1998-04-06 14:58:30# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það skyldi ekki vera að þetta væri til marks um það sem koma skal í málinu að hæstv. ráðherrarnir fari að reyna að snúa þessu upp í leðjuslag og kenna öllum öðrum um og taka þá fleiri með sér í gröfina? Eru það kannski fleiri en Ögurvíkingurinn sem ætlar að hafa mann fyrir sig í þessu máli? Mér fannst málflutningur hæstv. forsrh. benda til þess. Að fara að draga aðra og alls óskylda hluti inn í þetta bendir ekki til að menn hafi mikinn áhuga á að ræða um málið efnislega. Með öðrum orðum, herra forseti, það á greinilega að reyna að koma þeim undan ábyrgð sem ábyrgð bera í málinu. Öll framganga hæstv. ráðherra í umræðunni lyktar af því að vísa ábyrgðinni niður á við. Það held ég að menn muni ekki sætta sig við. Ég veit ekki betur en Sjálfstfl. beri mjög ríka ábyrgð á málinu í gegnum alla tíð þess. Það voru bankaráðsfulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. sem knúðu það í gegn eftir hörð átök að Sverrir Hermannsson var ráðinn í staðinn fyrir faglegan mann úr bankanum sem tillaga var um á móti. Það kostaði afsögn eins af bankaráðsfulltrúum Sjálfstfl. en flokkshagsmunir voru samt látnir ráða. Það var knúið í gegn með atkvæðum núverandi ríkisstjórnarflokka að Sverrir Hermannsson var ráðinn inn í Landsbankann. Allan tímann síðan hafa þessir sömu flokkar verið í ráðandi stöðu í þessum bankaráðum þannig að hvort framkvæmdastjóri Sjálfstfl. hefur verið formaður bankaráðsins árinu lengur eða skemur skiptir ekki máli hér. Eða er hæstv. forsrh. að segja að Kjartan hafi verið áhrifalaus í bankaráðinu? Annað hefur manni heyrst. Svona formúlur, herra forseti, duga ekki hér. Það hlýtur að mega nefna manninn á nafn þó að hann sé framkvæmdastjóri Sjálfstfl.