Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:59:14 (5352)

1998-03-31 18:59:14# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:59]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóða vorræðu í dag. Þetta mun vera í annað sinn á þessu þingi sem utanríkismál eru rædd, góðu heilli. Þó læðist að manni sú hugsun að málaflokkurinn þarfnist enn frekari umræðna á hinu háa Alþingi, svo viðamikil og áhrifarík sem utanríkismál eru orðin á daglegt líf á Íslandi.

Ég fagna einnig áliti nefndar um framtíð utanríkisþjónustunnar sem eins og nefnt var boðar kaflaskil í störfum utanríkisþjónustunnar með gerbreyttu umfangi hennar. Þrátt fyrir öfluga utanríkisþjónustu á undanförnum áratugum, þó með tiltölulega litlum mannafla, höfum við átt fullt í fangi með að fylgjast með og gæta hagsmuna okkar í þeirri gríðarlegu þróun sem orðið hefur í samskiptum ríkja og milli heimshluta á síðustu árum.

[19:00]

Eins og ég hef minnst á áður í umræðu um utanríkismál hefur mynd okkar af jarðkringlunni minnkað svo að ekki verður komist hjá því að sinna þessum málaflokki enn betur og tengja hann betur við þær ákvarðanir og þá framtíðarstefnu sem við leggjum hér innan lands. Hvort heldur er í viðskipta-, iðnaðar-, landbúnaðar- eða fiskveiðimálum, svo ekki sé talað um umhverfismál, verðum við sífellt háðari alþjóðlegri stefnu og alþjóðlegri afkomu í þessum málaflokkum.

Það liggur í augum uppi að þær breytingar sem orðið hafa á alþjóðasamskiptum, og mér liggur við að segja stökkbreytingar, á undanförnum árum hafa ekki bara haft áhrif á starfsemi ráðuneytis utanríkismála. Þessar breytingar hafa ekki síður haft mikil áhrif á starfsemi annarra ráðuneyta. Allir málaflokkar stjórnsýslunnar þurfa nefnilega að taka mið af breyttum aðstæðum. Ef litið er til starfa Alþingis má segja að mikill meiri hluti þingmanna tengist nú beint eða óbeint starfi á alþjóðlegum vettvangi í formi reglubundinna samskipta í alþjóðasamstarfi eða með sérstökum samskiptum vegna einstakra málaflokka.

Ýmsum kann að finnast þessi starfsemi of viðamikil og tímafrek. Ég vil hins vegar fullyrða að sá árangur sem næst sé margfalt virði þeirrar vinnu sem innt er af hendi. Ég segi þetta því hæstv. utanrrh. boðaði hér áðan kostnaðarauka vegna þeirrar stefnubreytingar sem ráðuneytið hyggst taka í starfsemi sinni. En ég tel þetta nauðsynlegt til að halda takti í þeim breytingum almennt sem nú eiga sér stað og til að verða ekki eftir í þeim startholum sem ríki heimsins eru nú að spyrna sér úr í þróun alþjóðavæðingar.

Ég vil líka leyfa mér að halda því fram að sá kostnaður sem út í er lagt muni skila sér margfalt til baka sem ígildi vöruskipta og þjónustu, aukins skilnings á sérstöðu landsins í sjávarútvegsmálum, umhverfismálum og ekki síst þar, þ.e. í umhverfismálum, felast möguleikar Íslendinga að starfa á alþjóðlegum vettvangi í okkar þágu og annarra. Þegar starfa Íslendingar víða á hinum alþjóðlega markaði eða fyrir alþjóðlegar stofnanir og þiggja þar laun, þjálfun og reynslu sem nýtist okkur í framtíðinni.

Á undanförnum árum hefur Ísland orðið virkara og mun sýnilegra í öryggis- og mannréttindamálum. Breytingar sem urðu fyrir hartnær áratug í Austur-Evrópu gerðust ekki með Íslendinga sem hlutlausa áhorfendur. Við vorum virk í frelsisbaráttu Eystrasaltslanda og tókum einnig fyrstir afstöðu með sjálfstæði Slóveníu og Króatíu. Við höfum haldið áfram og stutt við bakið á þessum löndum og öðrum löndum sem á eftir komu. Það höfum við gert á ýmsa vegu, með stjórnmálalegum stuðningi og jákvæðum málflutningi, beinni aðstoð í formi ráðgjafar, kennslu eða heilbrigðisþjónustu svo dæmi sé nefnt.

Við höfum einnig átt þess kost að vinna að og upplýsa um mannréttindi og hafa þannig jákvæð áhrif á þjóðfélagsgerðir sem hafa verið hálfri öld eftir nágrannalöndum sínum.

Til að vera virt í samfélagi þjóðanna er nauðsynlegt að við séum virkir þátttakendur í breytingu samtímans jafnt öryggismálum sem öðrum. Við höfum átt mjög góða samvinnu við alþjóðlegar stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, NATO, ÖSE, Alþjóðabankann, Evrópuráðið o.fl. Ég tel Íslendinga hafa þar mikið erindi vegna sögulegra tengsla sinna við þessar alþjóðlegu stofnanir og einnig vegna sérstakra aðstæðna sem eyland í Atlantshafi með gróin sambönd innan þessara stofnana og gróin sambönd beggja megin hafsins.

Ég vil t.d. nefna stuðning Íslands við stækkun Atlantshafsbandalagsins sem hlutverk þar sem Ísland getur átt góðan leik. En á sama tíma vara Íslendingar við, ég vil segja innlimun Vestur-Evrópusambandsins eða VES í Evrópusambandið. Það er ekki einungis af því að Íslendingar eru ekki fullgildir meðlimir VES heldur sjáum við ákveðna ókosti, ef svo mætti orða, við að Evrópusambandið útiloki þannig þau lönd sem nú eiga aðild að VES eða munu geta átt aðild í framtíðinni, ef skilyrði fyrir inngöngu í VES verður aðild að Evrópusambandinu.

Auk þess má nefna tengsl Evrópusambandsins og NATO sem nú er í stækkunarhugleiðingum eins og áður var sagt og þær hugsanlegu afleiðingar sem yfirtaka Evrópusambandsins á VES hefði á samskipti þar á milli. Íslendingar hafa beitt sér mjög á þessum vettvangi og varað við að reistir verði þar einhverjir þröskuldar sem gætu haft neikvæð áhrif á jafnvægi í Evrópu.

Þá má enn minnast á þá áherslu sem hæstv. utanrrh. hefur lagt á stuðning við ákvarðanir samskiptahóps stórveldanna í Kósóvó nýlega og þann stuðning sem Ísland hefur veitt Bosníu-Hersegóvínu í formi pólitísks stuðnings og ýmissa verkefna, m.a. við heilbrigðis- og öryggismál.

Þetta framlag okkar skiptir miklu og það mun efalítið skila sér í þeirri ímynd sem afstaða og aðstoð Íslands þegar hefur.

Á þessu ári tekur hæstv. utanrrh. við varaforsetaembætti Evrópuráðsis og mun síðan á næsta ári, við nýhafin hátíðarhöld 50 ára afmælis ráðsins 5. maí á næsta ári, taka við formennsku Evrópuráðsins. Eins og ég minntist á hefur Evrópuráðið verið leiðandi vettvangur mannréttinda og lýðræðis. Þetta á ekki eingöngu við ríki meginlands Evrópu, einkum nýfrjálsu ríkin, heldur eru samþykktir Evrópuráðsins fyrirmynd að svipuðum samþykktum samtaka eins og Sameinuðu þjóðanna. Evrópuráðið mun á næstunni enn efla starfsemi sína og efla þá sérstaklega eftirlit með framfylgni mannréttinda í Evrópulöndum og mun ráðið halda áfram því verkefni undanfarinna ára að vera hið pólitíska hlið mannréttinda þjóða Austur-Evrópu, það hlið sem þjóðir Austur-Evrópu þurfa að ganga í gegnum til að fá viðurkenningu mannréttinda til jafns við aðrar vestrænar þjóðir. Góður undirbúningur og frumkvæði Íslands á þessu væntanlega og mikilvæga ári í formennsku er forsenda fyrir því að vel takist.

Áður en skilist er við Evrópuráðið vil ég nefna afar athyglisverða ráðstefnu sem nýlega var haldin á vegum ráðsins vegna alþjóðlegs Árs hafsins. Þar áttu Íslendingar þess kost að kynna sjónarmið sín á breiðum grundvelli og eiga skoðanaskipti við Evrópuríkin og þá ekki síst Evrópusambandsríkin. Hæstv. sjútvrh. hélt framsögu á fundinum og Tómas Ingi Olrich lagði fram gagnrýni á skýrslu um sjávarútvegsmál sem er í undirbúningi í ráðinu. Auðvitað hjálpar það okkur að taka þátt í svona viðamiklum ráðstefnum sem munu bergmála víða um heim og það að Íslendingar skuli vera jafnvirkir í málflutningi á þessum ráðstefnum. Það kom greinilega í ljós og á málefnalegan hátt að afstaða Íslands í sjávarútvegsmálum bæði hvað snertir mikilvægi fyrir atvinnulífið og ekki síður sú sjálfbæra þróun sem hér hefur verið unnið að hefur vakið athygli og miklar umræður. Á málefnalegum samkomum sem þessum er því ekki síst tækifæri til að vinna að rétti sínum á þessu sviði.

Eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. færum við sífellt út kvíarnar með fríverslunarsamningum við einstök ríki. Við miðum nú orðið ekki við Evrópu og Miðjarðarhafið heldur munum við gera okkur vonir um fríverslunarsamning við Kanada í samstarfi okkar innan EFTA. Slíkur samningur var í umræðunni fyrir nokkrum árum og þótti heldur torsóttur en vonir glæðast við þær viðræður sem nú standa yfir. Enn sækja Íslendingar með fyrirtæki til annarra heimsálfa í Ameríku eða Suðaustur-Asíu sem er jákvæð þróun og í takt við tímann. Það er til marks um þau umsvif sem þegar eru orðin á þessu svæði að stofnað hefur verið sendiráð í Peking og á borðum er að stofna annað í Tókíó.

Okkur er ekki vanþörf á að halda vel á okkar spilum og koma undirbúin til verks ef erfiðið á að vera árangursins virði. Á heimavelli jafnt sem erlendis er því unnið að verkefnum í þróun milliríkjaviðskipta. Það hefur farið vel á því samstarfi sem utanrmn. hefur átt við ráðuneyti utanríkismála í þeim efnum. Samstarf í formi upplýsinga eða funda með erlendum ráðamönnum, sem hingað hafa komið á vegum ráðuneytisins, hafa verið gagnlegir og nauðsynlegir.

Samkvæmt lögum um þingsköp skal utanrmn. vera ráðherra til ráðuneytis um þau mál er lúta að málaflokkum utanríkismála og það sannaðist mjög vel í starfi nefndarinnar, ekki síst fyrir nokkrum árum þegar umræður stóðu yfir um EES-samninginn að fátt er það sem ekki tengist utanríkismálum í smáu sem stóru. Það skiptir því máli að þeir sem starfa á þessu sviði geri það samhent og ég vil segja að ýmsu leyti á gagnsærri hátt en verið hefur þannig að upplýsingaflæðið sé gott á milli manna og samvinna slík að ekki verði um tvöföldun að ræða. Á undanförnum árum hef ég hins vegar orðið vör við að þingmenn og embættismenn hafa ekki alltaf haft jafnmikil samráð og æskilegt væri þegar þeir vinna í sömu málaflokkum á alþjóðlegum vettvangi. Þegar jafnviðamikill málaflokkur sem utanríkismál er í húfi, þá ber að sjálfsögðu að nýta alla krafta til fullnustu og ég vænti þess að um breytingar verði þar að ræða í væntanlegri stefnubreytingu utanrrn.

Ég vonast til þess að sú stefna sem tekin verður á næstunni muni veita okkur afl til aukinnar framsýni og frumkvæðis þannig að við getum með reisn tekið þátt í óhjákvæmilegri þróun á næstu árum.