Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:16:39 (5288)

1998-03-30 19:16:39# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:16]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ástæðan fyrir því að sú ákvörðun var tekin á sínum tíma að Alþingi skyldi kjósa þrjá menn í flugráð en tveir skyldu skipaðir af ráðherra með sérþekkingu í flugmálum, sé að þeir menn eru vandfundnir hér á landi sem hafa sérþekkingu á flugmálum og eru ekki vanhæfir til að takast á hendur umrædd störf. Hugsunin á bak við ákvæðið er sú að þeir sem Alþingi kýs séu fyrst og fremst pólitískir fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem standa á bak við kjör þeirra en á hinn bóginn sé nauðsynlegt fyrir samgrh. og flugráð sjálft að hafa menn með sérþekkingu innan sinna vébanda. Þeir væru hins vegar ekki beinlínis pólitískir fulltrúar. Enda hygg ég að reynslan sýni það að tilhneiging hefur verið til að skipa formenn flugráðs, fyrst og fremst út frá mikilli þekkingu þeirra á flugmálum. Þar gæti ég t.d. nefnt Leif Magnússon sem vinnur hjá Flugleiðum og núv. formann flugráðs.