Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:18:27 (5289)

1998-03-30 19:18:27# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:18]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni áðan og í svari mínu við andsvari ráðherra hef ég vakið athygli á því að 7. gr. er gölluð bæði að efni og formi. Efnislega er hún gölluð að því leyti að við teljum mjög óeðlilegt að ríkisfyrirtæki fái heimild til að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar. Efnislega tel ég að þetta sé mikill ágalli.

Ég var líka með formlega athugasemd, þ.e. jafnvel þó að menn væru samþykkir þessu þá hlytu þeir að orða það formlega. Eins og þetta er orðað hér er þetta allt of opið og heimildin allt of rúm. Ég benti hæstv. ráðherra á að formlega væri greinin þó strax aðeins skárri ef sagt væri, með leyfi forseta: Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra og heimild í fjárlögum að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar. Þar með hefðu stofnunin og viðkomandi ráðherra ekki opið umboð til þess að gera þetta á grundvelli þessarar einu óljósu lagagreinar heldur yrði að sækja heimild til þess hverju sinni í fjárlög. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um skoðun hans á þessu atriði.