Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:52:51 (5348)

1998-03-31 18:52:51# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Sjálfsagt er að halda áfram starfi að því er varðar endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og fara ofan í saumana á því hvort einhvers staðar sé hægt að spara. Auðvitað er sjálfsagt hægt að spara einhvers staðar og ekki vil ég vera með neinar fyrir fram skoðanir í þeim efnum. Ég tel hins vegar ólíklegt að okkur takist að fækka í hinum ýmsu fastanefndum sem við rekum og ég fullyrði að við erum að reka sendiráð okkar með lágmarksmannskap. Þetta er fólk sem þarf að sækja margvíslega fundi fyrir utan það að sinna miklum verkefnum og þar að auki höfum við verið að leggja meira á sendiráðin með viðskiptaþjónustunni sem þýðir aukið álag á sendiráðin víðast hvar.

Hvort loka eigi einhverjum sendiráðum, þá er ég alfarið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að gera það. Þá hafa oftast verið nefnd sendiráðin á Norðurlöndunum. Allar þjóðir Norðurlandanna hafa sendiráð hér á landi og ég teldi það röng skilaboð af hálfu Íslands að loka sendiráðum okkar á Norðurlöndunum. Þetta eru svo mikilvægir samstarfsaðilar í utanríkismálum á öllum sviðum og ekki minnkar þýðing þess við inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Evrópusambandið. Ég er því alfarið á móti því að loka þessum sendiráðum og tel að það mundi skaða utanríkisþjónustu Íslendinga og málstað okkar á þessum sviðum.

Ég hefði gjarna viljað koma inn á önnur atriði síðar sem hv. þm. spurði um.