Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:37:03 (5336)

1998-03-31 17:37:03# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði um skýrslu þá sem við þingmenn höfum nú fengið í hendur um endurskoðun á utanríkisþjónustunni. Það er margt vel um þá skýrslu og ég er stuðningsmaður þess sem þar kemur m.a. fram og snýr að því að efla utanríkisþjónustuna í skilningnum að fjölga sendiráðum. Vissulega kostar það umtalsverða peninga að framkvæma tillögur nefndarinnar sem ganga út á nokkur ný sendiráð en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að sjálfsögðu að leggja í það eins og viðráðanlegt er að halda á okkar málstað erlendis og það er tvímælalaust tímabært að færa þar út kvíarnar.

Að öðru leyti er þessari skýrslu því miður talsvert áfátt. Ég held að vinna þurfi það verkefni frekar að kortleggja utanríkissamskipti og utanríkispólitíska þátttöku þjóðarinnar í miklu víðara samhengi þar sem Alþingi, önnur ráðuneyti en utanrrn., opinberar stofnanir, hagsmunasamtök og fleiri aðilar eru jafnframt tekin með í dæmið. Það er algerlega lífsnauðsynlegt fyrir fámenna þjóð sem hefur úr takmörkuðum fjárráðum að spila að byggja markvisst upp þátttöku sína á þessu sviði.

Í öðru lagi, herra forseti, þegar kemur að ræðu hæstv. utanrrh., þá staldra ég við kaflann um stækkun NATO. Að vísu hafa farið fram miklar umræður um það mál á þingi nýlega og ég get vísað til þeirra og þeirrar ræðu sem ég hélt þar. Ég verð þó að segja að mér finnst sá tónn sem oft er í þeirri umræðu og þar á meðal af hálfu hæstv. ráðherra eiginlega hálfleiðinlegur. Það er sérstaklega það að menn skuli vera svona önugir yfir því að einhver önnur sjónarmið komi fram en þeir hafa sjálfir. Það er nánast reynt að afgreiða það eins og eitthvert séríslenskt fyrirbæri að menn leyfi sér að velta upp kostum og göllum þeirrar niðurstöðu sem þar var valin og spyrja sig gagnrýninna spurninga um hvort ekki hefði hugsanlega mátt fara aðrar og farsælli leiðir í nýskipan öryggismála í álfunni. Er það af hinu illa? Er það verra? Er virkilega verið að reka þetta trúboð á þeim forsendum að það eigi bara að vera ein löggilt skoðun? Mig undrar þetta nokkuð og sömuleiðis sú sagnfræði sem hér veður uppi að breytingar í alþjóðamálum á síðustu árum hafi sannað eitt og afsannað annað. Hvað hefur sannast í raun og veru? Hefur það t.d. sannast sem margir vilja vera láta í sínum málflutningi að vígbúnaðarkapphlaup kaldastríðsáranna hafi verið af hinu góða? Er það niðurstaðan að hið tryllta vígbúnaðarkapphlaup kaldastríðsáranna þegar menn hlóðu upp kjarnorkuvopnum sem nægðu til þess að gereyða heiminum mörgum sinnum, að það hafi verið sérstök blessun fyrir mannkynið? Er það það sem verið er að segja? Þrátt fyrir að það liggi fyrir alveg óhrekjandi sannanir um að tvisvar, þrisvar ef ekki fjórum sinnum munaði hársbreidd að gereyðingarstyrjöld skylli á. Menn eru ekkert að velta því fyrir sér. Bara af því að það gerðist ekki, þá er þetta allt í lagi.

Mér finnst þetta vera sambærileg röksemdafærsla við þá að maður gengi í svefni yfir tíu akreina hraðbraut og ef hann er svo stórheppinn að enginn keyrir á hann, þá sé það sönnun þess að það sé algerlega hættulaust að ganga sofandi yfir tíu akreina hraðbraut. Nei. Það er bara sönnun fyrir því hversu óskaplega heppinn viðkomandi maður var. Það hefur ekkert sannast á þeim árum sem liðin eru frá því að kalda stríðinu lauk eins og það er sagt annað en það hversu heppið mannkynið var að komast í gegnum þetta tryllta tímabil án þess að tortíma sér og hversu heppin við erum enn þá á meðan þau gereyðingarvopn eru til staðar að ekki er gripið til að nota þau. Það hefur ekkert annað sannast. Ég hafna því þessum málflutningi, herra forseti.

Ég tek undir það sem hér er sagt um hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og er hér eftir sem hingað til stuðningsmaður þess að við eflum þátttöku okkar þar og stofnum okkar fastanefnd þó fyrr hefði verið.

Sömuleiðis geri ég ekki annað en taka undir kaflana sem lúta að norrænu samstarfi, Norðurskautsráðinu og minni á vestnorræna samstarfið í þeim efnum. Ég held alveg tvímælalaust að við eigum að afmarka dálítið þátttöku okkar út frá því að efla stöðu okkar sem mest á svæðisgrundvelli út frá Íslandi. Þar er vestnorrænt samstarf í mínum huga númer eitt, norrænt samstarf númer tvö og norðursvæðastarf, heimskautssvæðasamstarf númer þrjú. Ég held að við eigum alveg hikstalaust að forgangsraða þátttöku okkar í þessum hringjum út frá okkar eigin landi. Það er skynsamlegt og hyggilegt fyrir þjóð eins og okkur að gera.

Þá fáein orð um varnarsamstarfið, herra forseti. Það er ekki langur kafli. Þeir hafa sést stærri í ræðum og skýrslum utanrrh. á umliðnum árum um það efni. Ætli þetta sé ekki einar átta línur. En þar eru þó tvö orð sem ég staldra við og vil spyrja hæstv. ráðherra út í. Það er þetta, með leyfi forseta, en svo segir í texta um varnarsamstarfið:

,,... er ljóst að meginverkefnið fram undan er endurskoðun varnarstefnu Íslands til lengri tíma sem nú er unnið að. Þar verður einkum höfð að leiðarljósi trygging varna landsins um ókomna framtíð ...``

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Til hvers vísa orðin ,,um ókomna framtíð?`` Er verið að tengja þetta við veru bandaríska hersins á Íslandi? Er það framtíðarsýn, stefna hæstv. utanrrh. og flokks hans, að um ókomna framtíð skuli reyna að framlengja það ástand sem nú er, að í landinu sé erlendur her? Ég held að það sé ástæða til að fá þetta skýrar fram því það er kannski svolítið á reiki þrátt fyrir allt hver hin opinbera stefna Framsfl. er orðin í þessum efnum sem einu sinni var að verulegu leyti andvígur hersetunni, þó gjarnan sé reynt að þurrka það út í sagnfræðinni að talsverður hluti þingmanna Framsfl. studdi það ekki. Það er kannski orðið nauðsynlegt að rifja það upp fyrir hæstv. utanrrh. Af einhverjum ástæðum vildi hann lítt við það kannast t.d. þegar aðildin að NATO var rædd að það hefði ekki verið samstaða í hans eigin flokki um það mál, talaði eins og það hefðu bara verið örfáir sérvitringar, kommúnistar og vondir menn sem hefðu leyft sér að gagnrýna það en ég man nú ekki annað en formaður Framsfl. á þeim tíma hafi verið því andvígur og ekki greitt því atkvæði.

Einu sinni var sagt að ekki ætti að vera her í landinu á friðartímum. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Til hvers vísa þessi orð? En ég vísa að öðru leyti til þeirrar tillögu sem er næst á dagskrá á þessum fundi og við munum ræða síðar í kvöld.

Þá vík ég að samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Þar er að vísu ekki kveðið mjög fast að orði. Í sambandi við hinn sameiginlega evrópska gjaldmiðil er talað um raddir úr íslensku atvinnulífi sem telji brýnt að tengja krónuna við evrópsku myntina. Það er eins og mig minni að hæstv. utanrrh. hafi tekið öllu dýpra í árinni, bæði í blaðagreinum og í yfirlýsingu eða ræðu úti í Brussel á dögunum. Þess vegna vakti sérstaka athygli mína í þessu sambandi greinarkorn sem ég rakst á í Financial Times á fimmtudaginn var þegar ég var á ferðalagi og ég gerðist svo djarfur að rífa það út úr blaðinu og vona að eigandinn fyrirgefi mér það, sem er erlent flugfélag. En ég var svo stórhrifinn af því sem hæstv. forsrh. segir þar og vona að rétt sé eftir honum haft.

[17:45]

Hann er þar að tala um að útilokað sé fyrir okkur að gerast aðilar að Evrópusambandinu, jafnvel þótt til standi að endurskoða sameiginlegu fiskveiðistefnuna 2002, vegna þess að það sé óhugsandi fyrir Ísland að gefa upp sjálfstæði sitt í peninga- og efnahagsmálum þannig að það sé ekki bara fiskveiðistefnan ein sem þarna standi í veginum heldur sé óhugsandi að Ísland afsali sér sjálfstæði sínu í efnahags- og peningamálum eins og það mundi þurfa að gera ef það gengi inn í Evrópusambandið og ég tala ekki um eftir að hin nýja evrópska mynt er komin til sögunnar. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er það stefna ríkisstjórnarinnar sem þarna er lýst svona afdráttarlaust og hefur ekki verið borin til baka?

Að hinu leytinu var auðvitað athyglisverð ræða formanns Alþfl. hér áðan sem var nánast ein samfelld áróðursræða fyrir því að Ísland ætti að drífa inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og það sem fyrst í voninni um að við kæmumst fram úr öðrum út á sérstaka stöðu okkar og tengsl við Evrópusambandið. Það er málflutningur sem ég er ákaflega andvígur, herra forseti, og tel fráleitan. Það er hvorki neitt sem kallar á það af okkar hálfu í aðstæðum okkar né líklegt að þær viðræður mundu skila í sjálfu sér neinu öðru en því að Íslandi byðist þá að ganga inn í Evrópusambandið í grófum dráttum nákvæmlega eins og það er í dag og við vitum hvað það þýðir og ég held að það þurfi enga sérstaka úttekt í þeim efnum.

Auk þess verð ég að segja um alla úttektarfræðina sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði mikið úr: Við hvað á að bera saman? Það að gera úttekt á því hvernig EES-samningurinn hafi komið út er að því leyti mjög vandasamt sýnist mér, herra forseti, að það verður að bera það saman við eitthvað. Við hvað? Við ástandið eins og það var fyrir daga samningsins? Eru menn þá að gefa sér að ekkert annað hefði komið í staðinn? Auðvitað er það ekki nothæfur grunnur fyrir samanburðinn því að menn verða náttúrlega að reikna með því að ef ekki hefði orðið EES-samningur þá væri komið eitthvað annað í staðinn og það væri enginn flokkur sem gagnrýndi EES-samninginn að tala um annað en við þyrftum á einhvern hátt að samningsbinda samskipti okkar við Evrópusambandið. Spurningin var bara hvernig. Hvað er hagstæðast fyrir smáþjóð eins og Ísland með mjög mikla sérstöðu að gera í þessum efnum? Áhersla okkar í Alþb. var á tvíhliða samning sem hefði fólgin í sér viðskiptakjör á mjög hliðstæðum grunni og EES-samningurinn en væri einfaldari í sniðum og fæli ekki í sér þátttöku í því flókna stofnanafargani sem EES-samningurinn setti upp, væri meira í ætt við tvíhliða bókun eða viðskiptasamning og fæli í sér ákvæði um samvinnu á ýmsum öðrum sviðum sem Ísland var reyndar þegar á ýmsum sviðum þátttakandi í. Ég nefni ýmis samstarfsverkefni á sviði menningar og vísinda og rannsókna sem Ísland var þátttakandi í jafnvel fyrir daga EES-samningsins. Þessi uppstilling mála er að því leyti stórkostlega einfölduð að menn geta einfaldlega ekki borið nútímann og einhver undangengin ár saman við það sem var einhvern tímann löngu áður við einhverjar allt aðrar aðstæður, eins og ekkert hefði breyst. Eins og valið hefði bara verið annaðhvort eða. Það var það aldrei í mínum huga. Augljóslega hefði Ísland og þess vegna fleiri þjóðir sem hefðu valið aðrar leiðir en að gera EES-samninginn leitað eftir einhvers konar annars konar samningsbundnu samstarfsformi við Evrópusambandið. Það liggur í hlutarins eðli.

Herra forseti. Orðalagið um Schengen endurspeglar auðvitað frá minni hlið þann ágreining sem ég geri við hæstv. ráðherra um það mál. Ég tel að það hafi verið mistök af Íslands hálfu að reyna að gerast fullgildur aðili að Schengen-samningnum. Það lá orðið nokkuð ljóst fyrir að hann stefndi lóðbeint inn í Evrópusambandið, að verða hluti af réttarreglum Evrópusambandsins eins og hann er nú að verða og að hlutar hans mundu lenda inn í fyrstu stoð og þar með yrði um yfirþjóðlegt vald að ræða. Það er nákvæmlega í hnotskurn sá vandi sem menn standa núna frammi fyrir og hæstv. utanrrh., Íslendingar og Norðmenn þess vegna einnig eru síður en svo búnir að bíta úr nálinni með. Það er hægara sagt en gert að leysa þá þversögn sem þar með er komin upp fyrir ríki sem eru ekki fullgildir aðilar að Evrópusambandinu.

Herra forseti. Ég vek athygli á athyglisverðu orðalagi um hvalveiðar. Mjög athyglisverðu. Þar er sagt fullum fetum að það sé að sjálfsögðu vilji Íslendinga og stefna ríkisstjórnarinnar að veiða hvali en við vitum hvar það mál er á vegi statt og ég minni á að hin árlega vortillaga nokkurra þingmanna stjórnarliðsins um að hefja hvalveiðar er nú komin fram enda orðið nógu stutt eftir af þinginu að það er borin von að hún verði afgreidd. Það er að verða jafndagvisst og það að páskarnir koma og síðan sumardagurinn fyrsti og eitthvað svoleiðis að stjórnarsinnar koma með vortillöguna sína um hvalveiðar þegar ljóst er að ríkisstjórnin ætlar eitt árið enn ekkert að gera í málinu. Ég hefði í sporum hæstv. utanrrh. sleppt þessum texta. Ég held að þögnin geymi best framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum. Ég er stuðningsmaður þess, herra forseti, að við skoðum aðild Íslands að CITES-samningnum með jákvæðum huga. Ég held að við eigum einmitt að fara þannig í þau mál að við séum þar aðilar en reynum frekar að hafa áhrif á þróun þeirra hluta í okkar þágu.

Um Kyoto-bókunina og Kyoto-samningaferlið mætti ýmislegt segja. Hér er gefið mjög sterklega í skyn það sem ég hef gagnrýnt, að við Íslendingar verðum ekki aðilar, nema við fáum enn þá víðtækari undanþágur en þær sem kreistar voru út í Kyoto á sínum tíma. Það er mjög neikvæð staða fyrir Ísland að vera í þessu ferli þannig statt í miðjum klíðum að vera sífellt hótandi því að vera ekki þátttakendur. Auðvitað er það skiljanlegt þegar maður hefur fyrir framan sig framtíðarsýn hæstv. iðnrh. Finns Ingólfssonar sem er búinn að lýsa yfir eymd, volæði og fátækt á Íslandi ef ekki verði haldið áfram að virkja og virkja og virkja og byggja og byggja og byggja, ný og ný og ný álver. Ef framtíðarsýn manna er þessi er skiljanlegt að menn séu aumir út af Kyoto ef menn sjá allt bara sótsvart nema hér rísi eitt álver á ári. Það er framtíðarsýn iðnrh. og í því ljósi verður að skoða textann.

Um þróunarsamstarfið vísa ég til þeirrar tillögu sem ég og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir höfum flutt um það mál hér á þingi og segi að lokum, herra forseti, að ræða hæstv. utanrrh. boðar engin tímamót. Það er satt best að segja ótrúlega ótrúlegt, herra forseti, hversu litlu það virðist skipta hvort utanrrh. þjóðarinnar kemur úr Sjálfstfl., Alþfl. eða Framsfl.