, að hér væri um kostnaðarauka að ræða sem gerði það að verkum að menn tækju ekki það skref að skilja þarna á milli eftirlits- og framkvæmdaþáttarins. En það eru bara ekki rök sem gilda. Það hefði hugsanlega verið hægt að búa við það fyrirkomulag sem við þekkjum og höfum búið við um langt skeið ef hér væri um að ræða opinberan aðila sem væri beggja megin borðs. Það er ekki gott fyrirkomulag sem við höfum búið við en það hefði kannski verið hægt að búa við það. En það er gjörsamlega óhæft og ómögulegt og engum manni bjóðandi þegar menn ætla að taka afdráttarlaus skref í þá veru að einkavæða, að binda sér trúss og fara í kompaní með einum eða öðrum samkeppnisaðila, að þetta sama fyrirtæki, móðurfyrirtækið, sé um leið hinn stóri dómari þegar kemur að veitingu flugrekstrarleyfa, þegar kemur að úttektum á stöðu flugvalla hér og þar um landið, þegar og ef hugsanleg einkafyrirtæki, sem auðvitað eðli máls samkvæmt ætla að hámarka sinn arð, eiga það undir Flugmálastjórn Íslands, móðurfyrirtækinu, hvort þau megi lifa eða deyja. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti.

Í áliti Samkeppnisstofnunar, sem kom að sönnu seint inn í þetta mál og var kölluð til þann sama dag og málið var tekið úr nefnd, þá er það alveg skýrt að Samkeppnisstofnun hefur þær sömu áhyggjur og við í minni hluta samgn. Samkeppnisstofnun orðar það þannig í minnisblaði frá 27. mars. 1998, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt orðskýringu á ákvæði 7. gr. frv. er ekki girt fyrir það að Flugmálastjórn eignist hlut í flugrekstraraðila eða stofni með flugrekstraraðila fyrirtæki í því skyni að vinna að þeim markmiðum sem nefnd eru í ákvæðinu. Að mati Samkeppnisstofnunar getur slíkt samstarf við flugrekstraraðila sem á undir eftirlitsvald Flugmálastjórnar, skarast við eftirlitshlutverk Flugmálastjórnar, vakið tortryggni keppinauta og haft í för með sér vissa hættu á samkeppnishömlum.``

Þetta getur ekki verið skýrara þó að hér sé þetta mjög kurteislega orðað af hálfu þessarar opinberu stofnunar. Við málið er ekki hægt að skilja á þann hátt hvað svo sem mönnum finnst um hinar fjárhagslegu forsendur þess. Það stóð a.m.k. ekki í meiri hluta þingsins við afgreiðslu hlutafélagavæðingar Pósts og síma að setja á eitt stykki stofnun og digran lagabálk um hana, Fjarskiptastofnun Íslands. Hér eru í engu minni hagsmunir á ferð en þar. Hér er um sannanlegan samkeppnismarkað að ræða milli flugrekstraraðila, og þegar eftirlitshafinn, leyfishafinn er orðinn meira og minna innblandaður í einkarekstur, þá missir hann auðvitað alla tiltrú sem leyfishafi, sem eftirlitshafi. Á þessu máli verður að taka, ekki einhvern tímann seinna, heldur hér og nú. Ég skora á meiri hluta nefndarinnar og meiri hluta þingsins og á þingmenn alla að við ljúkum ekki 3. umr. þessa máls öðruvísi en að frá þessum málum verði gengið með viti bornum hætti.

Ég undirstrika það, virðulegi forseti, að í nál. er það ekki skoðun minni hluta nefndarinnar að það sé tabú undir öllum kringumstæðum að skynsamlegt geti verið á einstökum sviðum að framkvæmdadeild Flugmálastjórnar geti tekið höndum saman við þá aðila sem til máls þekkja og áhuga hafa á því að vinna saman að einstaka þáttum í rannsóknarskyni til að mynda eins og hér er getið um og í þróunarstarfi af ýmsum toga. Það verður hins vegar að vera samkvæmt mjög afmörkuðum reglum og skýrum leikreglum. En þessi almenna opna heimild, þessi tékki sem hér er óútfylltur er eitthvað sem ekki er hægt að búa við. Það er alveg ljóst af minni hálfu.

Við þekkjum það auðvitað sem hér sitjum og Íslendingar allir og þeir sem þurfa að reiða sig á flugsamgöngur, ekki síst fólk úti um hinar dreifðari byggðir, þó að auðvitað fari fólk á suðvesturhorninu flugleiðis landshorna á milli eins og þeir sem úti á landi búa, að samkeppni er mikilvæg. Samkeppni Íslandsflugs og Flugfélags Íslands á liðnu sumri til að mynda gerði það að verkum að fargjöld lækkuðu umtalsvert. En þetta hefur ekki allt verið hávaðalaust. Það er líka þekkt að þeir sem fyrir voru á markaði, Flugleiðir eða nú Flugfélag Íslands, höfðu ákveðið forskot á mörgum lykilflugvöllum hvað varðar aðstöðu í húsakynnum í eigu almennings, húsakynnum í eigu og umsýslu Flugmálastjórnar Íslands. Og hinn nýi samkeppnisaðili sem með frelsinu fékk tök á því að fljúga á æ fleiri staði og varð til þess að verð lækkaði verulega landshorna á milli í fluginu átti sums staðar á brattann að sækja með að fá inni og fá lykil að flugstöðum úti um landið. Af þessu fékk ég fréttir og af þessu fengu margir aðrir fréttir. Ég vona svo sannarlega að þetta hafi lagast og breyst. En þetta sýndi það að Flugmálastjórn Íslands var bæði í senn eigandi, rekandi flugvallarins, dómari og úrskurðaraðili í því hvernig haga skyldi málum þannig að virk samkeppni gæti átt sér stað. Þeir samkeppnisaðilar, og ég er hér að nefna þessa tvo stóru, Flugfélag Íslands og Íslandsflug, gætu því staðið tiltölulega jafnfætis hvað varðar samkeppnisstöðu t.d. varðandi þjónustu við flugfarþega á stórum flugvöllum á borð við Akureyri, Vestmannaeyjar og fleiri staði.

Hvernig halda menn að Flugmálastjórn, eigandi og umsýslumaður flugvallarhúsnæðis víða hringinn í kringum landið geti með trúverðugum hætti úrskurðað í þessum efnum þegar og ef þessi sama Flugmálastjórn Íslands er orðin eignatengd við annað og kannski bæði þessi fyrirtæki á einum eða öðrum vettvangi? Hvar liggja þá trúverðugheitin? Það er ekki ofsagt sem segir í skynsamlegu áliti Samkeppnisstofnunar að það muni vafalaust vekja tortryggni og það er óhjákvæmilegt annað. Hér erum við að opna gátt sem við verðum að gera okkur glögga grein fyrir til hvers leiðir og hver niðurstaðan verður úr þessu öllu saman. Ég árétta að ég er til umræðu um það, virðulegi forseti, að menn skoði nýjar leiðir í flugrekstri hér á landi. Það er opið fyrir mér a.m.k. En menn verða hins vegar að vita hvert stefnt er og hvar lent verður áður en af stað er tekið og áður en jafnvíðtækar heimildir og hér um ræðir eru veittar á hinu háa Alþingi. Það er lykilatriði af minni hálfu.

Virðulegi forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða einstök atriði mikið nánar. Það væri þó full ástæða til því að hér er auðvitað um stórmál að ræða, hér er um grundvallarlöggjöf að ræða sem við munum væntanlega þurfa að búa við um langan aldur. Ég vísa til þess að gildandi lög í þessum efnum hafa staðist tímans tönn og hafa verið í gildi um langt árabil. Við hljótum að ganga að því sem vísu verkefni að löggjöf sem við erum að ganga frá hér og nú geti staðist tímans tönn, a.m.k. geti staðist út sumarið. En eins og frá málum er gengið núna þá er það ekki svo.

Því er það, virðulegi forseti, að við í minni hluta samgn. höfum fullan fyrirvara á þessum lykilatriðum sem ég hef hér nefnt og einstaka atriðum öðrum og vísum pólitískri ábyrgð alfarið á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum í þinginu.