Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:10:24 (5283)

1998-03-30 19:10:24# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra vitnar í gildandi lög um hvernig í flugráðið er valið og kosið er í það. Við höfum gagnrýnt þessa leið við val og skipun í flugráð vegna þess að menn hafa verið að breyta þessu til þess vegar að Alþingi kjósi fulltrúana og síðan velji eða skipi ráðherra formann. Það er óeðlilegt að ráðherra skipi bæði formann og varaformann og það séu aðeins þrír kosnir af Alþingi. Þó svo sé í gildandi lögum er full ástæða til að taka þetta til endurskoðunar og hafa samræmi í því hvernig valið er í ráð af þessu tagi.

Ég verð að segja að ég tel fullkomlega eðlilegt að formaður haldi umboði sínu á meðan ráðherra situr. Ég er alveg sammála því, enda hafa menn verið að breyta lögum í þá veru. Það er fullkomlega eðlilegt. En ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi engar áhyggjur af því sem kom fram í máli hv. þm. Ragnars Arnalds og kom fram í samgn. við umfjöllun á þessu máli, þ.e. hvað flugfloti okkar af einkaflugvélum er orðinn gamall. Yngstu vélarnar eru 17 ára og meðalaldurinn er tæplega 30 ár.

Ýmislegt annað kom fram í nefndinni sem snýr að einkaflugmönnum og ég hefði talið fulla ástæðu til að skoða betur en því miður kom umsögn einkaflugmanna ekki fyrr en mjög seint til nefndarinnar. Ýmsar athugasemdir þeirra hefði ég talið fulla ástæðu til þess að skoða betur áður en þessi lagasetning fer í gegnum þingið.