Siglingalög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:22:52 (5292)

1998-03-30 19:22:52# 122. lþ. 98.13 fundur 613. mál: #A siglingalög# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að breytt verði ákvæðum björgunarkafla siglingalaga. Frv. er samið af nefnd sem samgrh. skipaði 11. apríl 1997. Breytingar þær sem frv. felur í sér byggja á alþjóðasamningi um björgun frá 1989 sem leysti af hólmi eldri samning um sama efni frá 1910.

Ástæður alþjóðasamningsins frá 1989 má fyrst og fremst rekja til þess er olíuskipið Amoco Cadiz fórst við Frakklandsstrendur í mars 1978. Það hafði í för með sér mikið umhverfistjón. Með frv. er alþjóðabjörgunarsamningurinn frá 1989 leiddur í lög hér á landi.

Ísland undirritaði hvorki samninginn frá 1910 né fullgilti hann en tekið hefur verið mið af honum í núgildandi siglingalögum. Ísland undirritaði ekki samninginn frá 1989 en miðað er við að gerð verði tillaga um fullgildingu hans ef frv. þetta verður að lögum.

Alþjóðlegi björgunarsamningurinn frá 1989 öðlaðist gildi 14. apríl 1996 þegar eitt ár var liðið frá því að 15 ríki höfðu samþykkt hann. Meginatriði frv. eru eftirfarandi:

Samkvæmt gildandi siglingalögum eiga björgunarreglurnar fyrst og fremst við um björgun á skipi eða á farmi um borð í skipinu eða sem verið hefur um borð. Björgun mannslífa sem slík veitir ekki rétt til björgunarlauna en getur þó haft áhrif á ákvörðun björgunarlauna.

Með samningnum frá 1989, sem frv. þetta byggir á, gilda nýjar björgunarreglur. Nýjar reglur gilda einnig um lausafé sem ekki eru í neinum tengslum við skip. Jafnframt er það nýmæli að nú er lagt til að björgunarreglur siglingalaga taki ekki aðeins til björgunar á sjó heldur eigi þær jafnt við um björgun á ám og vötnum.

Í 9. gr. björgunarsamningsins er miðað við að strandríki hafi rétt til að gera ráðstafanir í samræmi við reglur þjóðaréttar til að vernda strandlengju sína. Í því efni hefur verið litið svo á að því nær ströndum viðkomandi ríkis sem mengunarhætta kemur upp, því meiri líkur eru á að réttur til að grípa inn í sé fyrir hendi.

Meginreglan í björgunarrétti er reglan um ,,no cure, no pay`` sem útleggst: Engin björgun, engin björgunarlaun. Í samningnum frá 1989 og frv. þessu er það nýmæli að gerð er undantekning frá þessari meginreglu. Hún felst í því að björgunarmaður sem unnið hefur að björgun skips sem eitt sér eða ásamt farmi hefur falið í sér hættu á umhverfistjóni, á rétt á sérstakri þóknun sem svarar kostnaði hans við björgunarvinnuna þó honum hafi ekki tekist að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni.

Samningurinn frá 1989 kveður á um að hverju ríki sé í sjálfsvald sett hvort björgunarreglurnar verði látnar gilda um skip í eigu ríkisins. Almenna reglan á Norðurlöndum er sú að björgunarreglur siglingalaga taka einnig til skipa í eigu ríkisins. Hér er lagt til að sú meginregla verði áfram í gildi hér á landi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um efni frv. en vísa til ítarlegrar greinargerðar sem fylgir frv. Ég vil bæta því við að vel hefur verið vandað að undirbúningi þess. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.