Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:29:47 (5274)

1998-03-30 18:29:47# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að segja í lok máls míns áðan var það að ég teldi það ekki heppilegt að Flugmálastjórn færi í samstarf við flugrekstraraðila um rekstur einstakra flugstöðva. Það hins vegar út af fyrir sig útilokar ekki það að Flugmálastjórn færi í samstarf við flugrekstraraðila um ýmislegt annað sem hentugt og skynsamlegt þætti frá hálfu Flugmálastjórnar. Ég held hins vegar að hitt gæti valdið óþarfa tortryggni sem ástæðulaust væri. Hins vegar gæti ég vel séð það fyrir mér að Flugmálastjórn færi í samstarf við ýmsa aðra aðila um rekstur flugstöðvar m.a. vegna þess að við sjáum að eðli flugstöðva er mjög að breytast. Víða úti um hinn vestræna heim eru flugstöðvar að verða viðskiptamiðstöðvar og ég teldi t.d. ýmsa samstarfsmöguleika á því sviði alveg kjörna.

Af því að hér hefur aðeins verið rætt um lagaskýringu Samkeppnisstofnunar sem mér barst í hendur í dag eins og öðrum, þá tel ég að hún sé á nokkuð hæpnum forsendum gerð vegna þess að ef við lesum annars vegar 7. gr. og hins vegar athugasemdir við þessa 7. gr., þá er augljóst hvað hér er verið að reyna að vekja máls á. Í fyrsta lagi að settur sé lagarammi um samstarf eins og þegar er til staðar milli Flugmálastjórnar og kerfisfræðistofu verkfræðideildar Háskóla Íslands. Fyrirmynd að þessu er sótt í gildandi lög um Háskóla Íslands. Í öðru lagi að Flugmálastjórn verði heimilað að stofna fyrirtæki til að selja þjónustu stofnunarinnar og í þriðja lagi að opnuð sé leið fyrir þann möguleika að færa hluta af starfsemi Flugmálastjórnar í hendur sjálfstæðra aðila sem starfa mundu í nánum tengslum við embættið, en þetta er í samræmi við þróun erlendis. Ég tel því að ekki sé ástæða til að túlka þetta með þeim hætti að hér sé verið að opna svo almenna og rúma heimild. Það er fyrst og fremst verið að reyna að opna það að gera starfsemi Flugmálastjórnar sem skilvirkasta m.a. með stofnun hlutafélaga eins og hefur verið að tíðkast hérlendis og erlendis þar sem menn hafa viljað auka skilvirkni og bæta rekstur í ríkisbúskapnum.