Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:54:44 (5338)

1998-03-31 17:54:44# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki vegna þess að ég sakni þess eða það komi mér mikið við hvort framsóknarmenn eru allir sammála eða menn leyfa sér að hafa þar mismunandi skoðanir. Mér er ljóst að það er ekki mjög mikið í tísku nú í tíð núv. formanns í Framsfl. að menn hafi þar einkaskoðanir sínar. Það er bara ein lína sem gildir fyrir liðið og það hefur m.a. birst í því að þingmenn Framsfl. mega ekki flytja tillögur í utanríkismálum sem þeir höfðu frelsi til áður í tíð fyrrv. formanns flokksins.

Ég spurði um það hvað þessi orð ,,um ókomna framtíð`` þýddu. Ég hallaðist að því, a.m.k. í fyrri hluta svars hæstv. utanrrh., að þau þýddu að hæstv. utanrrh. teldi að hér ætti að vera erlendur her í landinu um ókomna framtíð. Það ætti um ókomin ár að byggja á þeim tveimur stoðum sem hann kallar svo, NATO-aðildinni og varnarsamningnum við Bandaríkin sem felur í sér að herinn sé hér og verji landið. Ég harma auðvitað ef það er rétt skilið. Mér finnst það dapurlegt að menn skuli ekki eiga sér þá fallegu framtíðarsýn að Ísland geti verið herlaust land. Ég finn til með þeim mönnum sem geta ekki átt sér þann draum og ég tala ekki um hversu gaman yrði að upplifa að hann rættist. Það er ekki þar með sagt að Ísland geti ekki haft varnir innan þeirra marka sem við teljum að eigi þá að vera. En ég spyr á móti, fyrir hverju er verið að verja okkur í dag? Hver er óvinurinn? Er það ekki alveg ljóst að þeir tímar eru uppi að Bandaríkjamenn sjálfir vilja fara, vilja draga hér úr umsvifum og fara? Er það þá ekki heldur nöturlegt að þurfa að vera nánast á hnjánum að biðja þá að vera? Biðja þá að vera hér með einhver umsvif og í raun og veru skín í gegn að það eru fyrst og fremst efnahagslegir ávinningar sem liggja þar að baki. Mér finnst það dapurlegur endir ef svo má að orði komast sem vonandi verður á þessu máli að á lokasprettinum verði það Íslendingar sem grátbiðji herinn að vera í einhver ár en svo fari hann samt.