Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:37:42 (5345)

1998-03-31 18:37:42# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Vestur-Norðurlöndin þá er það alveg rétt að við hefðum mörg viljað sjá athyglina beinast meira að Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Norður-Noregi. Fyrir því eru margir ágætir baráttumenn. Ég tel að Norðurskautsráðið, sem verður samstarfsvettvangur Rússlands, Kanada, Norðurlandanna og Bandaríkjanna, beini athyglinni í aðrar áttir og sé þess vegna gott mótvægi við annars ágætt samstarf til suðurs og austurs. Samstarf við Eystrasaltsríkin hefur oftsinnis borið á góma í umræðunni og mikill stuðningur verið við það hér á Alþingi.

Að því er varðar þátttöku okkar í ýmsum fundum og margvíslegu samstarfi þá verðum við að viðurkenna að okkar nefndir eru fámennar. Fastanefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum er mjög fámenn. Hún getur ekki sinnt öllum viðfangsefnum. Það er ekki í okkar áætlunum að fjölga þar alveg á næstunni þó full þörf sé á því. Starfið takmarkast því við þessa möguleika

Við styðjum mjög eindregið baráttu kvenna í Afganistan og viljum einskis láta ófreistað til að rétta þeirra stöðu. Enginn efast um það. Þar hafa gerst hræðilegir hlutir. Allir þeir sem berjast fyrir mannréttindum hljóta að taka undir það.