Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:44:31 (5358)

1998-03-31 19:44:31# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu eigum við að stuðla að afvopnun og við eigum að reyna að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að draga úr hernaðarhyggju í heiminum og við eigum að beita okkur gegn öllum gereyðingarvopnum hvort sem það eru kjarnorkuvopn, efnavopn, sýklavopn eða önnur ógnvekjandi vopn. Hins vegar vil ég vekja athygli á þeim tvískinnungi sem einkennir alla umræðuna. Hæstv. utanrrh. hefur sjálfur vísað í blaðaskrifum á árásir Íraka á Kúrdahéruð í Norður-Írak árið 1988. Á þeim tíma var Saddam Hussein góði skúrkurinn, svo að vitnað sé í líkingu Henry Kissingers á sínum tíma um Pinochet, Chile-hershöfðingjann. Hann er góði skúrkurinn, sagði hann þá. Á þeim tíma var Saddam Hussein góði skúrkurinn og það er talið að þessi vopn sem beitt var gegn Kúrdunum í Norður-Írak hafi verið keypt í Bretlandi. Á þeim tíma fengu Írakar einnig vopn frá Bandaríkjunum. Talið er að þau hafi komið í gegnum Chile.

Ég er að vekja athygli á þeim tvískinnungi sem einkennir þessa umræðu alla. Ég vil að sjálfsögðu hvetja hæstv. utanrrh. til þess að beita sér gegn efnavopnum og eiturvopnum í Írak en ég er að hvetja til þess að menn séu heilsteyptir í sínum málflutningi og sýni sjálfstæði í sinni afstöðu. Á það finnst mér hafa skort af hálfu íslenskra stjórnvalda.