Siglingalög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:26:18 (5293)

1998-03-30 19:26:18# 122. lþ. 98.13 fundur 613. mál: #A siglingalög# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:26]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með ráðherra að frv. til laga um breytingu á siglingalögum er vel unnið. Hér kemur margt athyglisvert fram varðandi björgun. Þó eru fáein atriði sem ég vildi koma inn á. Tímans vegna mun ég ekki hafa langt mál um það en mér finnst þurfa að athuga það sem segir á bls. 24, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að í 170. gr. c komi ákvæði sem er að mestu leyti samhljóða 169. gr. gildandi siglingalaga, þó með þeirri undantekningu að 6.--8. mgr. fela í sér nýmæli. Þá gilda ákvæði 1.--6. mgr. aðeins um skiptingu björgunarlauna þegar það skip sem bjargar er skrásett á Íslandi. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 15. gr. björgunarsamningsins frá 1989. Í 7. mgr. segir að þegar skipið sem bjargar er ekki skrásett á Íslandi fer um skiptingu björgunarlauna eftir löggjöf þess lands þar sem skipið er skráð.``

Nú er það svo, herra forseti, að fjölmörg kaupskip sigla undir erlendum fána en hafa íslenska áhöfn. Þau eru í svokallaðri þurrleigu. Ég sé fram á vanda hvað þetta ákvæði áhrærir. Ef t.d. skip Eimskipafélagsins eða Samskipa undir erlendum fána með íslenskri áhöfn bjargaði skipi, þá yrðu björgunarlaun að fara t.d. eftir lögum Kýpur eða Panama. Þannig að hér eru nokkur atriði sem þurfa skoðunar við í nefndinni.

Eins er athyglisvert að skoða málið varðandi kröfur bjargenda. Án tillits til aðstæðna gæti það komið upp að bjargendur gerðu kröfu um björgunarlaun og meðan ekki hefur verið skorið úr um það geta björgunarmenn krafist þess að góss sé ekki flutt af strandstað. Þá vaknar spurningin: Getur það verið að texti þessara laga gæti tafið mjög fyrir björgun? Þar er mér t.d. hugsað til strands Víkar\-tinds. Ef ekki hefur verið nægilega vel gengið frá tryggingu útgerðarmanns eða eiganda skipsins, farmurinn ekki verið nægjanlega tryggður og björgunarmenn í vafa um að þeir muni njóta þeirra björgunarlauna sem þeir telja sig verðskulda, þá gætu þeir samkvæmt orðanna hljóðan sett fram kröfu um lögbann á flutning þess góss sem bjargað hefur verið, þar til þeim væru tryggð björgunarlaun.

Ég tel að eftir strand Víkartinds, að fenginni þeirri reynslu, hafi menn unnið þetta frv. Eins og fram kom í ræðu hæstv. samgrh. er þetta mjög ítarlega og vel unnið lagafrv. Ég er ekki að gera lítið úr því. Hér eru þó fáein ákvæði sem ég tel að hv. samgn. þurfi að skoða milli umræðna.

Ég ætlaði aðeins að nefna þetta tvennt hér. Tímans vegna ætla ég ekki að fara í fleiri þætti en mun hins vegar koma því sem ég tel að betur þyrfti að skoða beint til formanns hv. samgn. Ég vildi aðeins benda á þetta tvennt og beina spurningum mínum til hæstv. samgrh. Hvernig sér hann þau mál þróast er ég gat um, skip á þurrleigu með íslenskri áhöfn undir erlendum fána og kröfuna um rétt björgunarmanna til að nánast kyrrsetja það góss sem bjargað hefur verið í land, t.d. af strönduðu skipi?