Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:40:42 (5298)

1998-03-31 13:40:42# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:40]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel að útskýringar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hafi ekki verið til að bæta málstað hans í þessum efnum. Auðvitað er hægt að biðja um umræður um önnur mál síðar en það var ekki það sem rætt var um í gær, það voru ekki geðheilbrigðismál í fangelsum sem voru á dagskrá. Þess vegna var það algerlega ómálefnalegt af hv. þm. að nota mikinn hluta ræðutíma síns til þess að hneykslast á því að hæstv. heilbrrh. væri ekki við umræðuna, enda hefur það komið fram hér hjá málshefjanda, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að hún óskaði ekki eftir því að hæstv. heilbrrh. væri viðstaddur umræðuna.

Mér er eiginlega nauðsynlegt, hæstv. forseti, að segja það að auki í tengslum við þetta að í upphafi þessa kjörtímabils beitti ég mér fyrir því innan þingflokks framsóknarmanna að stjórnarandstaðan fengi formennsku í þremur nefndum. Það varð niðurstaðan, m.a. vegna þess að þetta þótti hafa gefið góða raun á síðasta kjörtímabili og ekki ástæða til að hverfa til baka vegna þess að að okkar mati er þetta til að styrkja stöðu þingsins og styrkja þingræðið í landinu. Það hefur hins vegar sýnt sig á þessu kjörtímabili að þetta er ekki einfalt mál. Miðað við frammistöðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem formanns í hv. heilbr.- og trn., þar sem hann hefur nánast lagt hæstv. heilbr.- og trmrh. í einelti, verð ég því miður að segja að þessi mál hljóta að verða til athugunar þegar þau koma næst til umræðu.