Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:53:45 (5304)

1998-03-31 13:53:45# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:53]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég undrast þessa síðustu ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Mér þykir hún draga heldur í land frá því sem hún sagði í upphafi fundarins þegar hún viðurkenndi og staðfesti að hún hefði ekki óskað eftir hæstv. heilbr.- og trmrh. við umræðuna. Að koma hér með einhverjar útskýringar eins og þær að framsóknarmenn hefðu átt að biðja um frest á umræðunni meðan kallað væri á heilbrrh. sýnir bara það (Gripið fram í.) að hv. þm. gerir sér ekki grein fyrir þingsköpum.

En út af því sem hér var sagt áður og ég sagði fyrr í umræðunni þá ætla ég ekki að draga neitt til baka af því sem ég sagði. Við vitum það öll að við erum að þróa með okkur ný vinnubrögð á hv. Alþingi. Við erum að þróa með okkur vinnubrögð þannig að stjórnarandstaðan fái ákveðið hlutverk í þingstörfunum og á þann hátt eflist þingið og þannig eflum við þingræðið. Það tekur sinn tíma að þróa þetta þannig að öllum líki. Þess vegna leyfði ég mér að koma fram með þá skoðun að mér finnst að hv. formaður heilbr.- og trn. hafi ekki starfað af fullum heilindum sem formaður þeirrar nefndar. (Gripið fram í: Ha!)

Að sjálfsögðu má hv. þm. og á hv. þm. að hafa miklar skoðanir á heilbrigðismálum og það hefur hann og þeim getur hann svo sannarlega komið á framfæri. En hann á ekki að starfa þannig að hann leggi hæstv. heilbr.- og trmrh. í einelti, eins og hann hefur gert. Ég bendi á að tveir hv. stjórnarandstæðingar gegna formennsku í nefndum að auki, og ekki hefur verið neitt upp á þá að klaga og þeir hafa staðið sig með prýði, en ég ætla ekkert að bakka með það að mér finnst hv. formaður heilbr.- og trn. ekki hafa staðið sig með prýði. (SvG: Þannig að hótunin stendur?)