Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:06:41 (5327)

1998-03-31 17:06:41# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Kannski er rétt að byrja á því síðasta sem spurt var um, þ.e. stöðu kvenna í utanríkisþjónustunni. Það er rétt að það eru of fáar konur í utanríkisþjónustunni. Núna er verið að ráða nýtt fólk til utanrrn. Það sóttu milli 130--140 manns, þar af yfir 70 konur og yfir 60 karlar. Við munum trúlega geta ráðið í fimm stöður til að byrja með vegna þess að fólk hefur hætt og eins og málið stendur í dag verða sennilega ráðnar fjórar konur og einn karlmaður. Það er held ég ekki alveg sambærilegt við það sem hefur oft gerst áður þannig að við erum mjög meðvituð um að þetta hlutfall breytist. En þetta er einfaldlega vegna þess að það er mat þeirra sem stóðu í þessum viðtölum að konurnar séu afar vel hæfar til þess að gegna þessum störfum.

Spurt var um hvort kostnaður við sendiráð og utanríkisþjónustu væri lægri hér á landi en annars staðar. Ég hygg að svo sé ekki og tel að þetta sé á engan hátt sambærilegt vegna þess að utanríkisþjónusta lítilla ríkja verður hlutfallslega alltaf dýrari en þeirra stærri. Hins vegar ef við berum okkur saman við útgjöld flestra ríkja bæði til utanríkisþjónustu og varnarmála er það miklu lægra á Íslandi en almennt gerist vegna þess að við höfum engan her. Án þess að ég ætli beint að fara að bera það saman þá er mjög erfitt að fara út í slíkan samanburð. Mér er þó kunnugt um það að land eins og Lúxemborg, sem er að vísu heldur stærra en við, er með sendiráð á mun fleiri stöðum í heiminum en Ísland þannig að þeir leggja í mikil útgjöld vegna utanríkismála. (Forseti hringir.) Ég mun reyna að koma inn á aðrar spurningar hv. þm. síðar.