Lögreglulög

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 15:02:10 (5311)

1998-03-31 15:02:10# 122. lþ. 99.8 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir því að ráðningarmáti yfirlögregluþjóna og annarra lögregluþjóna sé mismunandi eins og gert er ráð fyrir í 4. gr. Hins vegar hafa komið fram áhyggjur þess efnis að dregið sé úr réttarstöðu og starfsöryggi lögregluþjóna með því að færa lausnarvald nær starfsvettvangi þeirra og draga úr málskotsmöguleikum. Fáar stéttir eru eins útsettar fyrir gagnrýni og lögreglustéttin. Þetta er eðli máls samkvæmt og mikilvægt er að gagnrýni komist greiðlega til skila og henni sé fylgt eftir ef lögreglumenn brjóta af sér í starfi. En jafnframt þarf að tryggja að réttur lögreglumannsins sé rækilega tryggður með því að mál hans fái ítarlega skoðun ef þau orka tvímælis.

Í ljósi yfirlýsinga sem hæstv. dómsmrh. gaf við umræðu frv. í gær þess efnis að þessi lagabreyting þrengdi í engu möguleika lögregluþjóna til að vísa álitamálum vegna áminninga fyrir brot í starfi til úrskurðar í ráðuneyti frá því sem tíðkast hefur á liðnum árum mun ég ekki greiða atkvæði gegn þessari lagabreytingu heldur sitja hjá.