Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:35:23 (5325)

1998-03-31 16:35:23# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það voru athyglisverð ummæli sem féllu hjá hv. síðasta ræðumanni að því er varðar Atlantshafsbandalagið og hæstv. utanrrh. drap á í andsvari. Það verður fróðlegt að sjá hvernig alþýðubandalagsmenn ráðstafa atkvæðum sínum þegar þetta mál kemur hér til afgreiðslu. Ég bíð spenntur eftir því. Annars vegar er talað um að NATO sé úrelt fyrirbæri en hins vegar er talað um að leyfa eigi ríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu, sem vilja ganga í samtökin, að njóta sjálfsákvörðunarréttar síns og ganga í þau.

Ég minni á að í þýska þinginu var í síðustu viku atkvæðagreiðsla um þetta mál. Þar voru engir flokkar sem lögðust gegn þessu máli í heild sinni nema gömlu kommúnistarnir sem sitja þar á þingi og koma frá austurhluta landsins, þýska alþýðulýðveldinu fyrrverandi. Meira að segja Græningjarnir, sem ætla sér stóran hlut í næstu ríkisstjórn Þýskalands, ætla sér utanríkisráðherraembættið ef þeir vinna sigur ásamt jafnaðarmönnum, ýmist studdu stækkun NATO ellegar sátu hjá. Það eru vissulega breyttir tímar þó að Alþb. haldi sig því miður við fortíðina í þessum efnum eins og reyndar í ýmsu öðru.

Að því er varðar mál utanrrh. að öðru leyti þá sýnir hin yfirgripsmikla ræða hans auðvitað hversu margþætt verkefni utanríkisþjónustunnar eru og hversu hið tiltölulega fámenna starfslið þjónustunnar þarf að geta sinnt umfangsmiklum, síbreytilegum og flóknum viðfangsefnum frá degi til dags. Ræðan sýnir líka að enda þótt hagsmunagæsla og fyrirsvar fyrir Íslands hönd sé höfuðverkefni þjónustunnar, eins og verið hefur, þá taka almenn alþjóðamál æ meiri tíma og fyrirhöfn af ráðherrans hálfu og starfsmanna ráðuneytisins. Enda sjáum við hvað verið hefur fyrirferðarmest í umræðu um utanríkismál hér á Alþingi í vetur. Það eru ekki beinlínis okkar eigin hagsmunamál heldur valdabrölt Saddams Husseins sem hér hefur ítrekað verið rætt. Við sjáum að heimsmyndin er gerbreytt. Alþjóðasamfélagið stendur ítrekað frammi fyrir því hvernig eigi að meðhöndla herra eins og Saddam Hussein, Milosevic í Júgóslavíu og aðra einræðisherra sem neita að fara að leikreglum hins alþjóðlega samfélags. Og menn standa frammi fyrir því á alþjóðlegum vettvangi hvernig eigi að bregðast við slíku og það gera Íslendingar eins og aðrar þjóðir. Þess vegna verða mál sem þessi æ fyrirferðarmeiri í verkefnum utanrrn. og sömuleiðis í umræðum um þessi mál á Alþingi.

Á þessum fundi í dag eru fleiri mál en þessi skýrsla. Þau mál sýna að vel og ötullega er unnið að íslenskri hagsmunagæslu í utanrrn. Þau eru til marks um að ýmis ágreiningur við nágrannaþjóðir okkar hefur verið leystur, t.d. að því er varðar lögsögumörk milli Íslands og Grænlands í kringum Kolbeinsey, varðandi margvísleg samskipti við Grænland og Færeyjar, norsk-íslenska síldarstofninn og ýmislegt fleiri. Og auðvitað, eins og ráðherrann gat um í ræðu sinni, verður áfram unnið að því að leysa úr hagsmunaárekstrum og ágreiningi við okkar nágrannaþjóðir. Vonandi gefst gott tækifæri til þess að ræða þau við utanrrh. Noregs sem hingað er væntanlegur seinna í vikunni. Þá gefst tækifæri til þess að fara á ný yfir deilumál sem uppi eru. Ég er ekki að segja að menn geti vænst þess að þau leysist í slíkri heimsókn en allar viðræður eru að sjálfsögðu einungis til góðs.

Fyrr í þessum mánuði átti utanrmn. þess kost að minnast upphafs síns með því að haldinn var eittþúsundasti fundur nefndarinnar. Í næsta mánuði, aprílmánuði, verða sjötíu ár liðin frá því að hún hóf formlega störf hér í þinginu. Við sem nú sitjum í nefndinni tókum ákvörðun um að opna aðgang að fundargerðum nefndarinnar. Þar á að miða við þær reglur sem gilda í upplýsingalögum um almenn, opinber plögg, þ.e. að venjulegar fundargerðir séu almenningi opnar eftir 30 ár en eftir 80 ár sé um að ræða einkamálefni. Af þessu tilefni hefur ýmsum gefist tækifæri til þess að glugga eilítið í hinar eldri fundargerðir. Þar má vissulega sjá að sviðið var annað þegar menn fengust við utanríkismál Íslands, t.d. frá árunum fyrir síðari heimsstyrjöld eða á meðan á henni stóð. Við sjáum hversu gjörbreytt aðstaðan er fyrir þá sem núna fást við þessi mál vegna þeirrar gríðarlegu alþjóðavæðingar sem orðið hefur og endurspeglast í ræðu ráðherrans.

Menn geta ekki lengur sagt að utanríkismál séu bara varnarmál eða utanríkismál eða bara fríverslunarsamningar. Eins og fram kemur í ráðherraræðunni eru utanríkismál í dag t.d. heilmikil efnafræði. Menn þurfa að kunna skil ýmsu til að geta fjallað um málefni eins og þau sem upp komu á Kyoto-fundinum og í framhaldi af honum. Heilmikil hagfræði og alþjóðleg peningamálafræði felst í því er varðar EMU-samstarfið sem menn hafa hér gert að umtalsefni. Allt eru þetta hlutir sem menn verða að gefa gaum í okkar litlu utanríkisþjónustu. Starfsmenn þar verða að vera reiðubúnir að beina athygli sinni að mismunandi málum, einu í dag, öðru á morgun, vegna þess að við höfum ekki mannafla til þess að koma upp þeirri sérhæfingu og sérþekkingu sem önnur utanríkisráðuneyti geta leyft sér. Þetta þekkjum við annars staðar úr stjórnkerfinu. Þetta þekkjum við mætavel hér á Alþingi þar sem menn þurfa að starfa í mörgum þingnefndum og geta ekki sérhæft sig eingöngu á einu sviði.

Ég vil víkja eilítið að því nefndarstarfi sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Ég fagna að því skuli lokið með áliti sem ég tel býsna gott, þar með er þó heildarskoðun á verkefnum og störfum utanríkisþjónustunnar ekki endanlega lokið. En þarna er hins vegar komin viss leiðsögn fyrir nokkur næstu ár sem ég vænti að okkur muni auðnast að hrinda í framkvæmd í sameiningu, ríkisstjórninni og Alþingi, framkvæmdarvaldinu annars vegar og svo löggjafar- og fjárveitingavaldinu hins vegar. Um er að ræða ýmsar hugmyndir sem vert er að gefa sérstakan gaum. Að hluta er um að ræða hugmyndir sem munu kosta aukið fjármagn en það verða menn að horfast í augu við í ljósi þeirra breyttu viðhorfa sem uppi eru í þessum efnum. Jafnframt eru uppi hugmyndir sem ættu að geta horft til sparnaðar og aukinnar festu, t.d. í fjármálastjórn ráðuneytisins, sem auðvitað er af hinu góða. Meðal annars er lagt til að ráðinn verði sérstakur fjármálastjóri í utanrrn. sem ekki hafi flutningsskyldu eins og venjulegir diplómatar í ráðuneytinu hafa.

Ég vil vekja máls á nokkrum atriðum til viðbótar á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða. Ég vil eindregið taka undir það sem ráðherrann sagði að því er varðar Kyoto-málefnin og fyrirhugaðan samning um það efni. Það er mjög brýnt fyrir okkur Íslendinga að láta ekki króa okkur af í þeim málum, að við skrifum ekki undir samning eingöngu til þess að vera með, og hefta þar með möguleika okkar á eðlilegri efnahagsþróun, eðlilegri nýtingu fallvatna og auðlinda hér á landi. Sú hætta er vissulega fyrir hendi ef þau öfl sem mestu virðast ráða í þessum efnum verða ofan á. Auðvitað er alveg fráleitt að Íslendingar þurfi að gjalda sinnar sérstöðu með því að komið verði í veg fyrir frekari uppbyggingu á orkufrekum iðnaði eða annarri slíkri stóriðju aðeins vegna þess að það er lítið af henni fyrir í landinu, vegna þess að landsmenn eru fáir og hafa ekki mengað mikið til þessa.

[16:45]

Það er auðvitað ekki hægt að láta Evrópusambandið komast upp með að segja að ekki sé hægt að taka tillit til Íslands eins og umhverfisstjóri þess hefur sagt opinberlega og komið hefur fram hér í fjölmiðlum og að allir verði að leggja sitt af mörkum, þegar Evrópusambandið sjálft hefur fullt svigrúm til að versla innbyrðis, innan sinna vébanda, milli landa sem menga lítið og hinna sem menga mikið þar sem um er að ræða stórfellda umframmengun af einni verksmiðju miðað við það sem væri á Íslandi vegna þess hvers konar orkugjafi er í spilinu og hvers konar orkugjafi er notaður, hvort um er að ræða endurnýjanlega orku eða ekki. Þetta veit ég að þingmenn þekkja mjög vel. En það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að þótt menn vilji vera með í alþjóðlegu samstarfi um þetta þá megum við ekki fórna grundvallarhagsmunum okkar sjálfra í þessu efni. Íslendingar eru ekki og hafa aldrei verið neinir sérstakir umhverfissóðar og það viljum við ekki vera og viljum ekki fá á okkur slíkan stimpil. Ýmsar aðrar þjóðir hér í nágrenninu sem ástæðulaust er að nefna mætti hæglega kalla umhverfissóða en við þurfum að halda fast og þétt á spöðunum í þessu efni og gæta þess vel og vandlega að hagsmunir okkar verði ekki fyrir borð bornir. Þó svo að prósentutölurnar fyrir okkur séu kannski hærri en annarra í aukningu á losun úrgangsefna, þá eru þær í raunverulegu magni margfalt minni en hjá öðrum löndum og aðrar þjóðir verða bara að taka tillit til þess.

Ég vildi einnig nefna í nokkrum orðum hið fyrirhugaða peningamálasamstarf í Evrópu sem nú er að verða að veruleika um næstu áramót. Þetta mun hafa borið á góma fyrr í umræðunni og full ástæða er til að menn ræði þetta á Alþingi, þ.e. efnahags- og peningamálasamstarf Evrópuþjóðanna og gjaldeyrissamstarfið, peningamálaheildina sem verið er að reyna að byggja upp. Það er rétt sem hér hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur sett í gang ákveðna vinnu í þessu efni til að greina hver áhrifin verða fyrir Ísland og íslenskt efnahagslíf og hvernig hægt sé að bregðast við þessu. Vissulega þurfum við að standa klár á því hvernig við eigum að bregðast við og það koma ýmsar leiðir til greina. Nema auðvitað sú að ganga inn í samstarfið. Hún kemur ekki til greina vegna þess að hún stendur okkur ekki opin, vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu og reyndar er það svo að ýmsar þjóðir sem þar eru aðilar hafa kosið að standa utan við þetta. Ég er hins vegar sannfærður um að þetta samstarf, ef það gengur upp tæknilega séð, muni geta fært þeim sem að því standa heilmikinn efnahagslegan ávinning því það mun hafa í för með sér mikinn gengisstöðugleika og mun lágmarka áhættu þá sem fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum þurfa að taka sem er auðvitað heilmikil og lágmarka ýmsan kostnað sem aðilar í viðskiptalífinu þurfa ella að taka á sig. Þetta skiptir mjög miklu máli í viðskiptum og þess vegna skiptir þetta mjög miklu máli fyrir þjóðirnar í heild og þjóðarbúskap þessara landa. Við Íslendingar eigum meira undir alþjóðaviðskiptum en flestir aðrir þannig að það er eðlilegt að við hugum að þessu, ekki síst vegna þess að Evrópubandalagið er okkar stærsta viðskiptasvæði.

Við getum brugðist við þessu t.d. með því að festa krónuna einhliða gagnvart þessari gjaldeyriseiningu ef okkur býður svo við að horfa en það eru líka til fleiri leiðir sem nú er verið að greina, eins og ég segi, á vegum ríkisstjórnarinnar og rétt er síðan að leggja ákveðið mat á. En við skulum átta okkur á því að eftir að allir gjaldeyrisflutningar til og frá landinu hafa verið gefnir frjálsir sem var sjálfsögð, eðlileg og rétt ákvörðun á sínum tíma, þá höfum við auðvitað skapað vissa áhættu á því að menn taki upp á því að spekúlera gegn krónunni okkar, taki upp á því að veðja á ákveðnar hreyfingar í gengi hennar upp eða niður eins og gerst hefur annars staðar og það getur vissulega fært okkur vissa hættu og skapað okkur erfiðleika ef við búum okkur ekki undir slíka hluti fyrir fram.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi nefna, virðulegi forseti. Í öðru lagi vildi ég bara að endingu ítreka að ég tel að vel sé haldið á málum í utanrrn. Það er gert fagmannlega og þar er traust stjórn á þeim efnum eins og vera ber og sem betur fer er öflugur og víðtækur meirihlutastuðningur á Alþingi við öll helstu mál á sviði utanríkismála. Þannig á það að vera. Þannig er það hjá flestum tiltölulega siðuðum ríkjum, þrátt fyrir hjáróma raddir, m.a. á Alþingi um einstök mál.