1998-04-06 14:46:49# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:46]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í mínum huga lýtur þetta mál að Alþingi með tvennum hætti. Í fyrsta lagi hvað varðar meðferð almannafjár og í því sambandi á margt eftir að koma fram en það er til frekari skoðunar og mun ég því ekki fjalla mikið um það. Hitt atriðið sem mér finnst vera kjarnaatriði í málinu er sú ábyrgð sem hæstv. viðskrh. ber á því að rangar upplýsingar eru bornar inn á Alþingi. Ég held að enginn hafi sett þau viðhorf fram að hæstv. ráðherra hafi borið þessar upplýsingar fram af ásetningi eða gáleysi. Ég held að enginn hafi haldið því fram í umræðunni. En það breytir engu um það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Hann ber ábyrgð á undirmönnum sínum og hann ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann leggur fram á Alþingi. Góð trú, ásetningur eða gáleysi skiptir þar engu máli. Hæstv. viðskrh. ber ábyrgð á þessum upplýsingum og það er kjarni málsins. Í annan stað, virðulegi forseti, óttast ég mjög að þær upplýsingar sem hafa borist þannig inn á Alþingi og komið hefur í ljós að hafa reynst rangar muni gera það að verkum að aukin tortryggni muni ríkja í garð þeirra upplýsinga sem hingað eru bornar inn á þingið frá hæstv. ráðherrum. Væntanlega mun það gerast í framhaldinu að hv. þm. munu oftar óska þess að Ríkisendurskoðun fari yfir þessi svör og það er mjög slæmt að þessi tortryggni sé uppi.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta mál er í huga mínum dálítil prófraun á íslenskt samfélag, þ.e. hvort einhver beri ábyrgð þegar mál af þessum toga koma upp. Satt best að segja er sagan þess eðlis að ekki er hægt að vænta þess að nokkur þurfi að bera ábyrgð í þessu máli frekar en öðrum en kannski í mesta lagi þeir sem lægst eru settir. Ég vona þó, virðulegi forseti, að við berum gæfu til þess í fyrsta sinn að menn beri ábyrgð í samræmi við þau störf sem þeim er falið að sinna og í samræmi við þá stöðu sem þeir hafa og ég hvet hæstv. viðskrh. til að hafa það í huga.