1998-04-06 14:57:17# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Yfirskrift umræðunnar er um ranga upplýsingagjöf. Það er yfirskrift umræðunnar. Þó kaus þessi hv. þm. að reyna að gera mjög ósmekklega að sök manns sem hvergi hefur nærri komið, Kjartans Gunnarssonar, formanns bankaráðs Landsbankans, þar til um áramótin síðustu, sem er sennilega fyrsti bankaráðsformaður í sögu bankans sem hefur ekki þegið veiðitúr á vegum bankans, sem er formaður bankaráðsins þegar ákveðið er að slíkum veiðiferðum skuli hætt. Það er ekki hans síðan að fylgja slíkri ákvörðun fram. Það voru m.a. gefnar um það opinberar yfirlýsingar að slíkum veiðiferðum yrði hætt. Þetta var afskaplega ósmekkleg árás hv. þm. hér áðan.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi að þetta væri upphæð sem samsvaraði rekstri á heilsugæslustöðum. Þetta er þó ekki nema helmingi lægri upphæð en gjaldþrot Þjóðviljans í Landsbankanum sem Alþb. þóttist opinberlega hafa borið ábyrgð á. Það mætti líka nefna slíkar tölur til samanburðar.