Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:14:47 (5322)

1998-03-31 16:14:47# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við þetta að bæta. Það er nú svo að það verður ekki hægt að hafa allar ræður eins og það veit ég að hv. þm. er mér alveg sammála um. En land eins og Eistland viðurkennir það ekkert síður en við að það er mikilvægt að koma á vinsamlegum og góðum samskiptum við Rússland. Og það er forsenda þess að Eistland geti gengið í Evrópusambandið að leysa þau ágreiningsmál sem hafa verið uppi milli þessara þjóða að því er varðar svokallaðan rússneskan minni hluta í Eistlandi.

[16:15]

Þar hefur ýmislegt gengið til betri vegar og utanríkisráðherra Eistlands staðfesti það einmitt á fundi með mér fyrir nokkrum dögum að í nýlegri heimsókn, að því er mig minnir aðstoðarforsætisráðherra Rússlands til Eistlands, hafi hann sagt á blaðamannafundi um þau mál að hann hefði ekkert um þau mál að segja því um væri að ræða innanríkismál Eistlands. Slík rödd hefur aldrei heyrst áður frá Rússlandi mér vitanlega og þess vegna er það mjög ánægjulegt ef þjóðirnar geta komist að niðurstöðu um stöðu þessa fólks. Ég held að Eistland skilji það á sama hátt og við og náttúrlega enn frekar því að Rússland er þeirra nágrannaríki, hvað það er mikilvægt að leysa þessi mál milli þjóðanna.