Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 15:22:56 (5318)

1998-03-31 15:22:56# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í ræðu minni á Alþingi fyrir tæpu ári upplýsti ég að hafin væri athugun á því hvernig staðið skyldi að eflingu utanríkisþjónustunnar þannig að hún gæti gegnt hlutverki sínu sem best í breyttum heimi. Nefnd sem ég skipaði í þessu skyni hefur lokið störfum og skilað áliti sem boðar kaflaskil í störfum utanríkisþjónustunnar.

Ástæðan að baki þessarar úttektar er hin mikla alþjóðavæðing undanfarinna ára hvort sem er í stjórnmálum, viðskiptum eða menningarmálum. Sá áhugi á styrkingu utanríkisþjónustunnar sem fram hefur komið hjá öllum stjórnmálaflokkum og í viðskiptalífinu hefur verið þessu starfi mikil hvatning. Jafnframt hefur þessi áhugi gefið til kynna almenna viðurkenningu á breyttri stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þróun mála, ekki aðeins í nágrannaríkjunum heldur einnig í fjarlægum heimsálfum, hefur nú mótandi áhrif á lífskjör og samfélagsþróun á Íslandi. Íslendingum er því lífsnauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína í margþættara og að mörgu leyti erfiðara alþjóðaumhverfi. Alþjóðaumhverfi, sem þó er jafnframt þess eðlis að það býður upp á fjölbreyttari tækifæri þar sem samhentar, tæknivæddar og vel menntaðar þjóðir geta haslað sér völl óháð fjarlægðum og landamærum.

Utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki í þessu starfi enda hafa verkefni hennar aukist gífurlega undanfarin ár. Búnaður hennar og mannafli miðast þó að mörgu leyti við aðstæður í utanríkismálum fyrir áratug. Róttækra breytinga er því þörf. Ég hef kynnt tillögur nefndarinnar fyrir ríkisstjórn og hefur álit hennar verið gert opinbert.

Í stuttu máli er lögð áhersla á að Ísland hafi ávallt öfluga utanríkisþjónustu til að gæta hagsmuna Íslands gagnvart umheiminum. Skrifstofur ráðuneytisins hér heima verði styrktar til að tryggja trausta stefnumótun varðandi úrvinnslu mála og til að takast á við ný verkefni. Starfsmönnum verði fjölgað, tæknivæðing aukin, samstarf ráðuneyta eflt, verkefnum forgangsraðað og viðskiptaþjónustan þróuð enn frekar.

Einnig er lagt til að hagsmunagæsla erlendis verði styrkt með opnun nýrra sendiráða í Japan og Kanada. Jafnframt að opnuð verði fastanefnd hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Vínarborg sem einnig yrði sendiráð í Austurríki og nágrannaríkjum þess. Þá er lagt til að kjörræðismönnum verði veittur meiri stuðningur.

Ljóst er að þessum breytingum fylgir talsverður kostnaðarauki sem verður ekki undir 300 millj. kr. á ári miðað við að allar tillögurnar komi til framkvæmda. Um er að ræða fjórðungsaukningu á fjárveitingum til utanríkisþjónustunnar.

Mikilvægt er að skoða þessi mál með opnum huga og átta sig á því að hér er verið að fjárfesta til framtíðar. Kostnaður við sendiráð getur virst mikill en því fé er vel varið og skilar sér aftur til þjóðarbúsins.

Fyrri umræðan um þáltill. um staðfestingu þriggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands fór fram á Alþingi fyrir stuttu. Yfirgnæfandi stuðningur er við að bjóða ríkin þrjú velkomin. Kalda stríðinu er lokið og lok þess hafa gjörbreytt stöðu mála í Evrópu. Takmarkið er óskipt álfa og öryggi allra þjóða. Stækkun Atlantshafsbandalagsins undirstrikar nýjan hugsunarhátt í samræmi við þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað. Núverandi öryggisfyrirkomulag Evrópu er margslungið og samverkandi kerfi margra alþjóðastofnana. Það byggir ekki á tveimur andstæðum pólum eins og áður var. Þessar alþjóðastofnanir vinna hver fyrir sig eða saman eftir viðfangsefnum hverju sinni. Besta dæmið er Bosnía þar sem stofnanirnar bæta hver aðra upp.

Varanlegt öryggi í Evrópu verður ekki án þátttöku Rússlands, víðlendasta og fjölmennasta ríkis álfunnar. Rússland er fullgildur aðili að flestum þeim stofnunum sem mynda hið nýja öryggisfyrirkomulag og á samstarf við þær stofnanir sem það er ekki aðili að. Rússland og Atlantshafsbandalagið eiga margþætt og náið samstarf á vettvangi samstarfsráðs þessara aðila og starfa saman að friðarframkvæmdinni í Bosníu. Loks hefur NATO komið til móts við áhyggjur stjórnvalda í Rússlandi vegna stækkunar Atlantshafsbandalagsins með einhliða yfirlýsingu um að það hafi hvorki þörf fyrir né áform um varanlega staðsetningu herliðs eða kjarnavopna í nýjum aðildarríkjum.

Við Íslendingar höfum lagt áherslu á að efla tengslin við Rússland bæði tvíhliða og á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana. Slíkt samstarf eflir gagnkvæmt traust og tengsl milli þjóða og einstaklinga. Nú eru í burðarliðnum nokkrir samningar milli Íslands og Rússlands. Þar má nefna samning um fjárfestingar, samning um samstarf í sjávarútvegi, loftferðasamning og tvísköttunarsamning. Það er einlæg von mín að hægt verði að staðfesta þessa samninga fljótlega.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa sjónir okkar enn á ný beinst að átökum og óvissu á Balkanskaga. Framganga serbneskra lögreglusveita í þorpum Kósóvóhéraðs hafa vakið óhug og ótta um að í vændum sé ný hrina átaka í Evrópu. Hætturnar eru augljósar; óstöðugleiki hefur verið í Albaníu, fjölmennur albanskur minni hluti er í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og á næstu grösum er Bosnía-Hersegóvína með viðkvæma og brothætta friðargerð.

Ég hef lagt áherslu á stuðning Íslands við ákvarðanir Samskiptahóps stórveldanna um Kósóvó. Mikilvægt er að senda serbneskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að hið alþjóðlega samfélag muni ekki þola þjóðernishreinsanir. Það er jafnframt mikilvægt að ítreka við leiðtoga Kósóvó-Albana alþjóðlegan stuðning við kröfur þeirra um sjálfsákvörðunarrétt. Hið alþjóðlega samfélag hefur markað þá stefnu að rétt sé að stefna að sjálfsstjórn Kósóvó innan júgóslavneska sambandslýðveldisins og ég álít það raunhæfa lausn.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, gegnir viðamiklu hlutverki í nýju öryggisfyrirkomulagi álfunnar. Gildir það bæði á sviði traustvekjandi aðgerða á hernaðarsviðinu og til styrkingar mannréttindum og lýðræði svo nokkrir þættir starfseminnar séu nefndir. Öll Evrópuríki auk Kanada og Bandaríkjanna eiga þar aðild en því miður höfum við ekki enn komið við fastri þátttöku í Vín sem áður er vikið að.

Evrópuráðið í Strassborg vinnur ötullega að eflingu og varðveislu mannréttinda. Starfsemi ráðsins miðar að því að stuðla að stöðugleika og öryggi í aðildarríkjunum með því að festa í sessi lýðræðislega stjórnarhætti og tryggja grundvöll réttarríkja. Ljóst er að með þessum fyrirbyggjandi aðgerðum gegnir stofnunin mikilvægu hlutverki í hinu nýja öryggisfyrirkomulagi Evrópu.

Aðildarríkjum Evrópuráðsins hefur fjölgað töluvert eftir lok kalda stríðsins og eru nú fjörutíu talsins. Mörg nýju aðildarríkjanna bjuggu við ólýðræðislega stjórnarhætti og meginreglur nútímaréttarríkja voru þeim framandi. Evrópuráðið hefur því aðstoðað þessi ríki með ýmsum hætti til að tryggja mannréttindi og festa lýðræðislega stjórnarhætti í sessi.

Til að tryggja áframhaldandi trúverðugleika Evrópuráðsins verða öll aðildarríki þess að standa við þær skuldbindingar sem aðild hefur í för með sér. Í þeim efnum verður að ríkja jafnræði milli ríkjanna. Stækkun ráðsins má ekki leiða til lakari mælikvarða á þessu sviði þar sem virðing fyrir mannréttindum er órjúfanlegur hluti af tryggingu öryggis og jafnvægis í Evrópu. Á næstu árum verður enn meiri áhersla lögð á eftirlitsþáttinn og mun þingmannasamkoma Evrópuráðsins gegna þar veigamiklu hlutverki.

Á næsta ári er liðin hálf öld frá stofnun Evrópuráðsins. Ísland tekur þá í fyrsta sinn við formennsku í ráðherranefnd þess. Í því felst m.a. að vera í fyrirsvari fyrir Evrópuráðinu gagnvart öðrum alþjóðastofnunum eins og ÖSE, ESB, Atlantshafsbandalaginu og Sameinuðu þjóðunum. Formennskan í Evrópuráðinu er veigamikið verkefni sem kallar á frumkvæði af Íslands hálfu og mun útheimta mikla vinnu. Til að mæta því hefur verið fjölgað í fastanefnd Íslands í Strassborg.

Á sviði svæðisbundinnar samvinnu hefur Ísland lagt sitt af mörkum með þátttöku í Eystrasaltsráðinu. Við höfum einnig tekið þátt í svæðisbundnu samstarfi innan Barentsráðsins, sem beinist einkum að mengunarvörnum og efnahagsuppbyggingu í norðvestanverðu Rússlandi. Viðskiptatengsl við þetta svæði hafa aukist undanfarin ár ekki síst á sjávarútvegssviðinu. Ljóst er að það er hagsmunamál Íslendinga að vel takist til með þessa þróun.

Í febrúar náðist innan Norðurskautsráðsins samkomulag um reglur sem fylgja ber í starfi ráðsins til að vinna að sjálfbærri þróun. Segja má að meginmarkmið ráðsins sé að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, heilbrigðu vistkerfi og líffræðilegum fjölbreytileika. Það er því hagsmunamál Íslendinga að Norðurskautsráðið nái sem fyrst að verða vettvangur þar sem aðildarríkin geta tekið höndum saman um að tryggja í senn sjálfbæra nýtingu auðlinda og eðlilega umhverfisvernd.

Hvað varðar varnarmál Íslands, þ.e. samstarf okkar við Bandaríkin, framlag til eigin varna og öryggissamstarf við bandamenn og samstarfsríki er ljóst að meginverkefnið fram undan er endurskoðun varnarstefnu Íslands til lengri tíma sem nú er unnið að. Þar verður einkum höfð að leiðarljósi trygging varna landsins um ókomna framtíð á grunni aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningi okkar við Bandaríkin. Jafnframt þarf að skilgreina hvað við viljum leggja af mörkum til sameiginlegs öryggis aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess. Þar þarf meðal annars að hafa í huga þátttöku í æfingum eins og Samverði 97 sem fór fram hér í sumar og þátttöku í beinum friðaraðgerðum eða mannúðarverkefnum eins og við höfum gert í Bosníu.

Ísland fer nú með formennsku í EFTA og í EES/EFTA á fyrri hluta þessa árs og gegnir því forustuhlutverki við framkvæmd EES-samningsins á þessum tíma. Framkvæmd samningsins gengur vel. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur tvímælalaust reynst farsæll valkostur fyrir Ísland. Við njótum efnahagslegs og pólitísks ávinnings af því auk þess sem við höfum áhrif á framgang ýmissa mála umfram ríki sem standa utan þess. Meginmarkmið Evrópusambandsins er að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og með þátttöku okkar í EES erum við aðilar að þeirri þróun. Pólitískt samráð innan ramma EES gefur okkur tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri við ESB ásamt því að gerast aðilar að málflutningi sambandsins í veigamiklum málum.

Ef litið er til tveggja helstu framtíðarverkefna Evrópusambandsins, þ.e. stækkun sambandsins og stofnun Efnahags- og myntbandalagsins, munu þau óneitanlega hafa áhrif á Ísland. Við höfum beina hagsmuni af stækkun Evrópusambandsins þar sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir því að ný aðildarríki verði aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Næsta öruggt er að Efnahags- og myntbandalaginu verði hrint í framkvæmd á næsta ári með þátttöku fleiri ríkja en upphaflega var gert ráð fyrir. Þessi sameiginlegi gjaldmiðill mun óhjákvæmilega hafa áhrif á efnahags- og viðskiptamál annarra ríkja, þar á meðal Íslands. Þegar heyrast raddir úr íslensku atvinnulífi sem telja brýnt að tengja íslensku krónuna sterkum böndum við hinn sameiginlega evrópska gjaldmiðil meðal annars til að draga úr kostnaði fyrirtækja vegna gjaldeyrisyfirfærslna og gjaldeyrissveiflna. Í lok síðasta árs setti ríkisstjórnin á fót samráðsnefnd til að gera úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalagsins á íslenskt efnahagslíf.

Umfangsmikil endurskoðun á Schengen-samstarfinu fer nú fram í kjölfar ákvörðunar ríkjaráðstefnu ESB í Amsterdam. Í Amsterdam-samningnum er ákvæði um að aðild Íslands og Noregs að Schengen-samstarfinu skuli byggjast á samstarfssamningnum milli Íslands og Noregs við Schengen-ríkin frá árinu 1996. Íslensk stjórnvöld eru þeirrar skoðunar að Schengen-samstarfið hafi verið farsælt. Það tryggir bæði áframhaldandi þátttöku okkar í norræna vegabréfasamstarfinu og leggur grundvöllinn að víðtæku samstarfi á sviði lögreglu- og dómsmála. Áframhaldandi vilji okkar til samstarfs er skýr. Hins vegar er ljóst að til þess að af samstarfi geti orðið verður að gera ráð fyrir fullri þátttöku Íslands og Noregs í þessum málaflokki á þjóðréttarlegum grundvelli eins og hingað til. Ekki er enn útséð hvort takist að finna ásættanlega lausn en í ljósi framvindu mála að undanförnu eru vonir bundnar við að viðunandi lausn finnist á þessu mikilvæga máli.

Á undanförnum árum hafa EFTA-ríkin gert fríverslunarsamninga við þrettán ríki og gefið út samstarfsyfirlýsingar við sjö ríki. Fríverslunarviðræður við Kanada marka þáttaskil í starfssemi EFTA en þær eru mikilvægasta viðfangsefni EFTA síðan EES viðræðunum lauk. Fríverslunarviðræðurnar verða efst á baugi á ráðherrafundi EFTA í Reykjavík í júní. Aðdragandinn að þessum viðræðum við Kanada hefur verið skammur. Undir formennsku Íslands í EFTA hefur þetta mál fengið forgang. Fyrsti samningafundurinn verður haldinn í maí næstkomandi og er hann í undirbúningi hjá starfshópi sex ráðuneyta.

Öflug þátttaka Íslands í norrænu samstarfi er sem fyrr grundvallarþáttur í íslenskri utanríkisstefnu. Skýrsla mín um störf norrænu ráðherranefndarinnar var til umræðu 19. mars sl. Meginþáttur og kjarni norræna samstarfsins er innra samstarf norrænu ríkjanna. Þar er um að ræða fjölþætt samstarf sem á sér stað ekki eingöngu milli ríkisstjórna og þjóðþinga heldur einnig milli nánast allra frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Norðurlöndin hafa nána samvinnu sín á milli í málaflokkum sem tengjast Evrópusambandinu og EES-samningnum. Aðild Finnlands og Svíþjóðar að ESB virðist ekki hafa dregið úr þátttöku þeirra og virkni í norrænu samstarfi og hugmyndir finnskra stjórnvalda um norðlæga vídd í starfsemi Evrópusambandsins eru jákvæðar og njóta fyllsta stuðnings okkar.

Í maí næstkomandi eru fimmtíu ár frá stofnun hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis. Annar ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) verður haldinn í Genf um sama leyti til að móta framtíðarstörf stofnunarinnar á nýrri öld.

Alþjóðaviðskiptastofnunin mun ýta nýjum viðræðum um þjónustuviðskipti og landbúnað úr vör í lok aldarinnar. Of snemmt er að segja til um hvort nýjar tollaviðræður á sviði vöruviðskipta fylgi í kjölfarið svo stuttu eftir lok Úrúgvæ-viðræðnanna en hugmyndum þess efnis vex nú fylgi. Ísland hefur skipað sér í hóp þeirra sem telja æskilegt að samningaumhverfið um aldamótin verði víðtækara en nú er útlit fyrir og eru nýjar viðræður um tollalækkanir á vörusviðinu lágmarkskrafa í því sambandi.

Á því rúmlega hálfa ári sem liðið er frá stofnun viðskiptaþjónustu utanrrn. hefur ótvírætt komið í ljós að mikil þörf er á slíkri þjónustu. Fyrirtæki snúa sér í æ ríkari mæli til ráðuneytisins með beiðni um fyrirgreiðslu á sviði viðskipta. Það eru ekki einungis stór og meðalstór fyrirtæki heldur jafnframt smærri fyrirtæki. Þessi þróun samræmist aukinni alþjóðavæðingu íslenskra fyrirtækja. Öll sendiráð Íslands veita markaðsaðstoð og fyrirtækjaþjónustu. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið mótuð sú stefna í utanríkisráðuneytinu að nýta heimsóknir ráðherra og embættismanna til annarra landa í þágu atvinnulífsins þar sem því verður við komið.

Uppnámið í efnahagslífi Asíu fyrir rúmu missiri kom mörgum í opna skjöldu eftir þá öru framþróun sem þar hefur átt sér stað. Japanar höfðu um skeið glímt við stöðnun en ótraustir innviðir í efnahagslífi Indónesíu, Suður-Kóreu og fleiri landa þar eystra leiddu skyndilega til alvarlegrar efnahagskreppu. Aðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri alþjóðastofnana hafa þegar borið nokkurn árangur. Að margra áliti mun takast að ná jafnvægi í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum Asíu á tiltölulega skömmum tíma.

Sameinuðu þjóðirnar minnast þess í ár að fimmtíu ár eru liðin síðan mannréttindayfirlýsingin var samþykkt í desember 1948 en hún hefur verið leiðarljós allrar mannréttindabaráttu síðan. Mannréttindamál eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála, ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindi eru alþjóðleg og algild og það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir þeim.

Nú stendur yfir þing mannréttindaráðsins í Genf. Ísland á þar áheyrnaraðild og mun sem fyrr gerast meðflytjandi að mörgum ályktunartillögum sem fjalla um stöðu mannréttinda víða um heim og mannréttindi ýmissa þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja. Við Íslendingar viðurkennum ekki að gengið sé á mannréttindi í nafni trúarbragða, hefða og menningar. Í þessu sambandi má minna á mikilvægi þess starfs að mannréttindamálum sem fjölmargir Íslendingar vinna innan sjálfstæðra félagasamtaka. Efla þarf samstarf stjórnvalda og þessara félagasamtaka.

Mikilvægt er að Ísland taki þátt í viðleitni allra þjóða til að leysa hin miklu hnattrænu vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir. Innan efnahags- og félagsmálaráðsins sem Ísland á sæti í höfum við vakið athygli á mikilvægi skynsamlegrar nýtingar auðlinda hafsins, varna gegn mengun hafsins og þýðingu þess fyrir fæðuöryggi í heiminum. Ísland hefur áréttað mikilvægi nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa, mikilvægi markaðslögmála í þróunarsamstarfi og þess að mannréttindi séu órjúfanlegur þáttur í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna.

Áratugurinn sem nú er að líða hefur verið helgaður baráttunni gegn fíkniefnaneyslu. Löngu er orðið tímabært að samfélag þjóðanna komist að samkomulagi um raunhæfar aðgerðir til að setja skorður við framleiðslu, dreifingu og neyslu ólöglegra fíkniefna. Í því skyni verður haldið í sumar sérstakt aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavarnir.

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað yfirstandandi ár málefnum hafsins og er það til marks um það vægi sem lífríki hafsins og nýting auðlinda þess hefur í starfsemi samtakanna. Skipuð hefur verið nefnd til að fjalla um þátt Íslands í Ári hafsins og ríkisstjórnin hefur gefið út sérstaka yfirlýsingu af þessu tilefni. Á ári hafsins eigum við þess kost að vekja athygli umheimsins á vistvænum íslenskum sjávarafurðum og greiða þannig götu íslenskra útflutningsfyrirtækja. Með þessa hagsmuni í huga mun Ísland taka þátt í heimssýningunni í Lissabon sem helguð verður höfunum. Þessu til viðbótar hefur verið ákveðið að nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fjalli á næsta ári um málefni hafsins og verður kappkostað að láta rödd Íslands heyrast á þeim vettvangi.

Þótt sérhvert ár sé ár hafsins fyrir íslensku þjóðina, er mikilvægt að nýta öll tækifæri sem gefast til að stuðla að yfirvegaðri og skynsamlegri umræðu á alþjóðlegum vettvangi um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Það er óneitanlega áhyggjuefni hve almennar fullyrðingar og hrakspár um ofveidda fiskstofna og ógnun lífríkis af völdum mengunar lita umræðu um sjávarútveg á alþjóðavettvangi. Sem betur fer er mengun í sjó við Ísland áfram með því minnsta sem gerist í heiminum og víða er litið með áhuga til árangurs okkar á sviði fiskveiðistjórnunar. Alþjóðasamningar um fiskveiðimálefni, einkum þar sem um er að ræða stofna sem fleiri en Íslendingar veiða, eru nú sem fyrr eitt aðalverkefni utanríkisþjónustunnar. Samningaviðræður um þorskveiðar okkar í Barentshafi hafa ekki enn borið árangur þó stöðugt sé unnið að lausn málsins. Betur hefur gengið að ná samkomulagi um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Samningar fjögurra strandríkja, Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands, og Evrópusambandsins náðust í lok október sl. Jafnframt hefur verið unnið með góðum árangri innan svæðisbundinna fiskveiðistofnana.

[15:45]

Um miðjan desember síðastliðinn hófust könnunarviðræður Grænlendinga, Íslendinga og Norðmanna um skipan loðnuveiða í lögsögu þessara þriggja landa. Uppsögn loðnusamnings í lok október leiðir til þess að enginn samningur verður í gildi í lok yfirstandandi loðnuvertíðar 30. apríl nk., komi ekki til nýs samnings en nú er unnið að gerð nýs samkomulags.

Það er afdráttarlaus stefna Íslands að nýta beri með sjálfbærum hætti allar lifandi auðlindir hafsins. Þar með teljast hvalir og selir, enda skipa sjávarspendýr stóran sess í lífríki íslenska hafsvæðisins. Í samræmi við ályktun ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra þar sem ítrekuð er stefna stjórnvalda að hefja hvalveiðar hér við land að nýju, hafa átt sér stað viðræður við ýmis ríki. Sérstaklega hefur verið kannað hvort þær viðhorfsbreytingar til hvalveiða sem borið hefur á innan Alþjóðahvalveiðiráðsins geti leitt til endurskoðunar á afstöðu Íslands til aðildar að ráðinu. Svo virðist sem nokkuð skorti á að málið sé í höfn, en stjórnvöld munu áfram fylgjast með þróun mála og meta stöðuna.

Málefni hafsins og nýting lifandi auðlinda þess er eitt af meginviðfangsefnum samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland gerðist aðili að 1994. Skipaður hefur verið samráðshópur til að fylgjast m.a. með umfjöllun um málefni hafsins á þeim vettvangi.

Viðræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um takmörkun losunar á gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið er dæmi um það hvernig auðlindanýting og umhverfisvernd tvinnast saman með beinum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf. Samningaviðræðurnar um loftslagsbreytingar hafa með tvennum hætti mikla þýðingu fyrir Ísland. Í fyrsta lagi ríkir mikil óvissa um afleiðingar gróðurhúsaáhrifa á norðurslóðum og í öðru lagi eru möguleikar Íslands á að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda minni en annarra iðnríkja.

Þótt margt sé á huldu um áhrif gróðurhúsalofttegunda á loftslag á jörðinni verður ekki horft fram hjá hættunni sem getur falist í þessum áhrifum. Mikilvægt er því að takmarka losun þessara lofttegunda í heiminum og ber að fagna samkomulagi Kyoto-fundarins þar að lútandi.

Gripið var til aðgerða hér á landi til að nýta jarðhita til húshitunar í stað jarðefnaeldsneytis fyrir áður nefnt viðmiðunarár, 1990. Ef þessar aðgerðir hefðu ekki komið til hefði losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verið um 40% meiri árið 1990 eða svipuð og meðaltal OECD-ríkjanna. Möguleikar okkar á að draga úr losun frá samgöngum, fiskveiðum og iðnferlum eru ekki miklir enn sem komið er, enda erum við þar að verulegu leyti háð alþjóðlegri tækniþróun. Brýnt er að Íslendingar fylgist vel með og taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Ísland vill verða virkur þátttakandi í rammasamningnum ásamt Kyoto-bókuninni við hann og vonandi mun útfærsla áðurnefndrar samþykktar gera það kleift. Það skýrist þó ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir aðildaríkjaþingið í Buenos Aires. Hins vegar liggur fyrir að við þurfum að grípa til frekari aðgerða heima fyrir til þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Vinna þarf að nýrri framsækinni áætlun um aðgerðir sem ná yfir losun frá allri starfsemi í landinu sem og bindingar í gróðri. Þetta þurfum við að gera óháð því hvort við getum gerst aðilar að bókuninni eður ei.

Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka verulega framlag til tvíhliða þróunarsamstarfs á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þess mun þegar sjá merki í starfsemi stofnunarinnar á næsta ári, en hún starfar nú í fjórum löndum Afríku: Namibíu, Malaví, Mósambík og Grænhöfðaeyjum. Stefnt verður að auknum verkefnum á sviði mennta- og heilbrigðismála, einkum í Malaví og Mósambík. Lögð verður sérstök áhersla á aðstoð við konur í ljósi þess að aðstoð við þær skilar sér margfalt út í þjóðfélagið. Mjög góð reynsla hefur verið af kvennaverkefnum Íslands í Namibíu og Grænhöfðaeyjum. Áfram verður unnið að sjávarútvegsverkefnum í Malaví, Mósambík og Namibíu. Í undirbúningi er opinber heimsókn til nokkurra samstarfsríkja í suðurhluta Afríku sem væntanlega verður farin í ágúst næstkomandi.

Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna hefur tekið til starfa. Náið samstarf verður milli sjávarútvegsskólans, Hafrannsóknastofnunar, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands og munu fyrstu nemendur hefja nám á hausti komanda. Skólinn verður rekinn með svipuðu sniði og Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna.

Utanrrn. hefur nú haft forsvar í málefnum Alþjóðabankans í eitt og hálft ár. Alþjóðabankinn er stærsta þróunarstofnun heims og veitir lán, tækniaðstoð og ráðgjöf á öllum sviðum efnahagslegrar og félagslegrar uppbyggingar. Aukinn hagvöxtur er ein af helstu forsendum framþróunar hvers lands, en menntun og heilsugæsla eru dæmi um mikilvæga málaflokka þar sem Alþjóðabankinn leggur ríkulega af mörkum til þróunarstarfs.

Í þessu samhengi má nefna framlag Íslands til uppbyggingarstarfsins í Bosníu-Hersegóvínu. Þar hafa íslensk og bosnísk yfirvöld tekið höndum saman á sviði heilbrigðismála með aðstoð Alþjóðabankans. Um er að ræða tvö verkefni. Hið fyrra felst í aðstoð við fórnarlömb stríðsins sem misst hafa fætur fyrir neðan hné og hið síðara byggist á endurmenntun lækna og hjúkrunarfólks á sviði barnalækninga, kvensjúkdóma og mæðraverndar.

Ísland hefur einnig stutt Alþjóðaframfarastofnunina til jafns við önnur ríki en hún er sú stofnun Alþjóðabankans sem veitir aðstoð til fátækustu þróunarríkjanna. Árangur af starfi stofnunarinnar fer vaxandi og er sérstaklega ánægjulegt að uppbygging mannauðs er nú eitt helsta lykilorðið í starfsemi hennar.

Samstarf Norðurlanda innan Alþjóðabankans er mjög náið og með samstilltum málflutningi er vægi landanna innan bankans meira en atkvæðamagn þeirra gefur tilefni til. Sjónarmið Norðurlanda hafa hlotið aukinn hljómgrunn á síðustu árum og nýtur því bankinn trausts stuðnings þeirra. Íslenskur ráðherra situr nú í fyrsta sinn í þróunarnefnd Alþjóðabankans, en nefndin gegnir veigamiklu hlutverki og markar stefnu bankans í þróunarmálum hverju sinni. Ísland fer með formennsku fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í þróunarnefndinni en auk þess mun Ísland tala máli Norðurlanda á ársfundi Alþjóðabankans í haust.

Herra forseti. Fá ríki eru jafnháð alþjóðasamskiptum og Ísland og ein mikilvægasta forsenda góðra lífskjara hér á landi er að standa vel að utanríkisviðskiptum og öðrum utanríkismálum. Eins og ég gat um í upphafi gegnir utanríkisþjónustan lykilhlutverki í þeirri viðleitni að styrkja stöðu okkar sem best í þeirri samkeppni sem á sér stað á alþjóðavettvangi. Hér er um hreina hagsmunagæslu að ræða sem snertir alla landsmenn beint eða óbeint. Það er því von mín að skilningur á mikilvægi utanríkismála komi rækilega fram hér á Alþingi í dag.