Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:42:20 (5347)

1998-03-31 18:42:20# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í skýrslu hæstv. utanrrh. kennir margra grasa, enda margt sem fella má undir málaflokkinn utanríkismál. Í forgrunni er skipulag utanríkisþjónustunnar. Til stendur að auka stórlega umfang þjónustunnar sem mun, eins og fram kom í ræðu hæstv. utanrrh., fela í sér verulegan kostnaðarauka eða um 300 millj. kr. á ári ef allar tillögurnar koma til framkvæmda.

Hæstv. utanrrh. hvetur til þess að þingheimur skoði þessi mál með opnum huga og átti sig á því að verið sé að fjárfesta til framtíðar. Það má vissulega til sanns vegar færa. Því er þó ekki að neita að á hugann leita vangaveltur um það hvort slíkur kostnaðarauki sé nauðsynlegur jafnvel þó opnun sendiráða í Kanada og Japan komi til. Vissulega er þörf fyrir þessi sendiráð. Hefur það verið skoðað nægilega hvort ekki megi loka öðrum sendiráðum til að mæta þessum kostnaði?

Hér hefur verið bent á að verulega skorti á að nefndin sem undirbjó tillögur þær sem hér eru til umræðu, fengi nægilegan tíma til að skoða starfsemi utanríkisþjónustunnar í víðtæku samhengi, m.a. með hliðsjón af starfsemi annarra sendiráða og ýmiss konar stofnana sem Ísland er aðili að.

Tengsl Íslands við umheiminn að öðru leyti en í gegnum utanríkisþjónustuna hljóta að hafa verulega þýðingu þegar metið er hvort þörf sé á því að hafa opið sendiráð. Eins og vitað er, herra forseti, er mismikið álag á sendiráðum í hinum ýmsu löndum. Það hlýtur að ráðast af þörfinni á hverjum stað. Þetta þyrfti að endurskoða annað slagið.

Ég tek undir þau sjónarmið sem formaður Alþb., hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vakti máls á í bókun sinni við álit nefndarinnar um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar, að athuga þurfi hvort hægt sé að hagræða og hvort störf sendiráðanna geti ekki verið markvissari. Tæknibyltingin sem einkennt hefur síðustu áratugi og fætt af sér internet, símafundi, skjáfundi og önnur nýmæli gerir flutning manna á milli landa síður mikilvægan en áður og hlýtur að snerta starfsemi utanríkisþjónustunnar í formi hagræðingar á ýmsum sviðum. Ég nefni þetta sem einn þátt sem skoða þyrfti mun betur, herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að vinna nefndarinnar hafi aðeins verið grunnvinna en stóra kortlagningin sé eftir. Þegar málið snýst um kostnaðarauka upp á 300 millj. kr. á ári þá er miður, herra forseti, að ekki sé betur staðið að undirbúningi.

[18:45]

Þá tel ég rétt að minna á stöðu kvenna innan utanríkisþjónustunnar við umræðuna eins og hefur reyndar þegar verið gert af hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og fleirum. Eins og sjá má af handbók utanrrn. eru konur í miklum minni hluta í þjónustunni. Ein af 23 sendiherrum, ein af 15 sendifulltrúum og tvær af átta sendiráðunautum. Þetta er sannkallað viðfangsefni fyrir hæstv. utanrrh. til að ráðast til atlögu við, a.m.k. við stöðuveitingar í utanríkisþjónustunni. Þessi hlutföll eru á engan hátt ásættanleg, sama hvernig á málið er litið.

Við umræðuna hefur verið minnst á stöðu maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem eru oftast konur en hæstv. ráðherra lýsti því yfir í ræðu áðan að þau mál væru í athugun og fagna ég því. Það er fullkomlega óeðlilegt að neita fólki um að vinna úti eins og reyndin er um þetta fólk. Þetta er ótrúlegt forneskjusjónarmið og ég leyfi mér að fullyrða að með þeirri kröfu sé verulega þrengt að mannréttindum þessara kvenna ef þau eru þá ekki hreinlega brotin.

Hæstv. utanrrh. gerði í ræðu sinni grein fyrir stuðningi sínum við ákvarðanir samskiptahóps stórveldanna um Kósóvó. Í fréttatilkynningu frá utanrrn. frá 10. mars sl. er frá því greint að hæstv. utanrrh. lýsi yfir þungum áhyggjum vegna hins alvarlega ástands sem skapast hefur í Kósóvó og fordæmir voðaverk serbneskra stjórnvalda. Tekur hann undir kröfu hins alþjóðlega samfélags um að binda tafarlausan enda á blóðbaðið í Kósóvó og að hafnar verði pólitískar viðræður hið fyrsta til að finna friðsamlega lausn á framtíðarskipan héraðsins. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. skuli á þennan hátt leggja lið mannréttindabaráttu í Kósóvóhéraði en vil um leið vekja athygli á skipulögðum mannréttindabrotum í öðru landi, nefnilega í Afganistan. Þar verða konur daglega fyrir skipulögðum ofsóknum af hendi talebana sem framkvæma glæpi sína gegn konum í nafni trúarbragða. Sýnt hefur verið sýnt fram á það af hálfu ýmissa mannréttindasamtaka að glæpirnir gegn konunum í Afganistan eiga sér enga stoð í íslam og að kúgunin gangi mun lengra en réttlætanlegt er í nafni trúarinnar. Konur eru myrtar, þeim nauðgað og þær lokaðar inni. Þeim er meinaður aðgangur að opinberu lífi, þær eru réttdræpar ef þær sjást á almannafæri án þess að vera í fylgd þess karlmanns sem talebanar viðurkenna að eigi þær. Þetta allt viðgengst án þess að alþjóðasamfélagið hafi haft í frammi mótmæli sem duga.

Bent hefur verið á að hið lögskipaða kynjamisrétti sem fyrirfinnst í Kabúl sé einsdæmi þrátt fyrir kúgun kvenna víðs vegar um heim. Þar er sérstaðan ekki síst sú að konurnar höfðu notið ákveðinna mannréttinda um nokkurt skeið en eru sviptar þeim í einu vetfangi þegar hópur harðsvíraðra trúarofstækismanna nær völdum í borginni. Konur sem unnu áður úti hafa nú verið sendar heim til sín, lokaðar inni og málað fyrir glugga híbýla þeirra. Þær njóta í raun minna frelsis en dýr, mannréttindi ná ekki til þeirra. Þetta er allt saman að gerast nú á 50 ára afmælisári mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Ég vakti athygli á stöðu kvenna í Afganistan í þinginu fyrir skömmu í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars. Þar hvatti ég hæstv. utanrrh. til að senda frá sér yfirlýsingu um konurnar í Kabúl í anda þess sem hann gerði um Kósóvó. Hæstv. utanrrh. lagði þar á það áherslu að hann miðaði aðgerðir sínar við þátttöku Íslendinga í ýmsum alþjóðastofnunum og tók hann ekki undir þá leið að senda frá sér sérstaka yfirlýsingu. Hér áðan lýsti hæstv. utanrrh. því yfir að hann styddi í einu og öllu frelsisbaráttu kvennanna í Afganistan og ég vil því nota tækifærið og hvetja hann til þess að endurskoða afstöðu sína og leggja þungt lóð á vogaskálar þess að úr ástandinu í Kabúl verði bætt.

Ég hef heyrt þess getið að alþjóðleg mannréttindasamtök hafi sent áskorun í þessa veru til íslenskra stjórnvalda og ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. utanrrh. hvort þessi orðrómur sé réttur og hvort slík áskorun hafi borist utanrrn. og sé svo, hvernig hæstv. utanrrh. telji rétt að bregðast við henni.

Í ræðu sinni vék hæstv. utanrrh. að mikilvægi þess að vinna náið með frjálsum félagasamtökum sem starfa í þágu mannréttinda. Ég get tekið undir það og vek athygli hæstv. utanrrh. á hvatningu fjölda mannréttindasamtaka í þá veru að ríkisstjórnir heims og einstakir ráðamenn í utanríkisþjónustu fordæmi kúgun kvenna í Afganistan hvar sem þeir geta komið því við. Ísland gæti með því lagt þungt lóð á vogaskálarnar ef hæstv. utanrrh. gæfi yfirlýsingu í þá veru.

Hæstv. utanrrh. vék að öryggis- og varnarmálum í ræðu sinni. Þar kemur til umfjöllunar aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að NATO og öryggismál í Evrópu. Í umræðum um þáltill. á þinginu á dögunum komu fram þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að þróa nýtt öryggiskerfi í Evrópu sem væri ekki byggt á gömlu hernaðarbandalagi eins og NATO. Þá hefur því líka verið haldið fram að NATO hafi breyst, það sýni sig best með samstarfi þess og Sameinuðu þjóðanna um friðargæslu og starfsemi eins og Samstarf í þágu friðar eða Partnership for Peace.

Ekki verður fram hjá því horft að í Evrópu hafa átt sér stað gífurlegar breytingar á síðustu árum og hafa þær m.a. haft það í för með sér að innan NATO hefur verið rætt um nýjar leiðir og stefnumótun bandalagsins hefur verið tekin til ítarlegrar skoðunar sem hefur vissulega breytt ásýnd bandalagsins að nokkru leyti frá því sem var. En burt séð frá því hvort NATO sé í jákvæðri þróun eða ekki og hvað mönnum kann að finnast um þær breytingar sem hafa átt sér stað þar eru það þung rök sem mæla með því að styðja aðild ríkjanna þriggja að bandalaginu. Þar kemur ekki síst til sú staðreynd að fólkið í þessum löndum hefur eindregið óskað þess að fá aðild en um og yfir 80% íbúa þeirra sagði já við aðild að NATO.

Aðild að Atlantshafsbandalaginu er stór liður í sjálfstæðisbaráttu þessara þjóða ásamt inngöngu í Evrópusambandið. Það er vilji fólksins sem byggir þessi lönd sem hefur verulega þýðingu í þessum efnum og hlýtur því að vega þungt í umræðu um málið uppi á Íslandi. Hið nýja öryggiskerfi sem væri vissulega æskilegt að móta er ekki til staðar í dag og þessar þjóðir standa frammi fyrir því að byggja tilveru sína á þeim meðulum sem til eru. Um það snýst málið eins og það kemur fyrir Alþingi Íslendinga, herra forseti, og út frá þeim forsendum tel ég rétt að taka afstöðu til málsins þegar þar að kemur.

Virðulegi forseti. Komið hefur verið inn á mörg mikilvæg mál í umræðunni, bæði í ræðu hæstv. utanrrh. og hjá öðrum sem hafa talað. Samskipti Íslands við Evrópusambandið er mál sem mun vera í brennidepli á næstunni sem og þátttaka Íslands í alþjóðlegu umhverfismálasamstarfi svo dæmi séu nefnd. Um þau mál sem og fleiri eins og þátt Íslands í þróunarsamvinnu mætti hafa langt mál hér en ég læt staðar numið að sinni.