Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:09:43 (5329)

1998-03-31 17:09:43# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar eiginkonur eða maka starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sem betur fer gengur það í báðar áttir, er alveg rétt að það fylgja því margvísleg vandamál sem við getum ekki leyst en auðvitað gera starfsmenn sér fulla grein fyrir þessu þegar þeir fara út í þessi störf og út á þetta svið. Það sem hefur verið gert er að skipa sérstaka nefnd um fjölskyldumál starfsmanna utanrrn. og sú nefnd er að störfum. Í þeirri skýrslu sem er nýkomin á borð þingmanna um málefni utanríkisþjónustunnar eru þessu máli gerð nokkur skil.

Ég vildi kannski aðeins koma inn á málefni Schengen. Þau mál eru alveg skýr. Verið er að leita eftir samningum við Evrópusambandið á grundvelli þess að ekki þurfi að breyta stjórnarskrá landsins. Lögfræðingar sem við fengum sérstaklega til þess hafa skilað skýrslu um þetta mál sem er aðgengileg öllum þingmönnum og öðrum sem hafa áhuga á þar sem þetta kemur skýrt fram.

Þessum samningum er ekki lokið. Samningurinn um Schengen-samstarfið var gerður í desember 1996 og ríkisstjórnin hyggst leggja þann samning fram á Alþingi eftir nokkra daga til kynningar án þess að gert sé ráð fyrir að hann verði afgreiddur en síðan verður hann væntanlega afgreiddur á Alþingi í haust og þá liggur vonandi fyrir samningur milli Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um þetta mál því að bæði Ísland og Noregur hafa einsett sér það að gerast aðilar að þessu samstarfi sem hefur mjög mikla pólitíska þýðingu fyrir okkur Íslendinga.