Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:02:00 (5341)

1998-03-31 18:02:00# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:02]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Á döfinni eru miklar breytingar í Evrópumálum og þá ekki síst í þeim málaflokkum sem einkum snerta hagsmuni Íslands. Á þessa málaflokka er drepið hér í viðamikilli ræðu utanrrh. í dag. Meðal þeirra atburða sem hæst ber í þessari deiglu Evrópumálanna er að sjálfsögðu stækkun NATO, útfærsla Evrópusambandsins og Myntbandalagið. Ég mun víkja hér einkum og sér í lagi að Myntbandalaginu en einnig ræða málefni hafsins, hafrannsóknir og nýtingu sjávarauðlinda, en um þau mál hefur orðið mikil umræða á þessu ári. Sú umræða er ekki síst í kjölfar þess að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga þetta ár hafinu. Ég stenst þó ekki þá freistingu að blanda mér lítillega í þá umræðu orðið hefur um stækkun NATO, aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu svo og stækkun Evrópusambandsins.

Þegar rætt er um stækkun NATO, sem nú er unnið að, er rétt að hafa í huga að smáríki Mið- og Austur-Evrópu líta svo á að í Atlantshafsbandalaginu sé fólgin mesta trygging þessara ríkja fyrir sjálfstæði og fyrir því að þau geti hagað málefnum sínum að eigin vild eins og að sjálfsögðu er eðli sjálfstæðra ríkja. Þessu máli víkur nokkuð öðruvísi við þegar um er að ræða Rússland sem telur að stækkun Atlantshafsbandalagsins væri þeim mjög óhagstæð. Rússland hefur lagt megináherslu á að unnið sé að öryggismálum Evrópu á vettvangi ÖSE. Það er athyglisvert að málflutningur sumra stjórnarandstöðufulltrúa hér í dag hefur verið nákvæmlega sá sami og rússneskra stjórnvalda. Þeir telja að ekki eigi að nota Atlantshafsbandalagið sem grundvöll öryggissamvinnu lýðfrjálsra Evrópuríkja. Jafnvel hefur verið gefið í skyn að leggja eigi bandalagið niður og snúa sér að því að nýta ÖSE sem grundvöll öryggissamstarfsins í framtíðinni. Ég held að þetta sé byggt á miklum misskilningi á hagsmunum smáþjóða Evrópu og nær sé að líta til þess að sameiginlega miðar stækkun NATO og stækkun ESB að því að skapa öryggismálum í Evrópu betri og traustari grundvöll í framtíðinni.

En það sem mig langar til að minnast sérstaklega á í þessari umræðu og fjallað er um í ræðu utanrrh. er eitt af stærstu skrefunum sem nú á að stíga í átt til þess að mynda bandaríki Evrópu. Myntbandalagið, sem allt bendir til að taki gildi í upphafi næsta árs, er langstærsta skrefið sem stigið hefur verið til þessa í þá átt. Sameiginleg Evrópumynt, sameiginlegur seðlabanki og peningastjórnun munu hafa í för með sér stóraukinn þrýsting á sameiginlega skattastefnu Evrópusambandsríkjanna. Það mun auka líkur á því að umhverfi atvinnulífsins í Evrópusambandinu verði að fullu samræmt en á því er mikil brotalöm eins og staðan er nú.

Nokkrar efasemdir voru um það hve mörg ríki Evrópusambandsins mundu taka þátt í myntsamstarfinu. Svo miklar voru þessar efasemdir að í skýrslu sem Seðlabanki Íslands gaf út snemma sl. sumar var talið líklegast að tiltölulega fá ríki yrðu til þess að mynda myntsambandið til að byrja með. Litlar líkur voru taldar á því að víðtækt samstarf yrði um þetta. Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að 11 ríki Evrópusambandsins munu taka þátt í þessu samstarfi.

Danir og Bretar hafa í raun og veru samið um að fá að vera utan þess. Þegar þessi umræða stóð sem hæst í sumar var auk þess ekki ljóst hvort þær þjóðir sem efnislega voru sammála um nauðsyn þess að stofna Myntbandalagið gætu uppfyllt þau skilyrði sem voru sett um aðhald í efnahagsmálum. Þau skilyrði höfðu komið fram í viðauka við Maastricht-samkomulagið.

Um sumarið og á liðnu hausti kom í ljós að mikill meiri hluti ESB-ríkjanna lagði höfuðáherslu á að taka þátt í Myntbandalaginu. Mörg ríkjanna lögðu mikið á sig til þess að standast þau skilyrði sem sett höfðu verið fyrir þátttöku. Enn standa sum ríkjanna að vísu tæpt gagnvart skilyrðunum. Það á við um Belgíu og Ítalíu að því er varðar skuldir hins opinbera sem eru langt yfir viðmiðunarmörkunum. Þau mörk voru reyndar talin hafa minna vægi en 3% mörk á halla hins opinbera, en þar stóðu Ítalir einna tæpast. Nú virðast þeir hafa náð markmiðinu. Í nýútkominni skýrslu peningastofnunar Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að nokkuð ljóst sé að 11 lönd ESB uppfylli skilyrði viðaukans og muni verða með. Það eru þá öll lönd sambandsins nema Bretland, Svíþjóð, Danmörk og Grikkland.

Staða þeirra ríkja sem standa munu utan Myntbandalagsins er mjög ólík. Grikkir uppfylla ekki skilyrði Maastricht-samningsins, Danir og Bretar, eins og ég sagði áður, sömdu sig frá skilyrðunum og sköpuðu sér tímabundið svigrúm. Svíar uppfylla skilyrðin að undanteknu ákvæði um aðild að gengissamstarfi Evrópusambandsríkjanna í tvö ár en um það atriði standa nú deilur.

Lengi stóðu Ítalir mjög tæpt varðandi skilyrði Maastricht-samkomulagsins. Þó að þeir hafi náð miklum árangri í stjórn efnahagsmála sinna eru uppi efasemdir um að sá árangur sé varanlegur. Hins vegar er mjög mikil áhersla lögð á það af hálfu þeirra ríkja sem eiga mikil viðskipti við Ítali og keppa við þá á alþjóðlegum mörkuðum að þeir verði með í Myntbandalaginu frá upphafi. Þessi áhersla varpar ljósi á það hve mikilvægur örlagavaldur Myntbandalagið verður í alþjóðlegum viðskiptum. Þær þjóðir sem keppa á alþjóðlegum mörkuðum við Ítali vilja binda þá við Myntbandalagið. Það er til þess að koma í veg fyrir að þeir grípi til þess að bæta samkeppnisstöðu sína með gengisfellingum eins og þeir hafa gert óspart á liðnum árum og áratugum. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að sviptingar í gengisskráningu lírunnar, pesetans og pundsins fyrir nokkrum árum, grófu undan fyrirtækjarekstri á ákveðnu sviði atvinnulífsins á Íslandi á þeim tíma. Það dæmi minnir okkur á að jafnvægi það sem náðst hefur í efnahagsmálum og sá styrkur sem atvinnureksturinn hér á landi nýtur nú um þessar mundir er háð því að jafnvægi haldist í gegngismálum Evrópuríkja sem við keppum við á alþjóðlegum mörkuðum.

Það er ekki auðvelt að átta sig á því hver áhrif Myntbandalagsins verða á stöðu Íslands. Þó er nokkuð ljóst að þau verða æðimikil. Við eigum mikil viðskipti við lönd sambandsins, bæði þau sem verða innan Myntbandalagsins og þau sem verða utan þess. Allt bendir til þess að í ársbyrjun 1999 verði gengi þeirra Evrópugjaldmiðla sem verða innan Myntbandalagsins fryst gagnvart evrunni. Viðskipti milli landanna munu fara fram á grundvelli evrunnar þótt peningaprentun hefjist ekki fyrr en 1. janúar 2002.

Staða evrunnar mun ráðast af aðhaldi í fjármálastjórn innan hins opinbera geira aðildarríkjanna. Miklar bollaleggingar eru um fyrstu skref og frumþróun Myntbandalagsins. Allmargar þjóðir sem utan samstarfsins standa hafa látið búa til mismunandi þróunarlíkön fyrir Myntbandalagið til þess að reyna að átta sig á áhrifum þess á aðrar Evrópumyntir. Þar er reynt að spá fyrir um pólitísk viðbrögð, viðbrögð atvinnulífsins og áhrif á alþjóðleg viðskipti. Þetta á t.d. við um Breta og Svisslendinga en báðar þjóðir eiga sterka gjaldmiðla sem njóta trausts í alþjóðlegum viðskiptum. Veik eða sterk staða evrunnar getur því haft mikil áhrif á efnahag og hagstjórn í þessum ríkjum. Veik evra mundi t.d. að mati svissneskra hagfræðinga leiða til hækkandi gengis svissneska frankans en slík þróun mundi tefla hagvexti í Sviss í mikla tvísýnu. Þetta dæmi er tekið til þess að undirstrika hve þróun evrunnar mun hafa afdrifarík áhrif á hagvöxt og hagstjórn þeirra ríkja sem eiga mikið undir alþjóðlegum viðskiptum og skipta mikið við ESB-ríkin. Augljóst er að Ísland verður í hópi þeirra ríkja.

Þeim ESB-ríkjum sem utan Myntbandalagsins standa stendur til boða að gerast aðilar að gengisfyrirkomulagi sem nefnt hefur verið ERM II. Í því fyrirkomulagi felst að gjaldmiðlar utan Myntbandalagsins verða tengdir evrunni með ákveðnum vikmörkum. Seðlabönkum ERM II landanna býðst aðgangur að lánsfé frá Evrópuseðlabankanum ef verja þarf gengi gjaldmiðla fyrir spákaupmennsku. Að mati Seðlabanka Íslands er ekki gert ráð fyrir því að lönd utan Evrópusambandsins geti tengst þessu samstarfi. Ekki liggur heldur fyrir hvort ríki utan ESB geti fengið aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bandalagsins, Target, sem unnið hefur verið að á vegum peningastofnunar Evrópu þótt líkur séu taldar á að svo geti orðið með tímanum.

Í nóvember sl. var skipuð nefnd til að kanna áhrif Myntbandalagsins á íslensk efnahagsmál. Skýrslu nefndarinnar er að vænta innan skamms og verður fróðlegt að sjá niðurstöður þeirrar skýrslu. Að mati Ingimundar Friðrikssonar, aðstoðarbankastjóra í Seðlabankanum, er ljóst að þegar viðskipti Íslands við ESB-ríkin eru metin, þá yrðu efnahagsleg tengsl Íslands við Myntbandalagið mikilvæg. Þau yrðu þó ekki yfirþyrmandi eins og hann sagði á ráðstefnu Landsbanka Íslands sl. sumar.

Ég tel ljóst að þróun mála innan Myntbandalagsins verður einn af afdrifaríkustu utanaðkomandi áhrifavöldum sem móta munu íslensk efnahagsmál og utanríkismál á komandi árum. Þróun bandalagsins er mikilli óvissu háð þótt margir telji að úr henni hafi dregið upp á síðkastið. Þess ber þó að minnast að Myntbandalagið verður stofnað án þess að á undan hafi gengið pólitísk sameining.

Evrópusambandið er ekki pólitísk heild í dag, því fer víðs fjarri. Evrópusambandið er samstarfsvettvangur sjálfstæðra ríkja sem enn hafa ekki getað fundið ásættanlegar lausnir á grundvallarvandamálum sem snerta lýðræði, aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, stjórnun og stofnanaþátt, svo eitthvað sé nefnt. Í þessu er áhættan fólgin eins og kanslaraefni þýskra sósíalista, Gerhard Schröder, benti á á fundi hér fyrr í vetur. Það er nauðsynlegt að við fylgjumst náið með þessari þróun. Hagsmunir okkar eru bundnir við það hvernig þessu bandalagi um myntsamstarf vegnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 1998 málefnum hafsins. Á það var minnst í ræðu utanrrh. um utanríkismál. Athyglin beinist því mikið að vistfræði hafsins og þeim efnahagslegu verðmætum sem eru í hafinu og á hafsbotninum. Okkur Íslendingum gefst þarna tækifæri til þess að vekja athygli á mikilvægi vistkerfis hafsins og vekja athygli á gæðum sjávarafurða.

Það er staðreynd að nágrannaþjóðir okkar líta oft fram hjá mikilvægi sjávarins og sjávarafurða. Ástæður þess eru margvíslegar. Þar vegur þungt að sjávarútvegur er eins konar afgangsstærð í efnahag þjóða Vestur-Evrópu þótt matvælaöflun úr auðlindum sjávarins sé hlutfallslega há í heiminum og sjávarútvegur og fiskvinnsla skipti talsverðu máli fyrir strandhéruð margra Evrópuríkja. Meðal afleiðinga þessa er sú staðreynd að sjávarútvegur nýtur víðtækra styrkja í Evrópusambandinu og í Evrópulöndum utan ESB svo sem Noregs.

[18:15]

Önnur afleiðing af þessu lága gengi sjávarútvegsins er sú staðreynd að framlög til hafrannsókna hafa farið minnkandi í Vestur-Evrópu undanfarin ár. Á meðan sjávarútvegurinn tekur þátt í rannsóknum á lífríki hafsins, þorskklakrannsóknum t.d. og í fjárfestingum í tækjabúnaði til hafrannsókna tekur evrópskur sjávarútvegur engan þátt í rannsóknum öfugt við aðrar atvinnugreinar. Á meðan deilt er um það hérlendis hvernig skipta skuli arði af fiskveiðum er um það deilt í Vestur-Evrópu hvernig deila skuli byrðum af rekstri sjávarútvegsins á herðar skattgreiðenda.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við höfum sem þjóð hagsmuni af því að vekja athygli á mikilvægi hafsins, ýta undir auknar hafrannsóknir og stuðla að varðveislu hafsins sem matarforðabúrs og uppsprettu hagsældar hjá strandríkjunum. Á vegum Evrópuráðsþingsins er nú unnið að stefnumörkun á sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur blandað sér mikið í þessa umræðu og þegar haft mikil áhrif á þessa stefnumörkun. Fyrstu drögum að stefnumörkun sem birt voru í skýrsluformi sl. ár var harðlega mótmælt af hálfu fulltrúa Íslands í vísindanefnd þingsins og voru þau mótmæli tekin til greina og drög skýrslunnar lögð til hliðar og ný drög samin. Vinna við þau drög stendur nú yfir og er reiknað með að ályktað verði um málið á yfirstandandi ári. Íslandsdeildin hefur notið aðstoðar sérfræðinga í sjútvrn. og utanrrn. við undirbúning þessarar vinnu. Ég tel það mjög mikilsvert að svo verði áfram og ég legg áherslu á að það starf sem unnið hefur verið í utanrrn. við að styrkja stöðu ráðuneytisins til að taka á fiskveiðisamningamálum er mjög til fyrirmyndar og þar þarf að geta betur en gert hefur verið. Ég styð því utanrrh. heils hugar í þeirri viðleitni hans.