Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:56:03 (5350)

1998-03-31 18:56:03# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að slík áskorun hafi borist. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir hver afstaða okkar er í málinu. Við styðjum baráttu þessara kvenna enda samrýmdist ekkert annað lífsviðhorfum okkar Íslendinga. Við höfum hins vegar tekið þátt í margvíslegu starfi að því er varðar baráttuna í Afganistan. Við höfum gerst aðilar að yfirlýsingum Evrópusambandsins. Við höfum gefið út sameiginlegar yfirlýsingar með hinum Norðurlöndunum. Fram undan er utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna eftir mjög skamman tíma, strax eftir páska og ég er viss um að þetta mál verður til umræðu þar.

Á fundi sl. vor beittum við okkur einmitt fyrir því að þetta mál yrði tekið til umræðu og kæmi inn í yfirlýsingu fundarins þannig að ekki hefur farið á milli mála hver okkar afstaða er. Í hvaða tilvikum við eigum að gefa út sérstakar yfirlýsingar um mál eins og þetta og einir og sér gilda engar ákveðnar reglur. En að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert og ég skal taka það til frekari athugunar ef það gæti orðið til stuðnings málinu. En við höfum sem sagt verið þátttakendur í sameiginlegum yfirlýsingum um málið á margvíslegum vettvangi, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandanna og Evrópusambandsins.