Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:38:33 (5278)

1998-03-30 18:38:33# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:38]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði satt að segja vænst þess að hv. þm. mundi taka málefnalega á þeirri athugasemd sem ég kom fram með áðan en svo er ekki. Hér stendur í 3. mgr. 7. gr.:

,,Þá skal Flugmálastjórn heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar, enda sé slíku félagi eða fyrirtæki gagngert komið á fót í þessu skyni.``

Svo mörg eru þau orð í 3. mgr. 7. gr. Orðrétt segir, með leyfi hæstv. forseta, í niðurlagi álits Samkeppnisstofnunar:

,,Samkvæmt orðskýringu á ákvæði 7. gr. frv. er ekki girt fyrir það að Flugmálastjórn eignist hlut í flugrekstraraðila.``

Heimildin er skýrt orðuð í 7. gr. Þess vegna er alveg ljóst að ráðherra er ekki heimilt að beita heimildum flugmálaáætlunar eða fjárlagaheimildum með því að kaupa hlut í Íslandsflugi, Flugleiðum, Flugfélagi Íslands eða öðrum fyrirtækjum flugrekstraraðila. Ekki er átt við það. Ég veit að hv. þm. áttar sig á þessum mun þegar við bendum á það en eins og ég sagði áðan kemur það náttúrlega til greina og hlýtur að koma til skoðunar á næstu árum hvort rétt sé að gera loftferðaeftirlitið að sjálfstæðari stofnun en það er í dag en hér er það skref ekki stigið hjá okkur enda er þetta með ýmsum hætti í kringum okkur og það hefur ekki komið svo að mér sé kunnugt um gagnrýni á að flugmálastjóri eða loftferðaeftirlit hafi ekki gegnt skyldu sinni.