Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:36:23 (5277)

1998-03-30 18:36:23# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:36]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum eilítið að nálgast kjarna málsins. Það var nákvæmlega þetta sem ég var að tala um, hvort ekki væri skynsamlegt að skilja þarna á milli og loftferðaeftirlitið og sú deild Flugmálastjórnar hefur einmitt verið nefnd í því sambandi. Það mundi strax laga málið. En auðvitað tengist það 7. gr. frv. náið því að þar er stefnumörkun í þá veru að einkaaðilar sem Flugmálastjórn hefur haft eftirlit með og veitt leyfi til eru orðnir viðskiptalega tengdir Flugmálastjórn Íslands þannig að þetta er orðinn einn hrærigrautur. Það gerir það að verkum að það er brýn nauðsyn til að skilja þarna mjög skýrt og ákveðið á milli.

Þetta er orðinn dálítið þreytulegur frasi hjá hæstv. ráðherrum og hv. stjórnarsinnum mörgum hverjum að þegar kemur álit frá Samkeppnisstofnun er gjarnan talað um einhvern misskilning. Enginn misskilningur er þarna á ferðinni, ekki nokkur misskilningur hjá Samkeppnisstofnun. Hún les einfaldlega það sem stendur í frv. og í athugasemdum með því og hæstv. ráðherra segir að ekki sé gert ráð fyrir því í 7. gr. að það eigi að taka upp samstarf við einhvern flugrekstraraðila. Með öðrum orðum það er ... (Samgrh.: ... ekki eignast hlut í.) Já, já, en það stendur hvergi ... (Samgrh.: Það stendur ekki ... ) Jú, jú, það stendur nákvæmlega en það stendur hvergi neitt um að það sé bannað að Flugmálastjórn Íslands renni saman í nýtt kompaní með Flugfélagi Íslands eða Íslandsflugi svo að ég nefni tvo stóra flugrekstraraðila. Þvert á móti er gefið undir fótinn með það því að í okkar tiltölulega fábrotna atvinnulífi eru ekki margir sérfræðingar á þessum vettvangi, ekkert allt of margir aðilar sem hafa sérþekkingu og hafa fjármuni með höndum til þess að taka upp samstarf á þessum vettvangi þannig að auðvitað gefur það auga leið að mönnum komi fyrst til hugar þessir aðilar sem ég nefni til sögunnar. Það er ekkert sem bannar það þannig að hér er enginn misskilningur á ferðinni nema ef vera skyldi hjá hæstv. ráðherra sjálfum.