Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:16:47 (5323)

1998-03-31 16:16:47# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MF
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirferð hans áðan. Ýmislegt kom fram í máli hans sem ég get verið hjartanlega sammála, sérstaklega hvað varðar orð hans um mannréttindamál og stefnu í þeim.

Í upphafi ræðu sinnar gat ráðherra þess að fyrir tæpu ári var skipuð nefnd sem gera átti athugun á því hvernig efla mætti utanríkisþjónustuna og gera tillögur um hvernig hún gæti best gegnt hlutverki sínu í breyttu umhverfi. Þessi nefndarskipun utanríkisráðherra var að mínu mati mjög jákvæð, ekki síst vegna þess að við skipan í nefndina var þess gætt að sem flest sjónarmið kæmu fram varðandi framtíðarskipan utanríkisþjónustunnar. Meðal annarra áttu þar sæti fulltrúar atvinnulífsins og stjórnarandstöðu.

Hæstv. ráðherra gat þess í upphafi ræðu sinnar að nefndin hefði skilað áliti sem boðaði kaflaskil í störfum utanríkisþjónustunnar. Þessari niðurstöðu ráðherrans er ég ekki sammála. Ég tel eins og fram kemur í bókun minni með skýrslunni að skýrslan sé allgott yfirlit yfir stöðu mála eins og hún er nú og aðeins hafi verið gerð tilraun til að kortleggja á hvaða sviðum þurfi að bæta þjónustuna. Það er nauðsynlegt að styrkja og breyta starfsemi utanríkisþjónustunnar í takt við það breytta alþjóðlega umhverfi sem við búum við. Jafnframt má segja að sveigjanleiki þjónustunnar þurfi að vera meiri en nú er, þar sem breytingar eru mjög örar og hæfileiki okkar til þess að aðlagast þeim breytingum þarf að vera til staðar.

Sá tími þar sem samskipti okkar við aðrar þjóðir voru í tiltölulega föstum skorðum og litlar breytingar áttu sér stað milli ára er liðinn. Dæmi eru um að þróun í fjarlægum ríkjum hafi á ákveðnum sviðum meiri áhrif hér á landi en breytingar hjá ríkjum sem við höfum hingað til átt mest samskipti við. Þetta breytta umhverfi býður upp á nær endalaus tækifæri fyrir smáþjóð eins og okkar ef rétt er haldið á málum. Það er því mikil nauðsyn að utanríkisþjónustan sé löguð að þessu breytta umhverfi. Það á ekki aðeins við um störf utanríkisráðuneytisins heldur starfsemi allra ráðuneyta, stofnana þeirra og jafnvel starfsemi sjálfs Alþingis. Þetta breytta umhverfi kallar á ný viðhorf og önnur vinnubrögð af hálfu allra þessara aðila. Ég tel að við eigum mikið starf óunnið og í raun sé skýrslan sem starfsnefnd hæstv. utanrrh. skilaði aðeins upphafið að enn meiri vinnu sem nauðsynlegt er að fara í. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta ekki staðar numið hér.

Í bókun þeirri sem ég lagði fram segir, með leyfi forseta:

,,Skýrsla nefndarinnar er yfirlit yfir stöðuna eins og hún er nú og tilraun er gerð til að kortleggja á hvaða sviðum þurfi á komandi árum að bæta þjónustu utanríkisráðuneytisins.

Hér er hins vegar aðeins um ákveðna grunnvinnu að ræða; gera þarf mun víðtækari úttekt á allri þátttöku íslenskra aðila í alþjóðasamstarfi. Tíminn sem nefndin hafði til að starfa var of naumur og umfjöllun og tillögur því of þröngar. Miðast þær nær eingöngu við starfsemi utanríkisráðuneytisins.

Nauðsynlegt er að halda áfram þessari vinnu sem hér er hafin, kortleggja alla opinbera og hálfopinbera þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi t.d. störf annarra ráðuneyta, Alþingis, opinberra stofnana, hagsmunasamtaka o.s.frv. Þetta þarf að gera með það að markmiði að samhæfa þátttöku og nýta takmarkaða fjármuni á markvissan hátt.

Skoða þarf hvort ekki er rétt að gera meiri kröfur um sérþekkingu og sérhæfingu á mismunandi sviðum í störfum sendiráða.

Setja þarf skýrari reglur um fagleg réttindi og skyldur starfsmanna utanríkisþjónustunnar meðal annars þegar teknar eru ákvarðanir um ráðningu og flutning starfsmanna.

Það er nauðsyn ef fámenn þjóð með takmarkaða fjármuni ætlar að gera sig gildandi í samstarfi þjóðanna að stefna og störf utanríkisþjónustunnar sé markviss en þó í stöðugri skoðun með það að markmiði að við forgangsröðun verkefna sé tekið fullt tillit til hagsmuna þjóðarinnar í síbreytilegu alþjóðlegu umhverfi. Því þarf að skoða hvort ekki má draga úr kostnaði við þjónustuna og vægi einstakra sendiráða til þess að mæta kostnaði vegna nýrra sendiráða og nefnda sem leggja ber meiri áherslu á vegna breyttra aðstæðna.

Breytt alþjóðlegt umhverfi kallar á víðtækar breytingar í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Það þarf að leggja í það mun meiri vinnu en þessi nefnd gat innt af hendi á þeim tíma sem hún var að störfum að skilgreina markmið og gera tillögur að breyttu hlutverki og/eða skipulagi ýmissa sendiráða í takt við breyttar aðstæður.

Vinna nefndarinnar og skýrslan sjálf er því aðeins góður grunnur að áframhaldandi starfi sem nauðsynlegt er að hefja nú þegar.``

Í þessari bókun er gerð tilraun til að nefna þá þætti sem ég tel að fara þyrfti betur yfir. Ég tek þó fram að ég tel starf nefndarinnar góðan grunn að byggja á. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem sæti áttu í nefndinni fyrir samstarfið, sérstaklega starfsmönnum utanríkisráðuneytisins. Ég gat því miður ekki setið alla fundina en fékk allar þær upplýsingar og gögn sem lögð voru fram og yfirferð yfir umræðuna þegar ég var ekki viðstödd.

Sá tími sem nefndin hafði var þó að mínu mati of naumur til að sinna öllum þeim markmiðum sem sett voru í upphafi vinnunnar. Við hefðum þurft í raun og veru eitt ár í viðbót til að ljúka vinnunni.

Það þarf meiri tíma til að kortleggja alla opinbera og hálfopinbera þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi til að við séum á hverjum tíma tilbúin til að færa til áherslur okkar eftir því hvar hagsmunir þjóðarinnar liggja hverju sinni. Þannig mætti nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum úr að spila miklu betur en ella.

Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að þær tillögur sem eru gerðar í skýrslunni styrki hagsmuni okkar, þ.e. opnun nýrra sendiráða í Japan og Kanada og stofnun fastanefndar hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Ef þessar tillögur verða að veruleika kosta þær talsverða fjármuni eða u.þ.b. 300 millj. kr. Þar væri um að ræða fjórðungsaukningu á fjárveitingum til utanríkisþjónustunnar frá því sem nú er. Þær tölur eru þó miðaðar við að ekki verði um verulegar breytingar að ræða að öðru leyti. Ég er sammála tillögum um stofnun nýrra sendiráða sem settar eru fram í skýrslunni. En ég tel jafnframt að það hefði mátt skoða og meta af alvöru hvort ekki mætti draga úr starfsemi annarra sendiráða og jafnvel leggja niður en stofna skrifstofur fastanefnda í þeirra stað.

Í störfum okkar fengum við skýrslur um starfsemi allra sendiráða. Hins vegar var ekki gerð tilraun til að leggja á það mat hvort dregið hefði úr mikilvægi starfsemi þeirra frá því að þau voru stofnuð og hvort hlutverk þeirra væri jafnmikilvægt og áður miðað við þær breytingar sem átt hafa sér stað á alþjóðavettvangi. Þessi vinna er öll eftir.

Ég tel nauðsynlegt að gera kröfu um sérhæfingu sendiráða langt umfram það sem nú er gert. Það þýðir að gera þarf meiri kröfur til sérmenntunar og sérþekkingar starfsmanna á ákveðnum sviðum eftir því hvar áherslur okkar liggja hverju sinni. Sveigjanleiki þarf að vera meiri í utanríkisþjónustunni þannig að ákveðin sendiráð sjái í raun alfarið um afmarkaða málaflokka burt séð frá staðsetningu þeirra. Það er mitt mat að ef þannig er staðið að málum yrði allt starf utanríkisþjónustunnar markvissara og fjármunir mundu nýtast betur. Stofnun nýrra sendiráða eða skrifstofu fastanefnda skilar aðeins árangri að vissu marki. Nauðsynlegt er að endurmeta hlutverk og starfsemi þeirra sem fyrir eru í takt við breyttar aðstæður. Það verk er algerlega óunnið. En ég hlýt miðað við orð hæstv. ráðherra áðan, að meta það svo að vilji sé fyrir hendi að fara í þessa vinnu.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að geta þess, að ég tel einnig nauðsynlegt að Alþingi fari ofan í saumana á sinni starfsemi á alþjóðavettvangi, þannig að vægi þeirrar starfsemi verði í takt við breyttar aðstæður og nýja tíma.

Í þeim kafla ræðu sinnar sem fjallaði um öryggis- og varnarmál sagði hæstv. utanrrh. að varanlegt öryggi í Evrópu yrði ekki tryggt án þátttöku Rússlands. Ég tek heils hugar undir þessa skoðun. Nauðsynlegt er að hún verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir um fjölgun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Ekki er síður nauðsynlegt að hafa þessa staðreynd í huga þegar fjallað er um og teknar eru ákvarðanir um með hvaða hætti friður og öryggi yrðu best tryggð í Evrópu. Verður það gert með því að viðhalda þeim anga kalda stríðsins sem NATO er? Eða er hægt að skapa samstöðu um aðrar leiðir sem vænlegri eru til árangurs? Til dæmis með því að efla Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í öryggis- og friðarmálum álfunnar?

Uppbygging og skipulag NATO tilheyrir fortíðinni ef miðað er við þær breyttu aðstæður sem við búum við. NATO er hernaðarbandalag sem enn byggir að stórum hluta á forsendum sem ekki eru lengur til. Framlenging lífdaga bandalagsins er tilraun þeirra sem hagsmuna eiga að gæta til að viðhalda sjónarmiðum sem ekki eru lengur til staðar nema hjá örfáum aðilum.

NATO áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum af fyrra bragði þótt búið sé að úrskurða hjá Alþjóðadómstólnum að beiting kjarnorkuvopna sé alltaf ólögleg. Til að viðhalda bandalaginu með nær óbreyttu skipulagi og til að reyna að koma í veg fyrir eðlilega umræðu um hvort hlutverki þess sé lokið, eru búnir til jákvæðir hliðarangar í starfsemina, eins og Samstarf í þágu friðar. Þess í stað ætti að stefna að því að leggja bandalagið niður og byggja upp nýtt kerfi í þágu öryggis og friðar. Kerfi sem tæki til allrar Evrópu í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar.

Alþýðubandalagið hefur lagt áherslu á eflingu ÖSE. Að NATO tilheyri öðrum tímum, tímum ógnarjafnvægis og tvískiptingar Evrópu. Við leggjum áherslu á að ný hugsun sé nauðsynleg í þessum málum. Hugsun sem byggi fyrst og fremst á friði og tryggingu mannréttinda í álfunni. Stefnu sem byggir á þeirri staðreynd að forsendur kalda stríðsins eru ekki lengur til staðar og óþarfi sé og jafnvel hættulegt að viðhalda kerfi sem byggir á úreltum forsendum.

Á Alþingi liggur fyrir tillaga þess efnis að staðfesta þrjá samninga um aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að NATO. Ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að þessi fyrirhugaða stækkun væri í samræmi við þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað. Kalda stríðinu væri lokið. Stefnan væri óskipt álfa með öryggi allra þjóða að leiðarljósi. Stækkun Atlantshafsbandalagsins undirstrikaði nýjan hugsunarhátt. Eins og ég sagði áðan er ég ósammála því mati ráðherra að stækkunin undirstriki nýjan hugsunarhátt hvað varðar friðar- og öryggismál í Evrópu.

Við fyrstu umræðu um tillöguna kom berlega í ljós að hér á Alþingi eru menn alls ekki tilbúnir til að fara í umræðu um friðar- og öryggismál í Evrópu á málefnalegan hátt út frá nýrri hugsun og breyttum tímum. Umræðan er enn menguð af tilvist kalda stríðsins og verður líklega þannig á meðan einhverjir þeirra sem ólust upp í því umhverfi og festust í hugsunarhætti þess láta gamlar klisjur og ímyndaða andstæðinga ráða ferðinni í málflutningi sínum, eins og mér finnst stundum örla á hjá ýmsum hv. stjórnarliðum.

Ég get aftur á móti vel skilið í ljósi sögunnar að meirihlutastuðningur sé meðal þeirra þjóða sem hlut eiga að máli við inngöngu í NATO. Ástæðurnar fyrir þeim stuðningi eru ef til vill ekki síður sálrænar en hernaðar- og efnahagslegar. Það þýðir þó ekki að gera eigi lítið úr þeim ástæðum. Þvert á móti er eðlilegt að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða í þessum efnum sem öðrum.

Ákvarðanir þessara þjóða eru þó ekki síður skiljanlegar í ljósi þess að ekki er boðið upp á neinn annan kost. Það er í raun ekki um neitt val að ræða fyrir þessar þjóðir. Þótt umræðan um nýtt kerfi í þágu öryggis- og friðar í Evrópu sé töluverð meðal annarra þjóðþinga og reyndar nokkuð áberandi einmitt í tengslum við þessa fyrirhuguðu stækkun NATO, þá er hún enn stutt á veg komin og ekki liggja fyrir neinar áþreifanlegar tillögur um annað kerfi sem byggi á öðrum grunni en NATO. Þess vegna er eðlilegt í ljósi sögunnar og stöðunnar í dag, að þessar þjóðir sækist eftir aðild að bandalaginu. Málefnaleg umræða er þó farin vel af stað í þjóðþingum annars staðar. En hér á landi láta menn sig þessa umræðu litlu varða enn sem komið er.

Það er full ástæða til þess, burt séð frá þeirri þingsályktun sem liggur fyrir til afgreiðslu um fjölgun aðildarþjóða NATO, að taka stefnu Íslands í öryggis- og friðarmálum til málefnalegrar umræðu á Alþingi og fara yfir þær tillögur sem fram hafa komið í þeim efnum. Ísland, þó fámennt sé, getur haft áhrif á þróun þessara mála á alþjóðavettvangi ekki síður en á mörgum öðrum sviðum heimsmála.

Evrópumálin og staða Íslands í samskiptum okkar við Evrópusambandið hljóta stöðugt að vera á dagskrá í íslenskum stjórnmálum. Hvað sem mönnum kann að hafa fundist um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) á sínum tíma er samningurinn staðreynd sem þjóðin býr við. Samningurinn leggur Alþingi það á herðar að laga löggjöf þjóðarinnar að lögum og tilskipunum Evrópusambandsins án þess að Íslendingar geti haft mikil áhrif á löggjöf. Þetta er stærsti og augljósasti gallinn við EES-samninginn.

Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að löggjafarstarfið fer nú að miklu leyti fram í Brussel og að ýmsar þær tilskipanir sem þaðan koma eru ekki teknar til umræðu eða skoðunar hér á Alþingi jafnvel þó að um veigamiklar breytingar sé að ræða. Ég tel nauðsynlegt að taka upp þá vinnureglu að allar samþykktir sem hér taka gildi verði kynntar og í það minnsta ræddar í nefndum þingsins.

[16:30]

Einnig er tímabært að meta heildaráhrif samningsins og stöðu okkar innan hans og gagnvart Evrópusambandinu. Getum við í samstarfi við aðrar þjóðir sem eru utan Evrópusambandsins knúið fram einhverjar þær breytingar sem tryggðu aukin áhrif okkar í ákvarðanatöku? Hver væri staða okkar innan samningsins? Er hagsmunum okkar betur borgið utan hans? Er hægt að styrkja betur stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu? Hvaða leiðir eru þar færar?

Sem stendur erum við aðeins að hluta til óbundin af lagasetningu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og náttúruvernd. Staða og möguleikar landsins meðal þjóðanna, þá ekki síst Evrópuþjóðanna, er stórmál sem mikilvægt er að ræða af hreinskilni með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ég dreg ekki í efa að aðild okkar að EES-samningnum hefur að mörgu leyti verið til hagsbóta fyrir íslenskt þjóðfélag, ekki aðeins fyrir útflutningsatvinnuvegina heldur einnig fyrir almenning í landinu, launafólk og neytendur. Sem dæmi má nefna lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, margvísleg lög á sviði neytendamála, mengunareftirlits, matvælaeftirlits, öryggis- og hollustuhátta á vinnustöðum og vinnutíma.

Ávinningurinn hefur þó fyrst og fremst orðið vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa um langan tíma dregið lappirnar á þessum sviðum. Þær þjóðir sem við störfum með innan samningsins voru mun lengra komnar og við njótum þess. Íslensk stjórnvöld hafa þó langt í frá staðið sig í að framkvæma margt af því jákvæða sem samningurinn getur haft í för með sér. Á ráðstefnu á vegum Alþýðubandalagsins í vetur kom m.a. fram að sérfræðingar telja að stjórnvöld megi standa sig miklu betur við framkvæmd samningsins. Sérstaklega hvað varðar vinnumarkaðsmál.

Gallarnir við EES-samninginn eru einnig fjölmargir. Þeir varða sérstaklega getu Íslendinga til að hafa áhrif á þá löggjöf sem gildir á svæðinu eins og ég hef áður sagt. Sá galli er svo stór að á honum verður að finna lausn sem tryggir eðlilega aðkomu Íslendinga að ákvörðunum sem beinlínis snerta innanríkismál og stefnumörkun þjóðarinnar í utanríkismálum. Við verðum að meta þá stöðu sem upp er komin, kanna valkostina og taka ákvörðun í framhaldi af því. Þetta mál er á dagskrá og hefði mátt fá betri yfirferð af hálfu hæstv. utanrrh. hér áðan. Þeir sem ekki ræða málið til hlítar, sætta sig við þá metnaðarlausu stöðu sem Ísland er í gagnvart Evrópusambandinu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Þá saknaði ég þess, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. gerði enga grein fyrir undirbúningi eða aðild okkar að svokölluðu MAI-samkomulagi sem farið hefur verið yfir á erlendum vettvangi. Um það hafa birst blaðagreinar og töluverð umræða er þegar hafin meðal annarra Evrópuþjóða um það samkomulag.

Ég hefði viljað koma inn á ýmis fleiri atriði en tímans vegna verður það að bíða betri tíma. Í dag eru á dagskrá fleiri tillögur sem snerta beint þau atriði sem komið var inn á í ræðu hæstv. ráðherra.