Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:28:25 (5332)

1998-03-31 17:28:25# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að átt hafi sér stað í utanrrn. einhver sérstök skipuleg úttekt á kostum og göllum þess að ganga í Evrópusambandið á sínum tíma. Það má vel vera að það hafi farið algjörlega fram hjá mér. En það er ekki svo að ekkert sé verið að gera í þessum málum. Við erum stöðugt í viðræðum við margar þjóðir um samskipti Íslands við Evrópusambandið, erum að útskýra okkar stöðu og leita eftir skilningi þeirra á hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við erum að sjálfsögðu alltaf að ræða það til að reyna að gera okkur grein fyrir því hvað gæti beðið okkar í þeim efnum. Í því felst ekki einhver fullyrðing um að það sé ætlun okkar að ganga þar inn, en við erum ávallt að kanna viðhorf annarra þjóða.

Það liggur alveg ljóst fyrir, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að stóri gallinn við þetta er sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins. Og það eru engar líkur á að þær breytingar verði á henni sem við gætum sætt okkur við. En við erum alltaf að spyrja um það þannig að við erum alltaf að vinna okkar heimavinnu, sem ég trúi að hafi líka verið unnin áður í utanrrn. og hef engar efasemdir þar um.

Um úttekt á kostum og göllum EES-samningsins, þá getur vel komið til greina að gera þá úttekt. Hins vegar held ég að það sé ekki mjög mikils virði vegna þess að sú reynsla er góð og samningurinn hefur reynst Íslendingum vel. Það er ekki þar með sagt að samningurinn hefði ekki getað verið betri eins og allir aðrir samningar við erlend ríki. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að þeir séu gagnrýndir á Alþingi. Ég tel t.d. að síldarsamningurinn við Noreg hafi verið afar góður jafnvel þótt Alþfl. hafi gagnrýnt hann.