Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:49:22 (5302)

1998-03-31 13:49:22# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:49]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega sérkennileg umræða svo ekki sé meira sagt. Ég held satt að segja að flokka megi hana undir mistök. Hér var eftir því óskað í umræðum í gær og um það spurt hvort hæstv. heilbrrh. hefði ekki eitthvað til málanna að leggja. Deginum síðar kvarta forustumenn Framsfl. yfir því að sú beiðni hafi komið fram. Gera þannig lítið úr ráðherra sínum og gefa til kynna að hann hafi ekkert um málið að segja. Og það sem meira er, þeir finna þessari umræðu stað nákvæmlega á þeim tíma sem hæstv. heilbrrh. er ekki hér í salnum og hefur ekki nein tök á því að koma inn í umræðuna. Ég held að stjórnarandstaðan hafi það mikið álit á hæstv. heilbrrh. að hún telji það mikilvægt að heilbrrh. sé viðstödd umræðu um efni máls, og einnig um það sem við ræðum um hér. Hér er því um stórkostleg mistök að ræða af hálfu framsóknarmanna í þinginu. Og þau voru aldeilis punkteruð í lokaorðum hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, formanns þingflokks Framsfl., þegar hún fór fram með hótanir og kvað upp úr með að það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson leyfði sér að hafa skoðanir á heilbrigðismálum þýddi það að nú þyrfti sko aldeilis að fara að skoða upp á nýtt það samkomulag sem gert var í upphafi þessa kjörtímabils um hlutdeild stjórnarandstöðu í störfum þingsins, í störfum nefndanna.

Ég hef ekki heyrt einn einasta mann í heilbrn. þingsins, og ég kalla þá eftir því ef svo er, sem hefur haft uppi kvartanir um stjórn þessa hv. þm. í nefndinni. Og ég krefst þess að ef kvartanir eru á ferð um þau efni þá komi þær fram. Hér er því um að ræða fullkomlega staðlausa stafi af hálfu hv. þm. fyrr en hún finnur orðum sínum stað. Öðruvísi skal hún vera ómerkingur orða sinna.