Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:51:04 (5326)

1998-03-31 16:51:04# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:51]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla hæstv. utanrrh. er ítarleg þó ekki sé margt þar sem kemur á óvart. Fremur eru það vonbrigði að ekki er nógu skýrt hvað verður í nokkrum lykilmálum, t.d. varðandi Schengen og fleiri atriði mætti nefna. Skýrslan sýnir mjög vel að hæstv. utanrrh. hefur í mjög mörgu að snúast og Íslendingar virðast núna vera víða í mikilvægri stöðu í sínum alþjóðasamskiptum.

Utanríkismálatengsl Íslendinga verða að mínu mati æ mikilvægari með vaxandi áhrifum frá EES á okkar löggjöf og með þeirri breytingu sem orðin er í þá veru að svo virðist vera að verslun, viðskipti, verkalýðsbarátta, menningartengsl, umhverfismál eða bara stjórnmálin yfirleitt séu að verða æ alþjóðlegri.

Þó eru nokkur atriði í þessari skýrslu sem ég vil gera að umræðuefni og spyrja hæstv. utanrrh. um. Ég fagna því að hann hefur svarað hér jafnóðum því ég held það komi yfirleitt mjög mikið af spurningum í þessari umræðu og ég fagna því hvað hæstv. ráðherra hefur gert sér far um að svara eins og kostur er jafnóðum.

Ég vil vekja athygli á því að stofna á ný sendiráð í Japan, Kanada og fastanefnd hjá ÖSE í Vínarborg og kostnaðaraukinn er sagður um 300 millj. kr. eða um fjórðungsaukningu er að ræða í framlögum til utanríkisþjónustunnar. Þá er bent á að kostnaðurinn verði samt ekki nema 2% af heildarútgjöldum þjóðarinnar. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hlutfall sé lægra hér en annars staðar. Er þetta eitthvað sem við megum búast við að fari áfram upp á við?

Um varnarsamstarfið vil ég spyrja hvernig gangi að endurskoða varnarstefnu Íslands til lengri tíma og hvort ríkisstjórnin sjái fyrir sér að herinn hverfi af Miðnesheiði í fyrirsjáanlegri framtíð eins og Bandaríkjamenn hafa gefið til kynna að þeir óski eftir.

Ég sé fyrir mér að slíkt geti vel gerst þrátt fyrir aðild okkar að NATO en að sjálfsögðu þyrfti slíkt að gerast þannig að góður aðdragandi verði að því með viðeigandi ráðstöfunum, bæði varnarlega og varðandi atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. En ég tel mjög mikilvægt eins og komið hefur fram að þörf er á að ræða þessi mál algjörlega án allra hagsmuna að öðru leyti, þ.e. bara að skoða okkar öryggis- og varnarhagsmuni.

Þá vil ég spyrja um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Það er einkum tvennt þar sem vekur áhuga minn. Það er í fyrsta lagi það sem hér hefur nú komið fram og margir hafa spurt um, þ.e. um úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalagsins á íslenskt atvinnulíf. Hvenær, nákvæmlega má búast við niðurstöðum úr þeirri úttekt? Býst ráðherrann við að niðurstaðan geti haft þau áhrif að til endurskoðunar komi á því hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Ég átta mig ekki alveg á tilgangi þessarar úttektar.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvenær ríkisstjórnin gerir Alþingi grein fyrir því hvernig hún hyggst taka þátt í Schengen á þjóðréttarlegum grundvelli. Fyrirhugar ríkisstjórnin að gera tillögu um breytingar á stjórnarskrá vegna áhrifa yfirþjóðlegra stofnana eða er það mat hæstv. utanrrh. að þær leiðir sem verið er að skoða núna geri slíkt ekki nauðsynlegt? Þetta er búið að vera í umræðunni ítarlega, m.a. í Morgunblaðinu og fram hafa komið álit lögfræðinga en mér er ekki nákvæmlega kunnugt um í hvaða farvegi málið er hér á landi nú, hvort það er bara í vinnslu innan ríkisstjórnarinnar eða hvort við erum í samningum í tengslum við Noreg og málið þar í athugun núna.

Varðandi Sameinuðu þjóðirnar vil ég láta í ljós að ég tel mjög ánægjulegt að Ísland hefur tekið sæti í efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, ECOSOC, þar sem nú er mikið fjallað um heilbrigðis- og menntamál og ekki síst um varnir gegn vímuefnaneyslu. Ég fagna fyrirhuguðu aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í sumar um fíkniefnavarnir og velti fyrir mér hvernig þátttöku Íslands verði háttað í því þingi, hvort ríkisstjórnin ráði því eða hvort það verður ákvörðun stjórnar Alþingis.

Fyrst ég er að tala um Sameinuðu þjóðirnar vil ég spyrja aftur --- ég spurði um þetta einnig í síðustu utanríkismálaumræðu --- hvort til standi að auka mannafla Íslendinga hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þar sem alveg er ljóst, að mínu mati, að umræðum í þriðju nefnd þingsins sem fjallar um mannréttindi er ekki fylgt nægilega vel eftir af hálfu Íslands. Þar er m.a. fjallað um eftirfylgni vegna kvennaráðstefnunnar í Peking. Ég tel við höfum ekki fylgst nægilega vel með þessu vegna manneklu í New York. Eftirfylgnin, þ.e. hvernig fylgt er eftir samþykktum Peking-ráðstefnunnar, virðist vera mjög markviss af hálfu hinna Norðurlandanna, ekki síst í Noregi þar sem kvennasamtökunum er haldið mjög vel við efnið. Þau eru boðuð reglulega til fundar í utanrrn. og látin fylgjast nákvæmlega með því hvað verið er að gera á vegum ráðuneytisins í New York. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að við Íslendingar fylgjum eftir nú þegar samþykktum Peking-ráðstefnunnar nægilega markvisst eða hvort hann fyrirhugar nánari eftirfylgni og e.t.v. upplýsingafundi með kvennahreyfingunni hér eins og tíðkast í Noregi.

Í kaflanum um Ár hafsins í ræðu hæstv. ráðherra er ítrekuð sú stefna stjórnvalda að hefja hvalveiðar hér við land þótt síðar verði og þeirri spurningu er velt upp hvort endurskoða beri afstöðu Íslands til aðildar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki tímabært að gefa skýrari skilaboð að þessu leyti erlendis þar sem það er alveg ljóst að þessi stefna háir okkur, ekki bara í okkar viðskiptum heldur einnig í okkar menningarsamstarfi við Bandaríkin nú þegar. Það varð ég persónulega vör við í nýlegum samræðum mínum við bandaríska aðila vegna væntanlegra hátíðahalda í Bandaríkjunum í tilefni ársins 2000, þ.e. fólk talar um að stefna okkar í hvalamálum geri menningarsamskipti erfið.

[17:00]

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að Ísland eigi að ganga sem fyrst í Alþjóðahvalveiðiráðið og fylgja síðan alþjóðlega viðurkenndum stefnum um hvalveiðar eftir það. Annað er óraunsætt og sú yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að ætla bráðum að hefja hvalveiðar er að mínu mati fyrst og fremst til þess að róa fólk innan lands en er í raun og veru blekking þegar litið er til stefnu á alþjóðavettvangi.

Herra forseti. Í ræðu hæstv. ráðherra er kafli um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina um losunarmörk gróðurhúsalofttegunda sem ég ætla ekki að fara í smáatriðum út í. En hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að Ísland vilji verða virkur þátttakandi í rammasamningnum en það skýrist ekki fyrr en eftir þingið í Buenos Aires í nóvember. Ég spyr því hvort ríkisstjórnin sé búin að vega og meta, þ.e. ef hún nær ekki hugmyndum sínum fram, hvort hún ætli þá virkilega að sleppa að undirrita samninginn. Slíkt yrði glapræði að mínu mati þó að það sé mjög skiljanlegt að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að koma með slíkar yfirlýsingar á þessari stundu á meðan hún er að vinna að lausnum sínum.

Að mínu er mati mjög ánægjulegt að það hefur verið ákveðið að auka framlög til þróunarsamstarfs á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ætlunin er að leggja sérstaka áherslu á aðstoð við konur í ljósi þess að margar rannsóknir og alþjóðastofnanir hafa sýnt að aðstoð við þær skilar sér best út í viðkomandi þjóðfélög. Þar er vitnað m.a. í góða reynslu af kvennaverkefnum í Namibíu og Grænhöfðaeyjum. Vonandi verður haldið áfram á þessari braut og ég spyr hæstv. utanrrh. hvort ekki hafi komið til tals innan ráðuneytis hans að styrkja alþjóðlega lánastarfsemi kvenna, ekki síst í ljósi þess að íslenskur ráðherra situr nú í fyrsta sinn í þróunarnefnd Alþjóðabankans og fer með formennsku þar fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ég tel að það væri mjög mikilvægt áherslumál að láta verða af því að ýta undir möguleika kvenna til að taka lán, ekki síst kvenna í þróunarlöndum.

Að lokum vil ég geta þess, hæstv. forseti, þar sem ég var ekki viðstödd umræðuna í síðustu viku um stækkun NATO að ég tel að sú útvíkkun á bandalaginu sem stendur fyrir dyrum sé mjög eðlileg með hliðsjón af breyttri Evrópu og þó að ég líti á NATO sem hernaðarbandalag sem í raun sé allt of fyrirferðarmikið í heiminum eins og hann er í dag. Tilvist kalda stríðsins virðist enn þá sveima yfir vötnunum, ekki síst innan þess bandalags og því væri e.t.v. æskilegra eins og hefur komið fram hjá þingmönnum Alþb. að svokölluðu öryggis- eða friðarhlutverki NATO væri sinnt annars staðar þar sem mjög erfitt er að aðskilja þetta nýja hlutverk, sem ég trúi að eigi eftir að eflast, frá hinu hlutverkinu, þ.e. hernaðarhlutverkinu. E.t.v. væri ÖSE mjög góður vettvangur og ég tel að þann vettvang beri að styrkja.

Það er að mínu mati, hæstv. forseti, nokkuð miður að hér á landi virðist sem oft sé ekki gerður greinarmunur í utanríkismálastefnu okkar á tilvist Bandaríkjahers annars vegar og hins vegar að við erum í NATO. Ég tel að ef við lítum til náinnar fortíðar þá bárum við að mínu mati enga ábyrgð á fyrirhuguðum árásum Bandaríkjamanna á Írak fyrir skömmu, sem varð ekki af sem betur fer, en samt leit út fyrir að ætlunin væri að nýta flugvöllinn hér í slíkum hernaði. Þetta er að mínu mati mjög óviðunandi og því spyr ég hvort svona lagað sé bundið í varnarsamningnum, ég hef ekki orðið vör við það, eða hvort þetta er háð ráðherrum á hverjum tíma. Það er að mínu mati eitt að vera í NATO og annað að taka þátt í einhliða hernaðarátökum Bandaríkjanna við önnur ríki.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að styttast en ég tel mjög mikilvægt að við Íslendingar verðum vel á verði í öllum alþjóðasamskiptum okkar og fagna því hve kröftuglega er staðið að þátttöku okkar á ýmsum sviðum. Það er þó eitt atriði að lokum, herra forseti, sem ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um og það varðar stöðu kvenna í utanríkisþjónustunni. Staða þessara kvenna er vægast sagt mjög slök bæði sem sendiherra og sem eiginkvenna og ég spyr að lokum hvort hæstv. ráðherra fyrirhugar einhverjar breytingar á högum þeirra.