Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 15:54:15 (5319)

1998-03-31 15:54:15# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta var að mörgu leyti athyglisverð ræða hjá hæstv. utanrrh. Því miður virðist það uppnám sem þingmenn úr flokki hans ollu fyrr í dag hafa gert það að verkum að þingmenn hafa ekki eirð í sér til þess að sitja undir þessari umræðu. Þegar ég lít hér yfir salinn er a.m.k. ekki nema einn hv. þm. stjórnarliðsins í salnum.

Horfi maður út um gluggann sést að það er komið vor. Ég er ekki að ásaka hæstv. ráðherra um vorgalsa en það vekur eigi að síður athygli mína að þessi ræða hæstv. ráðherra er kölluð vorræða utanrrh. Ég hygg að það sé fyrsta skiptið sem svo er tekið til orða.

Ég kann því hins vegar ágætlega, herra forseti, að það komi sumar í hæstv. utanrrh. Á vissan hátt mætti segja að það sé loksins komið sumar í alþjóðamálum eftir hlýnun sem átti sér stað í lok kalda stríðsins. Segja má að þeir miklu atburðir sem eru að gerast úti í Evrópu og við að vissu marki tökum þátt í, þ.e. stækkun tveggja alþjóðabandalaga, staðfesti að vorið sem fylgdi í kjölfar kalda stríðsins sé orðið að sumri. Mér finnst því vel til fundið hjá hæstv. utanrrh. að koma léttstígur í pontu og kalla ræðu sína vorræðu. Með vissum hætti boðar hún, eins og ég sagði áðan, hlýnun í hinu alþjóðlega andrúmslofti og samskiptum þjóða.

Það stappar nærri því að staðan í Evrópu í dag sé gerbreytt frá því sem hún var fyrir tæpum áratug. Staðfestingu þess er auðvitað að sjá í stækkun Evrópusambandsins og einnig NATO. Öryggisumhverfi álfunnar er allt saman breytt. Það hvílir líka á fleiri og fjölbreyttari stoðum en áður. NATO er að sönnu jafnmikilvægt og áður og þar með sá stuðningur sem það sækir til Bandaríkjanna. Þó margir mundu vilja sjá breytingu á stöðu Atlantshafsbandalagsins, þá sjáum við það einfaldlega á þeim atburðum sem urðu í Bosníu að þar gat Evrópa ekki óstudd og ein síns liðs slökkt neista sem hefði getað glæðst í ófriðarbál.

Evrópusambandið gegnir líka öryggishlutverki. Okkur hér á Íslandi hættir til að líta á Evrópusambandið fyrst og fremst frá sjónarhóli efnahagslegs ávinnings eða tolla en meginhugmyndin að baki stofnunar Evrópusambandsins var auðvitað að tryggja frið og öryggi í álfunni.

Í ræðu minni vil ég, herra forseti, fara nokkrum orðum um stækkun Atlantshafsbandalagsins og sér í lagi þátt Íslendinga í henni. Eins og við þingmenn munum þá spunnust hér harðar umræður um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til stækkunar NATO. Á þeim tíma kom ég í þennan stól og gagnrýndi hæstv. utanrrh. nokkuð harðlega vegna þess að mér þótti hann ekki styðja málstað Eystrasaltsríkjanna sem skyldi í ræðu sinni þá. Ég tel að þær umræður sem urðu hér á þinginu, einmitt um þá ræðu, hafi mótað þá farsælu stefnu sem ríkisstjórnin fylgdi þegar til Madrid kom.

Við urðum öll vitni að því að þau ríki sem harðast sóttu að komast í NATO fóru með nokkru diplómatísku afli um álfuna. Sum sóttu okkur heim til þess að afla stuðnings og það var yfirgnæfandi stuðningur við að fimm ríki kæmu í fyrstu lotu. Auk þeirra þriggja staðfestingarsamninga sem liggja nú fyrir Alþingi var talið að Slóvenía og Rúmenía mundu einnig komast inn. Bandaríkin, studd af Íslendingum, tóku af skarið í þeim efnum og ég tel að það hafi verið mjög farsæl afstaða hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvers vegna? Vegna þess að ég tel að með þau ríki fyrir utan bandalagið sé skemmra en ella þangað til önnur inntaka verður. Þá held ég að meiri líkur séu á að Eystrasaltslöndin verði í næstu bylgju sem tekin verður inn í Atlantshafsbandalagið.

Ég vil ítreka það, herra forseti, að í þessum þremur ríkjum er yfirgnæfandi stuðningur almennings við aðild að Atlantshafsbandalaginu og ég tel því að við eigum að styðja það, m.a. í krafti sjálfsákvörðunarréttar fullvalda ríkja. Það er alveg ljóst hvar þessi ríki vilja finna sér skjól og við eigum að styðja þau.

Við Íslendingar höfum ákveðna arfleifð í þessum efnum. Svo ég rifji það upp þá tók þáv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþfl., svo afdrifaríka ákvörðun að fara til Eistlands í ágúst 1991. Hann beitti sér fyrir því að ríkisstjórnin, sem Alþfl. sat þá í, tók fyrst ríkisstjórna þá ákvörðun að styðja og viðurkenna fullveldi þessara ríkja. Þar með tel ég að við höfum fyrir okkar leyti tekið þátt í að gjalda þessum ríkjum þá skuld sem við höfum staðið í við þau allar götur síðan 1940.

Þess vegna hryggir það mig, herra forseti, að í annars ágætri ræðu hæstv. utanrrh. þar sem hann fjallar um NATO og stækkunina, þá er allmörgum orðum farið um mikilvægi Rússlands og nauðsyn þess að hafa gott jafnvægi í tengslum við Rússland. Hins vegar hefur Rússlandsforseti sagt að það muni koma öryggiskerfi og friði álfunnar úr jafnvægi ef þessi þrjú ríki sem ég nefndi áðan væru tekin inn í Atlantshafsbandalagið. Með öðrum orðum hefur hann reynt að taka sér neitunarvald í þessum efnum. Íslendingar geta ekki undir nokkrum kringumstæðum fallist á að annað ríki hafi neitunarvald í þessum efnum.

[16:00]

Þess vegna hefði ég kosið að hæstv. utanrrh. nefndi a.m.k. ríkin þrjú. Hvers vegna hefði það verið viðeigandi? Vegna þess að m.a. fyrir atbeina hans og annarra Íslendinga sem koma að stækkun NATO voru þessi þrjú ríki nefnd í lokayfirlýsingu Madrid-fundarins. Við heyrðum það sjálf sem erum í utanrmn. hversu mikilvæg sú yfirlýsing var Eystrasaltslöndunum. Við heyrðum það þegar Ilves, utanrrh. Eistlands, sótti okkur heim og lýsti því hversu gríðarlega mikilvægur sá siðferðilegi stuðningur sem Íslendingar veittu Eistlendingum hefði verið þeim í aðdraganda Madrid-fundarins og á meðan á honum stóð. Það er alveg ljóst að þessi lönd bera miklar væntingar til okkar og ég segi fyrir mína hönd og flokks míns að við teljum að jafnan þegar Íslendingar tala um NATO og fyrirhugaða stækkun NATO sé nauðsynlegt að nefna þessi ríki alveg eins og gert var í yfirlýsingunum frá Madrid. Það er ekki gert í þessari ræðu hæstv. utanrrh. og mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé alveg ljóst að íslenska ríkisstjórnin hafi það á stefnu sinni að styðja viðleitni þessara ríkja til að komast inn í Atlantshafsbandalagið þegar við næstu inntöku.

Hinn sumarboðinn í hinu alþjóðlega umhverfi er stækkun annars bandalags, þ.e. Evrópusambandsins. Ég tek það fram áður en ég hef ræðu mína um Evrópusambandið að ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar hefðu átt að leita lags og neyta ákveðinna kringumstæðna sem komu hér upp fyrir nokkrum árum og missirum og freista þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég er enn þeirrar skoðunar að þegar fram í sækir verði það heppilegt fyrir Ísland. Ég tek eftir því að ýmislegt sem ég hef séð frá hæstv. utanrrh. boðar öðruvísi skilning á eðli Evrópusamstarfsins en áður. Nú tek ég fram að ég er ekki að kvarta undan því að hæstv. ráðherra hafi ekki góðan skilning á þessu en ég tók auðvitað eftir því sem fyrrv. stjórnarsinni meðan hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu hversu hlýjum orðum hæstv. ráðherra fer um Evrópska efnahagssvæðið. Framsfl. sem hann tilheyrir hafði áður þess konar afstöðu gagnvart Evrópusambandinu að ég held að enginn þingmanna flokksins hafi greitt atkvæði með aðildinni þegar hún var til ákvörðunar í þinginu. Þess vegna gleður það mitt litla jafnaðarmannahjarta að lesa eftirfarandi, herra forseti, sem hrotið hefur úr penna hæstv. ráðherra: ,,Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur tvímælalaust reynst farsæll valkostur fyrir Ísland.`` Ég er hæstv. ráðherra mjög sammála og mikið skelfing hefði það verið miklu þægilegra fyrir Alþingi og jafnvel fyrir Íslendinga ef hæstv. ráðherra hefði verið þessarar skoðunar líka fyrir nokkrum árum. Hæstv. ráðherra hefur líka sýnt í greinum sem hann hefur ritað að hann hefur meiri skilning á mikilvægi ýmissa hluta sem eru að gerast í Evrópusamstarfinu en ýmsir aðrir í ríkisstjórninni. Ég vek þá sérstaklega athygli á þeim hluta ræðu hæstv. ráðherra sem varðar það samstarf á sviði sameiginlegs gjaldmiðils sem er núna að verða að veruleika í Evrópu.

Það er að mínu viti ljóst, herra forseti, að innan ríkisstjórnarinnar virðist sem ekki sé fullkomin sátt í þessum efnum og sem stefnan sé ekki algjörlega ein og hin sama eftir því hver talar. Hæstv. forsrh. hefur talað í þá veru að það sé ekki æskilegt að Íslendingar tengist samstarfi Evrópuþjóðanna á sviði gjaldmiðla. Hæstv. utanrrh. tók hins vegar af skarið í grein sem hann skrifaði í dagblaðið Dag, mig minnir einhvern tímann í janúarmánuði eða fyrr á þessu ári, og lýsti þar skorinort yfir að það kynni að vera skynsamlegt að tengjast gjaldmiðlasamstarfinu með einhverjum hætti. Ég er algjörlega sammála hæstv. utanrrh. um þetta. Ég beið því eftir því þegar ég las ræðu hæstv. ráðherra að sjá hvað hann hefði um þetta að segja en hæstv. ráðherra lætur sér nægja að segja í ræðu sinni, ef ég man rétt, að víða í þjóðfélaginu séu ýmsir sem séu farnir að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að Íslendingar tengist þessu með einhverjum hætti. Hæstv. ráðherra telur sjálfan sig ekki í þeim hópi í ræðunni. Mér virðist sem sagt, herra forseti, að það sé eins og hæstv. utanrrh. setji ekki alveg jafnskýlaust fram í ræðu sinni þær skoðanir á möguleikum Íslands til að tengjast samstarfinu eins og hann hefur gert utan þings og ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort þetta sé vegna þess að ríkisstjórnin er ekki algjörlega sammála í þessum efnum. Ég held að Myntbandalagið muni valda straumhvörfum í efnahagslífi Evrópu. Það hefur verið bent á að sameiginlegur gjaldmiðill dregur verulega úr gengisáhættu fyrirtækja, vaxtastig mun leita niður á við og samkeppnishæfni fyrirtækja mun verða allt önnur og betri. Þá spyr maður sjálfan sig: Eftir því sem fleiri ríki munu ganga inn í þetta samstarf og öll ríkjanna sem nú eru í ESB hafa lýst því yfir, líka þau sem eru ekki aðilar að samstarfinu nú, að þau muni verða það innan tíðar. Það er alveg ljóst að sum þeirra 11 ríkja sem munu á næstu 10 árum verða aðilar að Evrópusambandinu munu að sjálfsögðu líka ganga inn í þetta samstarf. Hvaða áhrif hefur það þá fyrir Íslendinga að standa þarna fyrir utan? Ýmsir menn sem mér eru miklu vísari á sviði hagfræði og efnahagsmála hafa mælt það svo að kostnaður íslenskra fyrirtækja af því að standa utan við þetta samstarf gæti numið frá 6 til 12 milljörðum kr. Það er a.m.k. alveg ljóst að samkeppnishæfni fyrirtækja í löndum utan samstarfsins mun minnka. Við búum við góðæri í dag og getum lifað við þetta í dag en ég spyr, herra forseti: Hvað gerist þegar harðnar á dalnum, þegar fyrirtækin lenda e.t.v. í krappari dansi en þau hafa gert um nokkurra missira skeið? Ég held því og hvet hæstv. utanrrh. til að halda fram þeirri stefnu sem hann hefur stiklað á í greinum sínum utan þings. Ég tel að það væri mjög farsælt fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Herra forseti. Það fer heldur ekki hjá því að það hafa orðið vissar breytingar á starfi Evrópusambandsins á allra síðustu missirum. Við sem erum eins konar aukaaðilar að því í gegnum Evrópska efnahagssvæðið höfum haft ákveðinn rétt til áhrifa þar í gegnum samráð í sérfræðinganefndum. Nú gerðist það á fundinum í Amsterdam þar sem verið var að breyta Maastricht-sáttmálanum að drjúgur hluti þeirra mála sem falla undir fyrstu stoð ESB, þ.e. EES-málanna fylgja núna svonefndu samráðsferli. Það gerir það að verkum, herra forseti, að ef upp kemur ágreiningur milli Evrópuþingsins og ráðherraráðsins og hann er ekki leystur að tveim umræðum loknum getur þingið hafnað því. Með öðrum orðum þetta kallar á að reynt verður að freista málamiðlunar áður en málið fellur þá við þriðju umræðu. En við þá málamiðlun getur Ísland að engu leyti komið að sjónarmiðum sínum. Þetta ásamt þeirri staðreynd að verið er að flytja fleiri þætti undan fyrstu stoð samstarfsins yfir í samráðsferlið dregur óneitanlega úr þeim áhrifum sem Ísland hefur og ég spyr hæstv. utanrrh.: Með hvaða hætti telur hann að fært sé að tryggja hagsmuni EES-ríkjanna?

Ef tími minn leyfði, herra forseti, mundi ég einnig beina til hans spurningum sem varða breytingar á afstöðu Sviss til bæði EFTA og ESB en eins og kunnugt er er í bígerð tvíhliða samningur milli Sviss og ESB og við vitum að þeir hafa fullbúna aðildarumsókn í frystinum og 67% íbúa þjóðarinnar telja að það eigi að sækja um aðild og forseti landsins hefur nýverið lýst því yfir að það væri æskilegt að sjá landið innan Sviss. Hvað gerist ef þessi tvíhliða samningur fer að verka, hvað gerist þá varðandi EFTA? Þeir hafa greitt drjúgan hluta af kostnaði við EFTA þótt þeir komi ekki að öllu samstarfi innan EFTA-ríkjanna en hvaða áhrif mun þetta hafa á samstarf EFTA-ríkjanna og þar með á möguleika okkar til að starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins? Getur það verið, herra forseti, að þær breytingar sem eru að verða á því umhverfi sem ég hef lýst hér, hnígi að því að það sé besti og vænlegasti kosturinn fyrir Ísland að tryggja hagsmuni sína með því að sækja á næstu árum um aðild að Evrópusambandinu?