Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:25:04 (5272)

1998-03-30 18:25:04# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:25]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum höfum við verið að reyna að gera valdmörkin í löggjöfinni varðandi loftferðir almennt skýrari. Þær breytingar sem gerðar voru t.d. varðandi löggjöf um rannsókn flugslysa var einmitt í þessa átt. Ég tel að ef við lesum 7. gr. þá sé það alveg augljóst mál að þar er líka gerð tilraun til þess að gera valdmörkin skýrari með því að opna heimildir til þess að stofna sérstök félög um einstaka þætti flugmálanna. Þannig hefur þessi þróun verið erlendis að stofnuð hafa verið félög ýmist með einkaeign ríkisins eða þá í samstarfi við aðra um einstaka þætti loftferðanna. Almennt séð getum við sagt sem svo að það sé kannski eðlilegt að annars vegar höfum við stjórnsýsluna og hins vegar framkvæmdaþáttinn og reyna að tryggja að það sé gert á skilvirkan hátt.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson las nokkuð úr áliti Samkeppnisstofnunar og það ætla ég líka að leyfa mér að gera, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar fara ákvæði 7. gr. ekki gegn markmiði samkeppnislaga en starfsemi slíkra félaga sem þar um ræðir lyti að sjálfsögðu ákvæðum samkeppnislaga.``

Ákvæði samkeppnislaga eru skýr að þessu leytinu að þau tryggja ákveðinn aðgang fyrirtækja og eftir því sem ég þekki til varðandi alþjóðlega samninga og tilskipanir Evrópusambandsins, þá er líka gert ráð fyrir því að tryggt sé aðgengi samkeppnisaðila að tiltekinni þjónustu ef um er að ræða að annar samkeppnisaðili hafi einkanot af því að veita slíka þjónustu.

Ég tel hins vegar að almennt séð væri óheppilegt að Flugmálastjórn væri í samstarfi við einstök flugfélög um rekstur til að mynda flugstöðva. Ég held að það gæti skapað óþarfa totryggni og ég teldi að miklu heppilegra væri fyrir Flugmálastjórn að leita sér annarra samstarfsaðila að því leytinu.