1998-04-06 15:02:24# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Á Alþingi leggja þingmenn iðulega fram fyrirspurnir til að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar eitthvað rangt eða umdeilanlegt hefur gerst í stjórnkerfinu. Þetta á við um laxveiðar bankastjóra og þetta á við um fjölmargt annað. Nú hefur komið í ljós að sá sem verður fyrir gagnrýni er sá hinn sami og undirbýr svör ráðherra sem les þau upp eða setur þau fram skriflega, fullkomlega gagnrýnislaust. Með andvaraleysi sínu er ráðherra hins vegar orðinn ábyrgur og ríkisstjórnin öll og hæstv. forsrh. gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir þessu og þess vegna rís hann hér upp sjálfum sér til varnar.

Sú spurning sem vaknar í mínum huga er hversu almennur þessi blekkingarleikur er því víst er að hér er ekki um einsdæmi að ræða. Í haust komu fram staðhæfingar í þinginu um að rafmagnseftirlit í landinu væri í lamasessi eftir að það var einkavætt og að tilkostnaður við einkaframkvæmdina hefði rokið upp úr öllu valdi. Hæstv. iðnrh. vísaði öllu þessu á bug og kvað hann allt vera í himnalagi. En það skyldu þó aldrei hafa verið sömu aðilar og gagnrýndir voru sem undirbjuggu svör hæstv. ráðherra?

Hæstv. iðnrh. verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í fleiri málum en bankalaxmálinu. Og það eru fleiri en hæstv. iðnrh. sem þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Þeir sem hafa blekkt almenning og ekki risið undir þeirri ábyrgð sem þeir hafa axlað eiga að víkja úr starfi undanbragðalaust og skilyrðislaust á að sjá til þess.

En það er annað og meira sem hangir á þessari spýtu. Þjóðin mun ekki sætta sig við að þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu máli, eða hafa verið ábyrgir fyrir þessu máli, fái nýjar ábyrgðarstöður á vegum almannavaldsins. Mál þetta þarf að rannsaka ofan í kjölinn og það er skylda Alþingis að taka málið fyrir að nýju og fylgjast með framvindu þess. Því er ekki lokið með þessari umræðu sem hefur aðeins sýnt okkur toppinn á spillingarísjakanum í íslensku þjóðfélagi.