Eftirlit með skipum

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:21:11 (5291)

1998-03-30 19:21:11# 122. lþ. 98.12 fundur 593. mál: #A eftirlit með skipum# (farþegaflutningar) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að breytt verði siglingalögum og lögum um eftirlit með skipum.

Á undanförnum missirum hefur færst í vöxt að skip séu gerð út til skoðunarferða eða útsýnisferða og þá einkum sem hluta af ferðaþjónustu við innlenda sem erlenda ferðamenn. Á það hefur verið bent að eftirlit með starfsemi þessara skipa eða báta þurfi að vera strangara og skilvirkara. Í því sambandi hefur verið bent á nauðsyn þess að tryggja að reglum sé fullnægt, m.a. um skráningu skipsins, smíði og búnað, mönnun áhafna, neyðaráætlanir, leiðbeiningar til farþega, tilkynningarskyldu og vátryggingarskyldu. Markmið þessa frv. er að bæta úr fyrrgreindum atriðum.

Í 1. gr. frv. er lögð til breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993. Lagt er til að farþegaflutningar með skipum verði háðir leyfi Siglingastofnunar Íslands. Gert er ráð fyrir að Siglingastofnun gefi út slíkt leyfi þegar sýnt hefur verið fram á að uppfyllt hafi verið ákvæði laga og reglugerða sem um skipið og starfsemi þess gilda, m.a. um smíði þess og búnað, atvinnuréttindi og fjölda skipverja í áhöfn skips.

Í 2. gr. frv. er lögð til breyting á siglingalögum nr. 34/1985. Lagt er til að kveðið verði á um það í siglingalögum að þeim sem annast farþegaflutninga með skipum sé skylt að kaupa vátryggingu hjá tryggingafélagi gegn tjóni sem kann að verða. Samkvæmt reglum siglingalaga ber hann ábyrgð á ef óhapp eða slys verður um borð í skipinu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um efni frv. en vísa til greinargerðar með því. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.