1998-04-06 14:17:20# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ábyrgðarleysi, siðblinda, hagsmunaárekstrar, eiginhagsmunapot. Botnlaus sóun á almannafé í bankakerfinu. Alþingi vanvirt mað rangri upplýsingagjöf frá ráðherra og enginn ber ábyrgð.

Þessi orð brenna á vörum fólks í þjóðfélaginu og krafan er hávær, herra forseti, að á þessu máli verði tekið. Tugmilljarða útlánatöpum bankanna, háum vöxtum og himinhárri gjaldtöku í bankakerfinu hafa skattgreiðendur þurft að standa undir. Sóun Landsbankans í óhóflega risnu, ferðalög og dagpeninga, líka til maka, og önnur hlunnindi til toppanna eru á kostnað almennings. Meira að segja tómstundaáhugamál þeirra, laxveiðar, borga skattgreiðendur á sama tíma og fjöldi starfsmanna bankans voru reknir og bankinn var á framfæri almennings þegar nokkrir milljarðar voru veittir af skattfé til að bjarga bankanum. Allt er þetta svo kórónað með því að einn bankastjóranna er beggja vegna borðs og selur sjálfum sér og bankanum laxveiðileyfi og græðir sjálfur á öllu saman.

Misrétti í launakjörum kynjanna í bönkunum, sem upplýst var á Alþingi, er líka nú til meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála. Og enginn ber ábyrgð, herra forseti. Þetta er myndin sem fólk hefur og fólki ofbýður. Allt hefur þetta æpt á fólkið í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og missirum, ekki síst þann stóra hóp fólks sem skömmtuð eru sultarlaun sér og sínum til framfærslu. Og enginn ber ábyrgð, herra forseti. Og nú á síðustu dögum bætast laxveiðar við ofan á allt annað, og svo yfirgengilega miklar laxveiðar að það er engu líkara en að stjórnendur bankanna séu úti í laxveiðiánum hvern einasta dag á sumrin í stað þess að stjórna bankanum. Líklegt er að hætti stjórnendur bankanna þessu tómstundaáhugamáli sínu á kostnað almennings þá verði verðfall á laxveiðileyfum til hagsbóta fyrir hinn venjulega borgara sem greiðir laxveiði sína sjálfur.

Það verður líka að koma upp á borðið hverjir fóru í þessar ferðir. Sú fyrirspurn hefur verið lögð fram og henni verður að svara, þó ekki væri nema til að staðreyna hvort um skattalega misnotkun hafi verið að ræða. Laxveiðar bankans er varla hægt að kalla annað en skemmtiferðir, gjafir, hlunnindi eða mútur sem bannaðar eru samkvæmt samkeppnislögum ef það leiðir til forréttinda í viðskiptum umfram aðra. Auk samkeppnislaga þarf líka að skoða hvort brotin hafi verið skattalög, bankalög og ákvæði starfsmannalaga og ég beini því til hæstv. viðskrh. að svo verði gert og spyr hann um það.

Herra forseti. Nú hefur keyrt um þverbak. Röng upplýsingagjöf til Alþingis. Mælirinn er hreinlega fullur. Svarið er ekki nægjanlega nákvæmt, segir bankaráðið bara. Meira en helming vantar þó upp á rétta upphæð. Hvernig stendur á því að bankastofnun getur ekki lagt saman og skilað skammlaust til þingsins upplýsingum um fjárhæðir sem í heildina nema rúmum 40 millj. kr.? Ekki var það af tímaskorti, herra forseti, því það tók bankann þrjá mánuði að koma þessum röngu upplýsingum til þingsins þó þeir hafi einungis tíu daga til þess samkvæmt þingsköpum, eða álíka tíma og það tók Ríkisendurskoðun að leiðrétta rangfærsluna. Ég bið ráðherra um skýringu á þessu.

Í bankakerfinu, einkum Landsbankanum, virðast eiga sér stað alvarlegir siðferðisbrestir, dómgreindarleysi og hrein græðgi í ýmsum kostnaðargreiðslum og starfskjörum stjórnendanna. Af mörgu er að taka en ég nefni bara tvennt, risnu og ferðalög. Það hrópar á mann og maður spyr: Af hverju öll þessi risna hjá Landsbankanum? Á árinu 1996 var þessi risna nærri helmingi hærri en hjá forsrn. og embætti forseta Íslands til samans, en á rúmlega fjóru og hálfu ári nam risnan um 80 millj. kr. Það hrópar á mann og maður spyr: Hvernig stendur á því að fara þurfti í 379 ferðir til útlanda á rúmlega fjóru og hálfu ári, sem samsvarar því að fjórða hvern dag allt árið um kring er einhver úr bankanum á ferðalagi erlendis? Halda mætti að bankinn væri hvorki síma- né tölvutengdur þegar fjórða hvern dag þarf einhver stjórnenda eða aðrir að vera erlendis og eyða í það 102 millj. kr. á liðlega fjóru og hálfu ári. Og enn sem fyrr, herra forseti, ber enginn ábyrgð.

Ríkisendurskoðun er nú að staðreyna hvort upplýsingar sem ég hef fengið á þessu og síðasta þingi um risnu-, ferða- og bifreiðakostnað og öll starfskjör stjórnendanna séu réttar eða hvort Alþingi hafi líka fengið þar rangar upplýsingar. Svo mjög ofbýður fólki þessar fjárhæðir að vonandi kemur ekki í ljós að þær hafi verið hærri.

Herra forseti. Sú staða er komin upp að löggjafarsamkoma þjóðarinnar hefur verið lítilsvirt með rangri upplýsingagjöf frá framkvæmdarvaldinu. Algjör trúnaðarbrestur ríkir og löggjafarsamkoman hefur orðið fyrir hreinu áfalli í samskiptum sínum við framkvæmdarvaldið. Hér eftir, herra forseti, mun algjör tortryggni ríkja um svör ráðherra til þingsins nema hart verði við brugðist. Nú reynir ekki síst á forsn. þingsins. Spurt er brennandi spurninga, herra forseti, hvernig ætlar forsn. að bregðast við til að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu? Um það spyr ég.

Ég legg til að lög um ráðherraábyrgð verði endurskoðuð og að ráðherra sem gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar skuli sæta ábyrgð eins og gerist í löndunum í kringum okkur en að hann geti ekki áfram borið ábyrgðina á undirmenn sína eða aðra. Ég legg til að nefndir þingsins geti að eigin frumkvæði þegar látið fara fram opinbera rannsókn á svona og viðlíka málum sem m.a. snerta sóun og misnotkun á fé skattborgaranna. Ég legg til að Alþingi beiti sér fyrir því að farið verði í saumana á því hvernig bæta megi siðferði í stjórnsýslunni. Siðferðismat er þar í molum, leikreglur þarf að setja.

Ég legg til að farið verði ofan í alla löggjöf og allar opnar heimildir Alþingis til framkvæmdarvaldsins. Þannig verði varpað ljósi á það hvort of rúmar eða óskýrar heimildir Alþingis til framkvæmdarvaldsins geti verið orsök sóunar eða of lítils aðhalds í meðferð opinberra fjármuna eða skilvirks eftirlits af hálfu löggjafarvaldsins með framkvæmdarvaldinu. Í lögum þarf líka að skýra betur og skilgreina hver beri ábyrgð og hvernig með skuli farið ef eitthvað fer úrskeiðis. Starfsaðstaða og verksvið Ríkisendurskoðunar verður líka að vera með þeim hætti að hægt sé að fela Ríkisendurskoðun, en ekki ráðherra, að svara fyrirspurnum þar sem hætta getur verið á hagsmunaárekstrum ef ráðherra eða undirstofnanir hans eru vanhæfar til að svara fyrispurnum frá Alþingi sem snerta meðferð á fé skattborgaranna.

Ég beini því til forseta þingsins hvort þess megi vænta, herra forseti, að þessar reglar verði teknar til skoðunar en sumar þeirra liggja nú þegar fyrir þinginu og tillögur sem ég hef þar lagt fram. Spurningarnar sem ég afhenti ráðherra í gær og hér hefur verið dreift til þingmanna lúta m.a að eftirliti, ábyrgð ráðherra og bankaráðs, lögum sem hugsanlega hafa verið brotin, og hvernig ráðherra hyggst bregðast við í þessu máli og hvaða skýringar hann hefur á þeim röngu upplýsingum til Alþingis sem ég nú vænti að fá svör við.

Herra forseti. Þessu máli er langt frá því að vera lokið. Virðing Alþingis er í húfi að á þessu máli verði tekið. Þjóðin krefst þess að þeir sem hún kallar til forustu og þeim sem fengið er vald til ákvarðanatöku og ráðstöfunar á skattfé almennings axli ábyrgð. Eftir því verður nú gengið, herra forseti.