Minning Jónasar Árnasonar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 14:02:43 (5370)

1998-04-06 14:02:43# 122. lþ. 101.1 fundur 254#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Jónas Árnason, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður, andaðist í gærmorgun, sunnudaginn 5. apríl. Hann var sjötíu og fjögurra ára að aldri.

Jónas Árnason var fæddur á Vopnafirði 28. maí 1923. Foreldrar hans voru hjónin Árni Jónsson frá Múla alþingismaður og Ragnheiður Jónasdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1942, stundaði nám í BA-deild Háskóla Íslands 1942--1943 og nám í blaðamennsku við háskóla í Washington og Minneapolis í Bandaríkjunum 1943--1944. Hann var blaðamaður við Fálkann 1944--1946, við Þjóðviljann 1946--1952 og var jafnframt ritstjóri Landnemans 1947--1952. Árin 1953--1954 var hann sjómaður. Eftir það starfaði hann löngum við kennslu. Hann kenndi um tíma við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað, við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í Reykjavík og við Héraðsskólann í Reykholti.

Jónas Árnason var oft í framboði við alþingiskosningar, fyrst fyrir Sósíalistaflokkinn, síðan Alþýðubandalagið. Hann var landskjörinn alþingismaður 1949--1953 eftir kosningar í Seyðisfirði og 1967--1971 eftir kosningar í Vesturlandskjördæmi. Þingmaður Vesturlandskjördæmis var hann 1971--1979. Í apríl 1959 var hann um tíma á þingi landskjörinn varaþingmaður. Hann átti sæti á 19 þingum alls. Fulltrúi á þingi Evrópuráðsins var hann 1973--1979 og sat fjórum sinnum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Faðir Jónasar, Árni frá Múla, svo og afi hans, Jón Jónsson í Múla, sátu lengi á Alþingi. Einn langafa Jónasar, Jón Jónsson á Lundarbrekku, sat þjóðfundinn 1851.

Í foreldrahúsum hlaut Jónas kynni af stjórnmálahreyfingum í landinu. Faðir hans fékkst lengi við blaðamennsku og ritstjórn. Jónas stundaði nám í þeim greinum vestanhafs að loknu menntaskólanámi. Síðan var hann blaðamaður að aðalstarfi nokkur ár. Kennsla í unglingaskólum varð síðar aðalstarf hans að undanskildum þeim árum sem hann sat á Alþingi. Helstu áhugamál og umræðuefni hans á Alþingi voru menningar- og menntamál, listir og þjóðfrelsis- og alþjóðamál. Hann var ekki langorður í ræðustóli, en málsnjall, beinskeyttur og orðheppinn.

Jónas Árnason var afkastamikill rithöfundur og skáld. Ritstörf voru hugðarefni hans enda var hann vel til þeirra fallinn. Hann hafði kynnst sjómannslífi og þess gætir víða í skrifum hans og skáldskap. Hann skráði endurminningar kunningja sinna sem höfðu stundað sjómennsku, samdi sögur og orti kvæði, mörg þeirra vel til söngs fallin og þjóðkunn. Allmörg leikrit samdi hann sem nutu vinsælda á leiksviði. Í þeim voru söngvar sem urðu landfleygir, margir þeirra undir ljúfum erlendum lögum. Aðrir vinsælir söngvar urðu til í samstarfi Jónasar og Jóns Múla, bróður hans, sem lögin samdi.

Síðustu æviárunum eyddi Jónas Árnason í rósemi í bústað sínum að Kópareykjum í Reykholtsdal.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Jónasar Árnasonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]