Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:52:32 (5337)

1998-03-31 17:52:32# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt að við Íslendingar séum sem mest sammála um utanríkismál. Það er alveg rétt að deilt hefur verið um ýmis mál áður fyrr, m.a. um varnarmálin og Atlantshafsbandalagið, mér er vel kunnug um þær umræður og deilur sem voru í Framsfl. um þau mál og ég veit að Alþb. saknar þeirra. Þeir höfðu mikla ánægju af því að ráðast á Framsfl. út af þeim málum og margur liðsmaðurinn yfirgaf Framsfl. yfir í Alþb. m.a. út af því þannig að ég skil vel söknuð þeirra í þessu sambandi. En tímarnir hafa breyst og sem betur fer bar Framsfl. gæfu til þess að standa að aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og standa að varnarsamningnum við Bandaríkin og þetta eru hornsteinar í varnarmálum okkar. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að byggja á þessum tveimur samningum um ókomna framtíð. Það er afstaða mín svo lengi sem þetta samstarf getur haldið áfram.

Hins vegar þarf að endurmeta varnarþarfir landsins og þar getur ýmislegt komið til greina. Við þurfum að meta hvaða þörf er fyrir viðveru varnarliðsins hér á landi, í hvaða mæli o.s.frv. Það er þetta starf sem við erum að vinna að. Í þessu orðalagi felst ekkert ákveðið um það hvernig þetta eigi að vera um ókomna framtíð. Við verðum að miða við þær aðstæður sem eru uppi á hverjum tíma. Ég er hins vegar sannfærður um að ákveðinn varnarviðbúnaður á Íslandi er nauðsynlegur en ég heyri að Alþb. er þeirrar skoðunar að það eigi alls engar varnir að hafa og í engu varnarbandalagi að vera.