Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:42:44 (5299)

1998-03-31 13:42:44# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:42]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hv. málshefjanda virðist hafa láðst að láta hæstv. heilbrrh. vita af því að hún ætlaði að ræða þessi mál því að hæstv. heilbrrh. var víðs fjarri og gerir það að sjálfsögðu enn erfiðara að ræða málin, þannig að ég skil nú ekki í því hvernig hv. málshefjandi getur kvartað yfir því að láðst hafi að láta heilbrrh. vita af umræðunni í gær þegar hann gleymir því sjálfur í dag.

Það voru tveir ráðherrar Framsfl. árið 1988 sem gerðu það samkomulag sín á milli að færa heilbrigðismál ósakhæfra afbrotamanna úr umsjá dómsmrn. yfir í umsjá heilbrrn. og öll þeirra málefni. Það var hv. þáv. dómsmrh. Halldór Ásgrímsson og hv. þáv. heilbrrh. Guðmundur Bjarnason. (Gripið fram í: 1990?) Það var rétt fyrir stjórnarskipti sem sú ákvörðun var tekin, að færa málefni þessara fanga frá dómsmrn. til heilbrrn. Það var því mjög eðlilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi um bágan hag þessa fólks varðandi geðheilbrigðisþjónustu í umræðunni í gær og raunar aðra heilbrigðisþjónustu sem hefur verið með þeim hætti í gegnum árin að það er einhver svartasti blettur á íslenskri heilbrigðissögu sem ég hef nokkru sinni séð. Ég fullyrði það úr þessum ræðustól að ástandið hefur verið þannig að margt af því fólki sem þar hefur átt í vök að verjast og verið meðal okkar minnstu bræðra hefur verið gert að stofnanamat og jafnvel gleymst úti í erlendum fangelsum, sjúkt fólk sem hefur átt að fá aðhlynningu en ekki fengið. Það er mjög eðlilegt (Forseti hringir.) að hv. þm. geri þessi mál að umræðuefni og hafi gert það í gær og mjög eðlilegt að hann beini máli sínu til hæstv. heilbrrh. því það voru tveir ráðherrar Framsfl. sem tóku ákvörðun um að málefni (Forseti hringir.) þessara ósakhæfu afbrotamanna yrðu færð frá (Forseti hringir.) dómsmrh. yfir til heilbrrh. og annar þeirra var formaður Framsfl., virðulegi forseti.