Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:34:43 (5335)

1998-03-31 17:34:43# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér dettur ekki í hug að fara að deila um sagnfræði við hæstv. ráðherra. Það liggur fyrir hvernig þessi samningur var afgreiddur á þinginu, hvernig menn greiddu atkvæði og auðvitað stendur það.

Það sem ég er hins vegar að vekja athygli á er að það er gott fyrir Íslendinga að vita miðað við þær fullyrðingar sem þá voru gefnar, bæði um jákvæðar og neikvæðar hliðar þess samnings, hver niðurstaðan er. Hvað hefur áunnist með þessum samningi? Hvað hefur hann fært okkur? Hvaða hrakspár sem hafðar voru uppi um hann hafa ekki ræst? Þetta er gott fyrir Íslendinga að vita, líka upp á framtíðina því að svona brugðust menn líka við á sínum tíma þegar samþykktur var samningur um EFTA-aðild Íslands, þá voru menn uppi með slíkar hrakspár. Aldrei var gerð nein úttekt á því hvort sá samningur hefði verið jákvæður eða neikvæður fyrir okkur, hvað af honum hefði verið jákvætt og hvað neikvætt o.s.frv. Með nákvæmlega sama hætti er umræðan um EES-samninginn og framhald hans, þ.e. ekki liggur fyrir hvaða jákvæð áhrif þessi samningur hefur haft fyrir okkar og hver hafa verið hans neikvæðu áhrif.

Ef fólk ætlar ekki að festast í tilfinningalegri afstöðu til málsins, einhverri fyrir fram gefinni afstöðu sem færð er til bókar í eitt skipti fyrir öll, og vill ræða þessi mál skynsamlega að fá að vita niðurstöðuna, fá að sjá reynsluna og nota síðan dóm reynslunnar til að vega og meta þær aðgerðir sem kunna að vera á borðum alþingismanna og ráðherra á næstu árum í sambandi við samvinnu Íslands um efnahagsmál við önnur lönd. Þetta er bara af því góða. Þetta er ekki sagnfræði, virðulegi forseti. Síður en svo.