Loftferðir

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 15:10:03 (5313)

1998-03-31 15:10:03# 122. lþ. 99.9 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þessi lagagrein er um margt óljós eins og kom fram við 2. umr. frv. í gær. Eitt er þó ljóst: Verið er að opna á einkavæðingu flugvallanna. Hér er því um grundvallarákvörðun að ræða og að mínum dómi er fráleitt að opna á heimildir til framkvæmdarvaldsins án þess að Alþingi komi að endanlegri ákvörðun ef til kemur. Í álitsgerð einkavæðingarnefndar fjmrh. sem birt var í febrúar sl. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að ríkisstjórnin samþykki að leggja áherslu á að færa verkefni ríkisins til einkaaðila með einkaframkvæmd á næstu árum. Nefndin hefur haft til skoðunar eftirfarandi verkefni sem öll eru á framkvæmdaáætlun ráðuneytanna og fyrirsjáanlegt er að ráðist verði í á næstu árum. Þau eru: Reykjavíkurflugvöllur. Heilsugæsla á höfuðborgarsvæði. Iðnskólinn í Hafnarfirði. Gæsluvarðhaldsfangelsi.``

Með samþykkt þessarar lagagreinar er verið að gefa Halldóri Blöndal hæstv. samgrh. opinn tékka á flugvelli landsins. Ég er ekki tilbúinn til þess og segi nei.