1998-04-06 14:54:46# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál er í huga mínum miklu stærra en svo að það snúist um að hengja upp eitt stykki bankastjóra eða þótt þeir yrðu þrír. Þetta mál snýst um ábyrgð. Þetta snýst m.a. um ábyrgð Sjálfstfl. Sá bankastjóri sem á einna alvarlegastan hlut að máli vegna einkahagsmuna\-árekstra er fyrrv. þingmaður og ráðherra Sjálfstfl., kominn í þetta embætti gegnum flokkspólitíska ráðningu. Formaður bankaráðs Landsbankans á nær öllu þessu tímabili, hver er það? Er það einhver Jón Jónsson úti í bæ? Nei, það er framkvæmdastjóri Sjálfstfl. og góðvinur hæstv. forsrh. að sögn. Ábyrgð Framsfl. og hæstv. viðskrh. er einnig mikil. Hæstv. viðskrh. var spurður og það er hæstv. viðskrh. sem svarar og það er ekki frambærilegur málflutningur, hvorki af hálfu hæstv. viðskrh. né hæstv. forsrh. að vísa ábyrgðinni niður á við í kerfinu. Verður kannski að lokum látið nægja að reka sendisveininn eða skúringakonuna? Eða finnst einhver lágt sett vélritunarstúlka í Landsbankanum sem vélritaði upp hið vitlausa svar? Verður það hún sem á að taka pokann sinn? En það eru fleiri sem bera ábyrgð. Hæstv. viðskrh. ber ekki bara ábyrgð vegna svarsins sem hann bar fyrir Alþingi. Hæstv. viðskrh. er yfirmaður bankamála, fer með eignarhlut almennings í bankanum og það er hæstv. viðskrh. sem lét sér ganga úr greipum tækifæri til að endurskipuleggja bankana þegar þeir voru ,,háeffaðir`` og framlengdi alla gömlu bankastjórana, þrátt fyrir tillögur stjórnarandstöðunnar um annað. Þar held ég að mesta ábyrgð hæstv. viðskrh. liggi. Hann ber fulla pólitíska ábyrgð á ástandinu í bönkunum, vegna þess að hann setti þá á, hann setti þá alla á, gömlu flokkspólitísku bankastjórana, og Alþfl. ber reyndar einnig ábyrgð. Hann hefur verið fullgildur þátttakandi í þriggja stoða kerfinu, þriggja bankastjóra kerfinu og nýtt kvóta sinn.

Herra forseti. Það er lágmarkskrafa að æðstu menn sem bera ábyrgð í málinu taki pokann sinn en ekki þeir lægst settu.