Frekari upplýsingar um laxveiðikostnað Landsbankans

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:13:04 (5388)

1998-04-06 15:13:04# 122. lþ. 101.94 fundur 297#B frekari upplýsingar um laxveiðikostnað Landsbankans# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja von á því að hæstv. forseti hefði einhvern boðskap að flytja Alþingi að loknum þeim umræðum sem fóru fram hér áðan um það hvernig forsetar þingsins ætluðu að tryggja að Alþingi gæti fengið að fylgjast með þeirri vinnu sem fram undan er sem byggist á því sem sjaldan eða aldrei hefur komið fyrir áður, þ.e. að Alþingi hafi verið veittar gróflega rangar upplýsingar. Hæstv. iðnrh., ráðherra bankamála, er ábyrgur gagnvart Alþingi. Alþingi getur ekki snúið sér til annarra en hans með beiðni um frásögn eins og gert hefur verið í dag. En það er stofnun sem heyrir undir Alþingi, Ríkisendurskoðun, sem fer með rannsókn málsins. Og hvað ætla forsetar Alþingis að gera til að tryggja að Alþingi sem stofnun geti fengið allar þær upplýsingar og fylgst með því máli sem fram undan er varðandi rannsókn á því alvarlega máli sem hér hefur komið upp? Ég tel að forseti Alþingis verði að skýra Alþingi frá því hvernig forsetadæmið ætli að tryggja að Alþingi fái þessar upplýsingar. Hægt er að gera það með því að kjósa sérstaka nefnd á vegum Alþingis til að fylgjast með málinu. Hægt er að gera það þannig að forsetadæmið tryggi að þingflokkar geti fylgst með því með því að halda sérstaka fundi með formönnum þingflokka. Það er líka hægt að gera það þannig að forsetadæmið beiti sér fyrir því að dreift verði upplýsingum til alþingismanna fari svo að rannsókn málsins verði ekki lokið fyrr en eftir að þinghlé hefur verið gert á komandi vori. En það er ekki hægt að skiljast við þetta mál eftir þær umræður sem hér hafa farið fram öðruvísi en að spyrja hæstv. forseta: Hvernig ætlar forseti Alþingis að tryggja að Alþingi geti fylgst með framvindu málsins og fái nákvæmar og réttar upplýsingar um þá athugun sem nú fer fram á vegum stofnunar sem heyrir undir Alþingi Íslendinga?